Tekjuskattur og eignarskattur

Fimmtudaginn 07. nóvember 1996, kl. 22:08:29 (1017)

1996-11-07 22:08:29# 121. lþ. 20.16 fundur 26. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (endurbætur og viðhald á eigin húsnæði) frv., Flm. TIO (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur

[22:08]

Flm. (Tómas Ingi Olrich):

Virðulegi forseti. Ég legg fram frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 45/1981, með síðari breytingum. Þetta mál er til þess að gera einfalt. Í 1. gr. er lagt til að við B-lið 30. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Kostnað við endurbætur og viðhald á eigin húsnæði, enda nemi þessi kostnaður að lágmarki 100.000 kr., og skal endurgreiðslan vera 10% af þeim kostnaði sem ráðist hefur verið í.

Hér er verið að leggja til að kostnaður við endurbætur og viðhald á eigin húsnæði njóti skattafríðinda. Verður hér vikið nokkuð að rökstuðningi fyrir slíkum aðgerðum. Margir gera sér ekki grein fyrir því að þjóðarauður Íslendinga er að langmestu leyti fólginn í húsnæði.

Á Íslandi eru nú tæplega 63 milljónir m3 af íbúðar- og atvinnuhúsnæði að núvirði um 1.200 milljarðar kr. en til viðbótar eru um 13 milljónir m3 í ýmiss konar smærri húsum og útihúsum. Af þessum 1.200 milljörðum sem er núvirði íbúðar- og atvinnuhúsnæðis á Íslandi eru um 773 milljarðar í íbúðarhúsum í einkaeign. Þjóðarauður Íslendinga er að mestu bundinn í þessum eignum og þessar eignir eru ekki gamlar. Meðalaldur þessa húsnæðis er um 25 ár og það því að mestu byggt á eftirstríðsárunum. Á síðasta áratug hefur viðhaldsþörf fasteigna landsmanna farið hraðvaxandi og ekki er óvarlegt að gera ráð fyrir holskeflu á næstu árum þar sem aðeins litlum hluta húsnæðisins hefur enn sem komið er verið haldið við sem skyldi, bæði hjá einkaaðilum og opinberum aðilum. Ástæðurnar fyrir þessu eru margvíslegar en ég vil nefna hér tvær. Í fyrsta lagi hefur það byggingarefni sem hefur verið afar vinsælt hér á Íslandi, steinsteypan, ekki reynst sem skyldi. Í öðru lagi er ekki hefð fyrir því hér á Íslandi að halda við húsum á sama hátt og hefð er fyrir í ýmsum nágrannalöndum okkar. Við höfum t.d. í Noregi timburhús sem eru 400--500 ára gömul, hús sem er haldið við af mikilli natni og þau nýtast prýðilega til íbúar og atvinnu.

Að sjálfsögðu eru 200--300 ára gömul hús í notkun víðast hvar í Evrópu og njóta alla jafnan verulegra skattfríðinda í viðhaldi. Nýlega kynntist ég þessum málum í Frakklandi í borginni Lyon þar sem mikið átak hefur verið unnið til að gera upp elsta hluta Lyon-borgar en Lyon-borg hefur þá sérstöðu að þar var það ekki aðallinn sem byggi upp merkasta hluta borgarinnar heldur var það borgarastéttin. Af þeim sökum að sú stétt var ekki eins vel efnuð og aðallinn alla jafna þá voru þar komin upp meiri vandamál í sambandi við viðhald heldur en víða annars staðar í Frakklandi. Skattkerfið í Frakklandi er mjög vinsamlegt viðhaldsverkefnum einkum og sér í lagi á gömlum húsum og hefur tekist vel upp í mörgum tilfellum með slíkt.

Það hefur komið í ljós í könnunum sem gerðar hafa verið á viðhaldsþörf að Íslendingar gera sér afar rangar hugmyndir um viðhaldsþörf húseigna sinna. Mjög algengt er að þeir meti sjálfir hversu viðhaldsþörfin er mikil og í könnun sem Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands gerði fyrir fjórum árum kom í ljós að um helmingur húseigenda vanmat stórlega viðhaldsþörf húsa sinna. Hér er hins vegar um stórt mál að ræða ef þessu viðhaldi væri sinnt sem skyldi. Það eru til áætlaðar hundraðshlutatölur um viðhaldskostnað og ef viðhaldskostnaður er metinn um 2% af stofnverði að jafnaði ætti árlegur kostnaður af viðhaldi húsnæðis landsmanna að vera a.m.k. 24 milljarðar kr. Viðhaldsmarkaðurinn er nú áætlaður um 5--7 milljarðar kr. Ef menn bera saman þessar tölur, 5--7 milljarða annars vegar og hins vegar nauðsynina, þ.e. þörfina 24 milljarða, þá sjá menn hversu mikil verk eru hér óunnin. Menn sjá að þjóðarauður Íslendinga er að grotna niður án þess að gætt sé að halda þessum húsum við og vandamálin eru að safnast upp.

