Aðgerðir til að bæta stöðu skuldara

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 21:52:21 (1016)

1996-11-07 21:52:21# 121. lþ. 20.11 fundur 56. mál: #A aðgerðir til að bæta stöðu skuldara# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[21:52]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Sívaxandi skuldir heimilanna eru mikið til umræðu í þessum þingsölum og margir hafa á því máli skoðun. Nú þegar verið er að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara, þ.e. tillögu um það hvernig eigi að taka á því máli, þá eru færri viðstaddir og er það miður.

Hér er um að ræða mjög víðtækar aðgerðir sem taka bæði til hins opinbera, til lögmanna, til fjármálastofnana, til réttarstöðu ábyrgðarmanna, hvernig tryggja eigi efnalitlu fólki ókeypis lögfræðiþjónustu og fjármálaaðstoð vegna innheimtuaðgerða. Þannig að á þessu sést að hér er um mjög víðtækar aðgerðir að ræða.

Þessa tillögu flytja ásamt mér hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir og Gísli S. Einarsson.

Tillagan var flutt á síðasta þingi og var send til umsagnar ýmissa aðila. Verður að segja að flestar umsagnirnar voru mjög jákvæðar varðandi þá þætti sem ég hef hér greint frá þannig að ég bind vonir við að félmn., sem fær málið til umsagnar, taki þetta mál til ítarlegrar skoðunar og efnislegrar umfjöllunar og afgreiði málið aftur til þingsins þannig að þingmönnum gefist kostur á að taka afstöðu til þess.

Það vita allir að á því tímabili sem við höfum gengið í gegnum efnahagsþrengingar hefur verið mjög hert að heimilunum í landinu, bæði að því er varðar launakjörin, það hafa orðið litlar launahækkanir, og eins hefur verið þrengt mjög að velferðarkerfi fólksins. Það þarf því engan að undra þó að á þessum tíma líka í því atvinnuleysi sem við höfum búið við hafi skuldir heimilanna vaxið mjög. Því skýtur það mjög skökku við að á þessum tíma hefur hið opinbera grætt mjög á neyð heimilanna sem búa við mjög erfiða skuldastöðu.

Ef litið er til þjóðarsáttartímans frá 1990--1995 þá má áætla út frá svari fjmrh., sem ég fékk á síðasta þingi, að ríkissjóður hafi haft á þjóðarsáttartímanum í tekjur vegna gjaldtöku og skattlagningar af skuldum einstaklinga 17--18 milljarða kr. Maður hefði nú haldið að á þessum tíma hefði verið rétt að reyna að draga eitthvað úr þessari miklu gjaldtöku á heimilin. Einungis stimpilgjöld, þinglýsingagjöld og gjöld vegna fjárnáms og nauðungarsölu sem ríkið tekur eru áætlaðar um 2 milljarðar kr. Þá er ótalinn sá kostnaður sem fólk lendir í ef það getur ekki greitt sínar skuldir, ekki síst ef það lendir með skuldir sínar hjá lögmönnum, að lögfræðikostnaður er alveg gífurlegur. Sést það m.a. á þeim dæmum sem tekin eru í greinargerðinni hversu gífurlegur lögfræðikostnaðurinn getur orðið. Tekið var t.d. dæmi af 1,5 millj. kr. höfuðstól þar sem um var að ræða tveggja ára gömul vanskil og var lögfræðikostnaðurinn á þeirri skuld um 170 þús. kr. Ég held að að því er varðar innheimtu lögmanna þá sé að vaxa skilningur á því, m.a. hjá ríkisvaldinu og dómsmrh., að á því þurfi að taka, gera eins og hér er lagt til, að sett verði opinber gjaldskrá fyrir innheimtu lögmanna þar sem m.a. verði sett þak á innheimtuþóknun þeirra og aðra gjaldtöku af skuldurum. Þetta held ég að sé mjög brýnt mál og muni hjálpa mjög þeim heimilum sem búa við miklar skuldir og eiga í erfiðleikum með að greiða þær.

