Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 20:37:33 (1008)

1996-11-07 20:37:33# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., KH
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[20:37]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er löngu tímabært að taka á þeim vanda sem er tilefni þessa frv. eins og síðasti ræðumaður tók sannarlega undir. Þingheimur ætti að muna að það hefur Kvennalistinn æ ofan í æ reynt að gera þótt þess sé ekki getið, a.m.k. ekki í greinargerð þessa frv.

Við kvennalistakonur fluttum fyrst frv. um lágmarkslaun fyrir 11 árum og endurfluttum það nokkrum sinnum á næstu árum með ýmsum tilbrigðum. Þá ættu a.m.k. alþýðuflokksmenn að muna að vorið 1987 áttum við í viðræðum um myndun ríkisstjórnar við alþýðuflokksmenn og sjálfstæðismenn, viðræður sem strönduðu loks á kröfu Kvennalistans um aðgerðir til að bæta kjör hinna lægstlaunuðu. En í því efni sáum við ekki annað vænna en lagasetningu þess efnis að óheimilt væri að greiða laun fyrir dagvinnu undir ákveðnum viðmiðunarmörkum. Því miður vildu hvorki sjálfstæðismenn né alþýðuflokksmenn þá fara þá leið og höfðu ekki aðrar leiðir fram að færa og því fór sem fór og Kvennalistinn fór ekki í ríkisstjórn.

Síðasta þingmálið um þetta efni var flutt á 118. löggjafarþingi af þáv. þingkonum Kvennalistans undir forustu Kristínar Sigurðardóttur varaþingkonu. Sú tillaga gerði ráð fyrir því að fela ríkisstjórninni að vinna að því að enginn launþegi í fullu starfi þyrfti að sæta launakjörum undir því marki sem reiknaður lágmarksframfærslukostnaður gefur. Það var ekki lagt fram frv. í það sinn en það gefið til kynna að markmiðinu mætti ná með lagasetningu, samningum eða öðrum ráðum og verkefninu lokið innan tveggja ára. Við höfum alltaf gengið út frá því að það sé siðferðilegur réttur hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu. Í raun er það neyðarráðstöfun ef setja þarf lög um þessi efni því að auðvitað á það að vera hlutverk og verkefni vinnumarkaðarins en ekki löggjafans, ekki Alþingis, að sjá til þess að full dagvinnulaun nægi einstaklingi til framfærslu. Eins og ástandið er nú er það óviðunandi. Við vitum að margir eru þannig settir að þeir rétt skrimta af launum sínum eða eiga alls ekki fyrir nauðþurftum og í landi þar sem nauðsynjavörur eru dýrar, félagsleg aðstoð að mörgu leyti ófullnægjandi, sérstaklega hvað varðar gæslu og umönnun barna, húsnæði er fremur dýrt og fleira mætti telja, þá er það í rauninni ógnvekjandi að dagvinnulaun skuli vera jafnlág og raun ber vitni. Að sjálfsögðu eru hinar ýmsu bætur meira og minna miðuð við þessi sultarkjör, lífeyrir aldraðra, öryrkja, atvinnulausra og annarra bótaþega. Þetta fólk hefur tæpast svarað brosandi spurningum í könnun um hamingju sem oft hefur verið vitnað til. Því miður er það nú svo að afkoma fólks á lægstu launum byggist yfirleitt á því að viðkomandi er á framfæri annarra eða þá að hann lifir beinlínis við skort og fátækt eða safnar skuldum. Þetta er auðvitað óþolandi ástand. Það er óþolandi að atvinnurekendur, sem ég vil heldur kalla vinnukaupendur, láti sér sæma að nýta fulla starfskrafta fólks án þess að greiða því laun sem duga til eðlilegrar framfærslu. Það er mikill misskilningur sem sumir telja að það sé styrkur fyrir hagkerfið að halda stórum hópum á lágum launum. Það er í rauninni alrangt og jafnvel þveröfugt. Það veikir beinlínis hagkerfið og þjóðfélagið allt, spillir heilsufari fólks og lamar efnahagslega hóp sem ætti að geta staðið undir verulegri veltu með neyslu sinni. Reyndar er ekki við atvinnurekendur eina að sakast. Allir þekkja hinn óformlega launastiga verkalýðshreyfingarinnar þar sem flestir hópar miða við ákveðið bil milli sín og annarra hópa bæði fyrir ofan sig og neðan í launastiganum og menn bregðast strax við ef einhverjum hópi tekst að fá laun sín hækkuð. Það hefst samanburður og togstreita milli hópa í anda hins fræga Mesópótamíulögmáls, sem nokkuð kom við sögu í viðræðum um myndun ríkisstjórnar vorið 1987 og hefur oft verið minnt á síðan. En við getum ekki beygt okkur undir slík nauðhyggjurök að þessu ástandi sé ekki hægt að breyta. Við verðum að leita allra leiða til þess að breyta því og ein leiðin er að setja lög um lágmarkslaun eins og frv. hv. þm. þingflokks jafnaðarmanna kveður á um. Það er hins vegar ekki einfalt mál eins og ég drap áðan á því að það varðar mjög marga launahópa.

[20:45]

Að lokum vil ég aðeins koma því að Kvennalistinn hefur einmitt mikið velt því fyrir sér hvernig hægt sé að koma í veg fyrir óæskileg áhrif slíkrar lagasetningar og tryggja að hún nái tilætluðum árangri. Því er sífellt haldið á lofti, sem ég kom inn á áðan, að hættan er nokkur á miklum óróleika, víxlverkandi hækkun launa og þar fram eftir götum og jafnvel verðlagshækkunum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja víðtækt samráð allra aðila vinnumarkaðarins um framkvæmd lögbindingar lágmarkslauna. Ég minni í því sambandi á tillögu sem þingkonur Kvennalistans fluttu fyrir nokkrum árum, á 110. löggjafarþingi, einmitt í tengslum við frv. um lágmarkslaun. Efni þeirrar tillögu var að fela forsrh. að skipa samstarfshóp fulltrúa allra þingflokka og helstu samtaka vinnumarkaðarins og að starfshópurinn hefði það verkefni að finna og móta leiðir til að tryggja jákvæð áhrif lögbindingar lágmarkslauna. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera eitthvað slíkt ef þetta frv. yrði samþykkt því annars kynni svo að fara að betur væri heima setið.

Frv. er ákaflega blátt áfram og orðfátt, kannski svolítið snubbótt jafnvel. (Gripið fram í: Það á að vera það.) En ég vona sannarlega að þingnefndin sem fær frv. til meðferðar láti ekki hjá líða að taka það til ítarlegrar umfjöllunar og ræði það bæði hugmyndafræðilega og hvernig tryggja megi framgang þess þannig að það komi að gagni. Ég vil taka undir með hv. síðasta ræðumanni og ég vænti þess af öllum sem hér hafa talað að nú verði tekið til hendinni og þessari þróun snúið við. Þjóðfélagið allt mundi hagnast á því.