Aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:09:58 (1011)

1996-11-07 21:09:58# 121. lþ. 20.8 fundur 33. mál: #A aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er verið að fjalla um þáltill. um aðgerðir til að afnema launamisrétti kynjanna sem ég vil fagna vegna þess að þessi tillaga er allrar athygli verð. Raunverulega finnst mér þó nafnið ekki rétt á tillögunni vegna þess að hún er miklu umfangsmeiri og réttara væri að tala um þáltill. um opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar, svo víðfeðm er þessi tillaga og ég fagna henni. Og það er eitthvað slíkt sem ég hefði viljað að við hefðum verið að ræða í gær eða fyrradag þegar við vorum að fjalla um þáltill. ríkisstjórnarinnar um opinbera fjölskyldustefnu. Þar voru svona almennar fallegar markmiðslýsingar sem við sem höfum verið hér og þekkjum hvernig slíkt er framkvæmt, höfum kannski ekki mikla trú á. Þar var raunverulega ekkert sem hönd var á festandi, ekki neitt ákveðið sett fram nema að það átti að fara fram könnun á högum barnafjölskyldna sem þegar liggur fyrir. En það eru einmitt aðgerðir eins fram koma í þessari tillögu sem þarf til þess að bæta stöðu heimilanna og kynjanna á vinnumarkaðinum. Og það er einmitt slík stefna eins og hér kemur sem maður vildi sjá í framkvæmd.

Það er ýmislegt um þessa tillögu að segja. Það eru einstaka liðir sem ég vildi ræða á þessum stutta tíma sem ég hef.

Ég vil fagna því sem fram kemur um fæðingarorlof, þ.e. að það verði lengt í 12 mánuði í áföngum. Það sem ég tel brýnt að gert verði og ég held raunar að hafi verið fjallað um á landsfundi Kvennalistans, er að það þarf að breyta um fjármögnun á fæðingarorlofi. Það er algjörlega ófært hvernig þetta er, að konum á barneignaraldri skuli raunverulega vera refsað og þær stundum ekki teknar í vinnu ef það er einhver hætta á að þær eigi börn, af því það kostar fyrirtækið peninga ef þær fara í barneignarfrí. Þetta verður því að vera þannig að framlag komi úr einhverjum sameiginlegum sjóði sem atvinnurekendur og hið opinbera greiða iðgöld til þannig að það á ekki að skipta máli hvort það karlinn eða konan sem tekur sér fæðingarorlof hjá vinnuveitenda. Ég held að það sé mjög brýnt að menn reyni að ná saman um slíka leið í fjármögnun á fæðingarorlofi.

Fimmti töluliðurinn er mjög mikilvægur, þ.e að launakerfi ríkisins verði stokkað upp og launakerfið almennt verði gert sýnilegt. Ég hef flutt margar tillögur um þetta mál á þingi og við höfum sýnt fram á hvernig þetta neðanjarðarkerfi sem er í launamálunum almennt er undirrótin að launamisrétti kynjanna. Þess vegna var farið að fela launamisrétti 1966 þegar loksins hafði náðst fram fullt lagalegt jafnrétti. Þá var bara fundin önnur leið sem hefur vaxið æ síðan þannig að það er ekki nema lítill hluti af laununum sem er uppi á borði og sýnilegur og að finna í launatöxtum sem verkalýðshreyfingin er að semja um. Mig undrar oft að verkalýðshreyfingin skuli ekki taka undir með ýmsum þingmönnum sem hafa margoft talað um það hve nauðsynlegt er að gera launakerfið sýnilegt. Ég hef sjaldan heyrt verkalýðshreyfinguna tala um það. Forsenda þess að breyta launastrúktúrnum og launakerfinu almennt er að fá það upp á borðið.

Varðandi sjötta liðinn þar sem talað er um að ákvæðum 3. gr. jafnréttislaganna verði fylgt eftir. Hún kveður á um tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Ég er alltaf að komast meir og meir á þá skoðun að menn verða að setjast yfir það hvernig hægt er nýta þetta ákvæði. Þegar lögin voru samþykkt 1991 náðist samstaða um að setja þetta inn og þetta var auðvitað sett inn til að þessu yrði beitt. Ég held að það þurfi að fara yfir það í fullri alvöru og þessi þáltill. gefi alveg tilefni til þess. Væntanlega fer hún til félmn. Ég hvatti til þess þegar opinbera fjölskyldustefnan var hér til umræðu og framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum, að félmn. skoðaði sérstaklega hvort hún gæti náð samstöðu um tillögur í þá veru hvernig hægt væri að beita 3. gr. jafnréttislaganna. Það tel ég mjög mikilvægt og tel reyndar að konur á þinginu ættu að setjast saman yfir það hvort hægt sé að ná breiðri samstöðu um að beita henni.

[21:15]

Það að lægstu launin verði hækkuð í áföngum þá eru lægstu laun orðin svo mikill smánarblettur á þjóðfélaginu að maður skammast sín fyrir að vera stjórnmálamaður og geta ekki gert meira í að breyta þessum launum. Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir hvaða þjóðfélagslegar afleiðingar þessi lágu laun hafa. Það er líka efnahagslegt vandamál þegar fólk hefur ekki efni á að kaupa vörur í búðunum og það sem fyrirtækin framleiða. Hvaða þjóðfélagslegar afleiðingar og félagsleg vandamál skapar slíkt í þjóðfélaginu sem blæs út í félagslega kerfinu og heilbrigðiskerfinu? Þótt við séum í einhverri uppsveiflu sem kölluð er og efnahagsbata hef ég aldrei orðið eins áþreifanlega vör við hvað mikil uppgjöf er orðin í fólki og síðustu vikur og mánuði. Það er sorglegt að þurfa að viðurkenna þá staðreynd að við stöndum frammi fyrir því, eins og fram kom í blöðum nýlega, að 32 þús. einstaklingar lifi undir fátæktarmörkum þó Ísland sé sett á bekk með sjö ríkustu þjóðum heims. Ég tel að þurfi að skilgreina framfærslukostnað eða neyslustaðal, eins og hér kemur fram. Mér skilst að vænta megi öðru hvoru megin við áramót niðurstöðu í neyslukönnun frá Hagstofunni sem hún hefur verið að vinna að. Vera má að eitthvað megi nýta hana í því skyni sem hér er lagt til.

Ég vil spyrja hv. flm. um 9. tölul. þar sem fram kemur tillaga um að viðurlög við brotum á jafnréttislöggjöfinni verði stórlega hert, svo og eftirlit með að henni sé framfylgt. Hvað hugsar þingmaðurinn sér í þessu efni? Hvaða refsiákvæði eða viðurlög er þingmaðurinn með í huga? Það væri sennilega hægt að draga forstöðumenn annars hvers fyrirtækis fram og beita viðurlögum eða refsingu ef þetta ætti að virka. Og einnig hins opinbera og fjmrh. vegna þess að alls staðar viðgengst launamisréttið. Ekki síður hjá hinu opinbera. Fyrir nokkrum árum kom fram varðandi hlunnindagreiðslur og bílagreiðslur sem ríkið borgar, að um 90% rennur til karla en 10% til kvenna. Ég býst ekki við að það hafi mikið breyst frá þeim tíma sem þetta var kannað.

Tími minn er búinn en ég held að þetta sé hin merkasta tillaga sem er þess virði að skoða rækilega í þeirri nefnd sem fær hana til umfjöllunar.