Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 13:54:14 (1028)

1996-11-12 13:54:14# 121. lþ. 21.11 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[13:54]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Þegar litið er til frv. til fjárlaga fyrir árið 1997 sést að framlag ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna er áætlað 1.500 millj. kr. sem er 50 millj. kr. hækkun frá fjárlögum þessa árs. Framlagið miðast við 52% af áætluðum útlánum sjóðsins eins og í fjárlögum þessa árs. Tekur hlutfallið mið af útreikningum Ríkisendurskoðunar af kostnaði við námsaðstoðina. Tillagan byggist á því að eiginfjárstaða sjóðsins haldist í horfi. Að mínu mati er það til marks um góða fjármálastjórn á síðasta kjörtímabili að Alþingi samþykkti árið 1992 nýja löggjöf um Lánasjóð ísl. námsmanna. Tel ég að þær ráðstafanir sem þá voru gerðar hafi í senn bjargað lánasjóðnum frá hruni og einnig skapað nauðsynlegt svigrúm til fjárveitinga á öðrum sviðum menntamála. Með ráðstöfun á opinberum fjármunum til menntamála er nauðsynlegt að taka ákvarðanir um forgangsröðun. Þegar takmarkaðir fjármunir eru til ráðstöfunar tel ég almennt skynsamlegra að skipa þeim stofnunum í fyrirrúm sem treyst er á til að veita góða opinbera þjónustu. Eins og fram hefur komið í umræðum á Alþingi um fjárlagafrumvarpið eru í því gerðar tillögur um auknar fjárveitingar til skóla á háskólastigi. Þar er einnig gert ráð fyrir auknu fé til Landsbókasafns -- Háskólabókasafns sem er mikilvæg þjónustustofnun skóla. Enn fremur er lagt til að fjárveiting til að jafna námskostnað verði aukin og aukið fé muni renna í vísindasjóð Rannsóknarráðs Íslands. Að því er framhaldsskólana varðar hefur verið lagt til að þar verði hagrætt og sparað. Liggja fyrir tillögur um aukið samstarf milli skóla og sameiningu í því skyni að nýta fjármuni betur og tryggja betri aðstöðu til náms.

Eins og oft áður þegar slíkar tillögur eru gerðar mikla menn afleiðingarnar fyrir sér. Með öllu er ástæðulaust að líta þannig á að verið sé að kippa grundvelli undan skólastarfi í einstökum landshlutum. Mér finnst það til marks um lélegan málstað að hamra á því að í tillögum um svonefnt endurinnritunargjald í framhaldsskólum að þessu gjaldi sé sérstaklega stefnt gegn fötluðum. Höfuðmarkmiðið er að gera innritun nemenda raunhæfari þannig að skólastarfið verði markvissara. Ég hef margoft sagt að þessum reglum verður hagað með þeim hætti að tillit verði tekið til sérstakra aðstæðna.

Málflutningurinn um Lánasjóð ísl. námsmanna ber nokkur merki þess að þeir sem krefjast róttækustu breytinganna á útlánareglum sjóðsins beita næsta veikum rökum eða villandi máli sínu til stuðnings. Við myndun ríkisstjórnarinnar var ákveðið að lög og reglur um lánasjóðinn skyldu endurskoðuð. Var stofnað til nefndar með þátttöku fulltrúa beggja stjórnarflokkanna og námsmanna. Á vegum nefndarinnar hefur verið unnið mikið starf og er það von mín að þar takist samstaða um mörg álitaefni sem tengjast framkvæmd laganna frá 1992. Ljóst er að á borðinu eru tvær meginkröfur um breytingar á lögunum. Í fyrsta lagi að dregið verði úr endurgreiðslubyrði námslána og hins vegar að komið verði á svonefndum samtímagreiðslum lánanna.