Eins er hér lagt til að settar verði reglur fyrir fjármálastofnanir um hámark gjaldtöku vegna vanskila skuldara. Það þekkja allir sem eru í miklum skuldum og þurfa að leita til fjármálastofnana og lenda þar í vanskilum hve mikill kostnaður er vegna vanskila. Undir það er tekið í umsögnum frá mjög mörgum aðilum, svo sem Húsnæðisstofnun, ASÍ og Ráðgjafarstöð um fjármál heimilanna, að á báðum þessum þáttum þurfi að taka, þ.e. að setja þak á innheimtu lögmanna og setja reglur fyrir fjármálastofnanir um hámark á gjaldtöku vegna vanskila.

Það er nokkuð athyglisvert að m.a. nefnd á vegum félmrh., sem hét samráðsnefnd um greiðsluvanda heimilanna og skilaði skýrslu 1995, tekur á mörgum þeim þáttum sem þessi tillaga fjallar um og styður þá og tekur undir mikilvægi þess að tekið sé á þeim þáttum sem hér eru nefndir. Það er einmitt athyglisvert í ljósi þess sem við vorum að samþykkja á síðasta þingi þar sem Framsfl. féll frá sínu aðalkosningaloforði, sem var greiðsluaðlögun fyrir heimilin í landinu og kom í stað þess með frv. um réttaraðstoð sem hjálpa mun mjög fáum einstaklingum, að nefndin á vegum félmrn. kemur með sína tillögu um greiðsluaðlögun sem hún rökstyður með líkum hætti og við höfum gert sem talað höfum fyrir greiðsluaðlögun sem hæstv. félmrh. taldi útilokað að koma á hér á landi. Þessi nefnd tekur mjög undir að nauðsynlegt sé að koma á greiðsluaðlögun, þeirri greiðsluaðlögun sem Framsfl. lofaði fyrir kosningar en sveik fólk um.

[22:00]

Það er með ógnarhraða raunverulega sem skuldir heimilanna vaxa og maður veltir auðvitað fyrir sér skýringum á því að bara á þessu eina ári er áætlað að skuldir heimilanna vaxi um 25 milljarða kr. Frá því að þessi ríkisstjórn settist að völdum, virðulegi forseti, hafa skuldir heimilanna aukist um 45 milljarða kr. og hefði ég frekar viljað sjá þann sem situr í stól forseta núna í sæti þingmanna til að geta tekið þátt í umræðunni vegna þess að enginn hefur talað eins mikið um það hvað brýnt væri að taka á þessum vanda.

Ég hef nýlega fengið svar frá hæstv. viðskrh. sem snertir skuldastöðu heimilanna sem olli mér mjög miklum vonbrigðum. Þar kom fram að Ísland er eina landið innan OECD sem verðtryggir skuldir heimilanna. Það sem mér fannst verra er að þrátt fyrir þennan stöðugleika sem við höfum búið við á undanförnum árum sem fyrst og fremst er að þakka launafólki eru engin áform uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar um að afnema verðtryggingu af skuldum heimilanna umfram það sem þegar hefur verið ákveðið af skammtímaskuldum. Það hlýtur að vera umhugsunarefni, að þegar ákveðið hefur verið af hálfu ríkisstjórnarinnar, var gert á síðasta ári, að banna verðtryggingu á innlánum frá 1. jan. árið 2000, banna verðtryggingu á innlánum en ekki á útlánum, af hverju það er. Maður spyr bara hvaða sanngirni er fólgin í því að banna heimilunum að verðtryggja innlán sín í bönkum en leyfa bönkunum að verðtryggja útlán til heimilanna. Þetta er það sem er fram undan á árinu 2000. Maður spyr líka hvaða trú ríkisstjórnin hafi á stöðugleikanum þegar hún hefur engin áform uppi um að afnema vísitöluna. Við höfum heyrt dæmi um hve fáránleg vísitalan er og hvernig hún vindur upp á skuldir heimilanna án þess að þau eigi nokkra sök á því eins og þegar grænmeti eitt og sér hækkaði á einu og hálfu ári, grænmeti sem þessi skuldugu heimili höfðu jafnvel ekki efni á að kaupa en það hækkar skuldir þeirra um 1.300 millj. kr. og einhver tímabundin hækkun á kartöflum í sumar eykur skuldir heimilanna um 500 millj. kr. Það hlýtur að vera eitthvað að. Ég spyr hvað er öðruvísi á Íslandi en hjá öðrum þjóðum innan OECD sem eru ekki með verðtryggingu á skuldum heimilanna. Þar á ofan eru 2--3% hærri vextir sem heimilin þurfa að búa við. Þetta er þáttur sem ég tel að þingmenn verði að skoða af fullri alvöru hvort ekki sé hægt að fara hraðar í að afnema verðtrygginguna, ekki síst þegar áform eru uppi um að banna hana á innlánum á árinu 2000.

