Lágmarkslaun

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 20:47:36 (1009)

1996-11-07 20:47:36# 121. lþ. 20.12 fundur 87. mál: #A lágmarkslaun# frv., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[20:47]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Viktori B. Kjartanssyni, Kristínu Ástgeirsdóttur og Kristínu Halldórsdóttur fyrir undirtektir við þetta frv. Hv. þm. Viktor B. Kjartansson tók eindregið undir að 80 þús. kr. lágmarkslaun væru síst of há. Hann gerði sér reyndar vonir um að atvinnufyrirtækin væru búin að átta sig á því að þeir launataxtar sem gilda í landinu eru hættulega lágir. Ég vil ítreka þakkir mínar til hans vegna þessa. Ég tek undir með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, að ef ekki koma fram nýjar línur er nauðsynlegt að binda lágmarkslaun sem öryggisnet vegna þess hvernig hugmyndir Vinnuveitendasambandsins eru settar fram núna. Ég vona að fólk geri sér grein fyrir því að þær hugmyndir um launabætur, um 3,5--4% eru eitthvað allt annað en rætt hefur verið um. Í hugmyndum þeirra, þó þær séu ekki nákvæmlega útfærðar, kemur fram að síðan átti að taka til hagræðingar og afnema neysluhlé og annað slíkt.

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur fyrir hennar umfjöllun. Ég gat þess í framsögu með þessu máli að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem frv. um lágmarkslaun væri flutt. Ég gat þess ekki að það hefði verið flutt af Kvennalista. Mér er ljúft og skylt að segja að það er rétt. En ég vil minna á það að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson flutti líka frv. um lögbindingu lágmarkslauna fyrir nokkrum árum síðan og stílfærði það eftir frönskum lögum um bindingu lágmarkslauna.

Það er grundvallaratriði að einstaklingurinn geti framfleytt sér með launum fyrir átta stunda vinnu eða fyrir fulla dagvinnu á mánuði. Það er ekki hægt í dag, það er ekki hægt fyrir núverandi lágmarkslaun. Það er ekki heldur hægt fyrir 60 þús. kr. á mánuði.

Mér eru minnisstæð orð ungrar stúlku sem var í Þjóðarsálinni miðvikudaginn 30. október sl. Þar lýsti þessi unga stúlka því að hún var að stofna heimili ásamt unnusta sínum. Þau voru sameiginlega með 120 þús. kr. á mánuði. Þau eiga eitt barn og eru að basla við að fjárfesta í húsnæði. Hún lýsti því átakanlega hversu ómögulegt það væri að komast áfram á þessum lágu launum. Hún ásakaði að sjálfsögðu alþingismenn. Hún sagði, þessi ágæta stúlka: ,,Alþingiskarlarnir, það eru þeir sem ráða þessu. Ráðherrarnir, alþingiskarlarnir.`` Þetta er nefnilega ímyndin sem mjög margir hafa. Þeir átta sig ekki á því að samningar eru gerðir á milli aðila vinnumarkaðarins. En núna er orðin ástæða til að grípa inn í.

Ég velti því fyrir mér hvort fólk hefur áttað sig á því að það sem ég er með hér og heitir greiðslukort, spilar orðið mjög alvarlegan þátt í lífi launafólks. Fólk freistast til að taka sér greiðslukort. Það er mjög auðvelt að semja fram í tímann um að fresta greiðslu í tvo eða þrjá mánuði. Það eru fjölmargir íslenskir alþýðumenn komnir í greiðsluvanda út af greiðslukortum. Þeir hafa ekki efni á að fara í verkfall. Það er m.a. ein af ástæðunum fyrir því að undirritaður leyfir sér að leggja frv. fram og segir um leið að það er skammarlegt að þurfa að leggja þetta frv. um lágmarkslaun fram á hinu háa Alþingi, í velferðarríkinu Íslandi.

Herra forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra sem tóku undir flutning þessa máls. Ég vona svo sannarlega að það fái góðan framgang í meðhöndlun hv. félmn.