Ef gert er við húseign fyrir um 1 millj. kr. fyrir utan virðisaukaskatt nemur vinnuliðurinn um 750 þús. kr. með launakostnaði. Ríkið hefur af þessu verulegar tekjur. Tekjurnar má lauslega áætla af 1 millj. kr. viðgerðarvinnu um 250 þús. kr. Ef farið verður eftir hugmyndum þessa frv. að menn njóti 10% skattendurgreiðslu af heildarverkefninu, eða um 100 þús. kr. af hverri milljón, þá yrðu nettótekjur ríkissjóðs engu að síður um 150 þús. kr.

Þetta er mikilvægt vegna þess að það er vitað mál og er hægt að vitna sérstaklega í skýrslu fjármálaráðuneytisins um umfang skattsvika frá september 1993, að í byggingariðnaði eru langmestu svörtu viðskiptin sem tíðkast í atvinnulífi Íslendinga. Það er áætlað að heildarumfang skattsvika sé um 6% af vergri þjóðarframleiðslu eða sem nemur 6,5 milljörðum kr. Menn geta borið þetta saman annars vegar við það verkefni sem þarf að vinna í byggingariðnaðinum og það verk sem er unnið, sem er talið vera á milli 5--7 milljarðar kr., og síðan þessar hugmyndir um að 6,5 milljörðum kr. sé í raun og veru skotið undan í þessari atvinnustarfsemi. Þá sjá menn hvaða tölur eru þarna á ferðinni.

[22:15]

Gert er ráð fyrir því að megnið af þessum nótulausu viðskiptum byggingariðnaðarins eigi sér uppruna á viðhaldssviðinu. Einkum og sér í lagi hjá einstaklingum og húsfélögum en miklu síður hjá fyrirtækjum að maður tali nú ekki um stofnanir. Það er afar brýnt fyrir okkur Íslendinga að reyna að grípa til aðgerða til þess að styrkja viðhald húseigna okkar, sem er vanrækt, en um leið að grípa til aðgerða sem kalla upp á yfirborðið þessi viðskipti til þess að skatturinn fái eðlilegar tekjur af þessari atvinnustarfsemi og til þess að þeir sem stunda þessa starfsemi séu ekki sífellt hreint að keppa við þá heiðarlegu í byggingariðnaðinum sem gefa allar sínar tekjur upp. Það er viðurkennt að heiðarlegir byggingaraðilar standa afar illa í þessari hörðu samkeppni við svarta markaðinn og eru mörg dæmi um að menn telji sig vera að verða undir í þeirri samkeppni.

Þetta mál er því þannig vaxið að þó að það sé ávísun á skattaívilnanir fyrir þá sem stunda viðhald, er það engu að síður þannig vaxið að það skilar meiri tekjum til ríkissjóðs með því að kalla upp á yfirborðið þá starfsemi sem hingað til hefur verið undir yfirborðinu á svörtum markaði.

Ég vil því leggja áherslu á að hér er ekki um útgjaldafrumvarp að ræða heldur miklu frekar frv. sem ýtir undir betri skattheimtu en verið hefur. Það er reiknað með því að ávinningurinn af því að samþykkja frv. sem lög frá Alþingi geti verið fólginn í eftirfarandi: Endurgreiðslurnar hvetja til þess að viðhaldsverkefnum verði skilað með fullgildum reikningum. Tekjur ríkissjóðs aukast vegna minni svartrar vinnu. Endurgreiðslurnar hvetja húseigendur til að auka viðhald húsnæðis og er þannig atvinnuskapandi aðgerð sem þýðir minni greiðslu í atvinnuleysisbætur. Og þjóðarauður landsmanna að lokum verður betur varðveittur, en eins og ég tók fram þá er þjóðarauður landsmanna að verulega leyti bundinn í fasteignum.

Ég vil leggja til að lokinni 1. umr. um þetta mál verði því vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. Alþingis.