Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 20:32:56 (1006)

1996-11-07 20:32:56# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., VK
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[20:32]

Viktor B. Kjartansson:

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að taka undir með flm. varðandi það frv. sem hann kynnir hér og tengist lágmarkslaunum. Eins og staðan er í dag held ég að varla sé hægt að framfleyta fjölskyldu fyrir 80 þús. kr. á mánuði og ég hefði helst viljað sjá þarna hærri tölu ef eitthvað væri. Hins vegar er spurning hvort það sé í raun hlutverk ríkisins að setja slík lög og taka þar með fram fyrir hendurnar á þeim samningsaðilum sem eiga að fjalla um þessi mál. Það er umhugsunarefni ef svo er komið fyrir þjóðinni að setja verður lög til þess að knýja á um slík málefni. Það hefur líka komið fram að þar sem slík lög hafa verið sett hafa ýmsir hlutir því miður fylgt með eins og aukið atvinnuleysi sem kemur til af því að fyrirtæki hafa þá þurft að segja upp starfsfólki vegna þess að þau hafa ekki getað greitt þau lágmarkslaun sem lögbundin hafa verið. En það þykir mér samt sem áður ansi ótrúlegt með þeim lágmarkstöxtum sem í gildi eru. Ég held að fyrirtækjum sé að verða það ljóst að taxtar og laun af þessu tagi ganga ekki öllu lengur og mér hefur sýnst að það sé að skapast skilningur á því að taka verði til hendinni og ég hef trú á því að í þeim kjarasamningum sem nú eru í uppsiglingu muni koma fram nýjar línur í þessum efnum og það muni skýrast að fyrirtæki muni treysta sér til að greiða hærri laun og samið verði um meiri launahækkanir en oft áður. Það er nú einu sinni þannig að það er ekki neinu fyrirtæki til góðs ef starfsfólkið getur með engu móti framfleytt sér eða sínum og þarf að lifa óhamingjusömu lífi og getur þá aldrei orðið góður starfskraftur fyrirtækinu til framdráttar.