Ég tel út af fyrir sig, virðulegi forseti, að hægt væri að hafa miklu lengra mál um þetta og fara ofan í einstaka þætti þess en ég sé ekki ástæðu til þess miðað við hve fáir þingmenn eru staddir hér. Ég vil þó nefna eitt atriði í tillögunni sem er um að settar verði reglur sem tryggi betur réttarstöðu ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga svo sem um skyldur lánveitenda til að upplýsa ábyrgðarmenn um hvað felst í sjálfsskuldar\-ábyrgð og eða veðleyfi þeirra. Við munum að það kom nýlega fram í úttekt sem ráðgjafarstöðin gerði á ástæðunum fyrir skuldum heimilanna þar kom fram að það er stór hluti af skuldum heimilanna sem er tilkominn vegna þess að skuldir falla á ábyrgðarmenn. Í svari sem ég fékk á síðasta þingi kemur þetta berlega fram. Það kom fram í svari sem ég fékk að þriðjungur af skuldum eða 31,5% af fjárnámsbeiðnum beindust gegn ábyrgðarmönnum fjárskuldbindinga. Það er sem sagt þriðjungur sem fellur á ábyrgðarmenn. Ég held að þetta þurfi að taka til mjög alvarlegrar skoðunar. Við höfum lengst af búið við það að bankinn spyr ekki um greiðslugetu hjá fólki heldur spyr hann um: Hafið þið veð, hafið þið trausta ábyrgðarmenn? Ég held að bankastofnanir og lánastofnanir þurfi að breyta vinnubrögðum sínum í þessu efni.

Ég og vafalaust aðrir þingmenn sem hér eru inni þekkja margar sorgarsögur um það þegar ábyrgðarskuldbindingar falla á ábyrgðarmenn. Ég þekki fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi af eldri hjónum sem gengust í ábyrgð fyrir börn sín og síðan voru þau skilin eftir slypp og snauð og þau stóðu á götunni og tekin var af þeim íbúð sem þau áttu. Fleiri sambærileg dæmi þekki ég. Þetta er eitt af þeim atriðum sem vissulega þarf að skoða ef menn eru á annað borð tilbúnir að fara út í það að skoða víðtækar aðgerðir til að bæta skuldastöðu heimilanna eins og hér er lagt til.

Af því að ég sé að tími minn er að verða búinn vil ég í lokin undirstrika að þeir sem sendu inn umsagnir á síðasta þingi um þetta mál eins og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja taka undir öll atriði tillögunnar. Sömuleiðis Húsnæðisstofnun, sem þekkir kannski hvað best til skuldavanda heimilanna og hvaða aðgerðir það eru sem helst geta hjálpað skuldugum heimilum, en hún tekur nánast undir öll þau atriði sem eru sett fram í tillögunni. Sama gildir um Alþýðusambandið sem er með athyglisverðar breytingartillögur, að vísu að því er varðar stimpilgjaldið, sem ég hef ekki tíma til að fara nánar út í og ég veit að nefndin sem fær málið til umfjöllunar mun skoða sérstaklega. Ég legg áherslu á það af því að ég sé að formaður félmn. er í salnum að benda henni á að brýnt er að setja reglur um innheimtuþóknun lögmanna. Undir það hefur raunverulega verið tekið í dómsmrn. þó fram hafi komið andstaða við það hjá lögmönnum. Samkeppnisstofnun sem fjallað hefur um það mál telur ekkert því til fyrirstöðu að slíkar reglur verði settar sem ég tel mjög mikilvægt.

17 milljarðar hafa komið í hlut ríkissjóðs vegna skuldastöðu heimilanna, sem hann hefur haft af stimpilgjöldum og fleiri þáttum á þessum tíma. Ríkisvaldið ætti að manna sig upp í það að skoða hvort ekki megi slaka eitthvað á þessari skattakló, háum stimpilgjöldum og þeirri gjaldtöku sem skattleggur neyð heimilanna, virðulegi forseti. Vænti ég þess að ríkisstjórnin sjái nú að sér og skoði svolítið þann þátt málsins. Að lokinni umræðunni legg ég til að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. félmrn.