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að ljúka beri endurskoðun laganna með ákvörðun um að auknu fé verði veitt úr ríkissjóði til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég tel að þessum fjármunum eigi fyrst og fremst að verja til að draga úr endurgreiðslubyrðinni. Þótt námslán séu niðurgreidd af ríkissjóði um helming er endurgreiðslubyrðin tilfinnanleg. Í umræðum um áhrif þess að hætt var svonefndum samtímagreiðslum árið 1992 hefur kostnaður námsmanna af breytingunni verið ýktur. Þar líta menn einkum á þann kostnað sem námsmaður ber af því að brúa bil þar til til greiðslu námsláns úr lánasjóðnum kemur og tala því um óhagræði af eftirágreiðslum. Raunverulegur vaxtakostnaður námsmanna vegna þessa er innan við 0,4% á ári vegna þess að ríkið greiðir niður vexti með framlögum til lánasjóðsins, tryggir hámark tekjutengdrar endurgreiðslu og námsmenn fá vaxtaauka sem nemur áföllnum vöxtum vegna eftirágreiðslu lánanna. Þetta framlag ríkisins reiknast nú rúmlega 50% af árlegum útlánum. Raunverulegur vaxtakostnaður námsmanns sem hefur lokið fjögurra ára námi er því aðeins 1.500 kr. af hverjum 400 þús. kr. Þetta kostnaðardæmi kemur aðeins hagstæðar út fyrir námsmann sem lokið hefur fimm ára námi og er að sama skapi aðeins óhagstæðara fyrir þann sem lokið hefur þriggja ára námi. Ýmsum vaxa í augum tekjur bankakerfisins af því að brúa þetta bil með lánsfé. En þær eru taldar nema um 40 millj. kr. á ári og greiðir ríkissjóður um helming fjárhæðarinnar. Hugsanlega mætti lækka fjárhæðina verulega með útboðum og samningum við banka og gætu lánasjóðurinn eða samtök námsmanna beitt sér fyrir því.

Þegar lögunum var breytt árið 1992 var sett krafa um námsframvindu. Í henni felst að lán er ekki greitt út úr lánasjóðnum fyrr en að uppfylltri þessari kröfu. Þess vegna er talað um eftirágreiðslu. Með hinni nýju skipan hefur tekist að spara hundruð milljóna og koma í veg fyrir hrun námslánakerfisins og tryggja festu í starfi Lánasjóðs ísl. námsmanna. Spyrja má hvort ekki sé verjandi að leggja á sig nokkurn aukakostnað til að ná þessu markmiði. Eins og sjá má af þeim tölum, sem ég nefndi hér að framan, er hér ekki um mikinn fórnarkostnað að ræða og getur hann ekki skipt sköpum um afstöðu manna til hinna ólíku greiðslukerfa. Það sem kallað hefur verið samtímagreiðslukerfi er í raun fyrirframgreiðslukerfi því námsmenn fá lán samkvæmt því áður en námsárangri er náð. Í hreinu samtímagreiðslukerfi í þessum skilningi felst að námsmenn sem sækja um lán fá mánaðarlegur greiðslur frá upphafi missiris. Ef halda á til streitu kröfu um námsframvindu í slíku kerfi verður að gera upp stöðuna eftir á, meta námsframvindu og krefjast endurgreiðslu á þeim hluta sem námsmaður hefur fengið umfram skil á árangri. Sá sem einungis hefur skilað 75% námsárangri greiðir 25% til baka og sá sem ekki hefur náð lágmarksárangri ætti að greiða allt til baka.

[14:00]

Í því kerfi sem gilti til 1992 var ekki gengið þannig til verks að innheimta ofgreidd lán af námsmönnum heldur var búið til hugtakið árangursskuld og gátu námsmenn ekki fengið námslán að nýju fyrr en árangursskuld hafði verið unnin upp með því að skila þeim einingum sem upp á vantaði. Mikill fjöldi námsmanna lauk námslánasögu sinni með þessari árangursskuld. Ég tel óskynsamlegt að hverfa aftur inn á þessa braut og afnema skýrar kröfur um námsframvindu áður en lánasjóðurinn innir greiðslu af hendi til námsmanns.

Núverandi kerfi gerir í senn kröfur til nemenda og skóla án þess að um nokkra ósanngirni sé að ræða. Svonefnt samtímagreiðslukerfi er flókið og erfitt í framkvæmd og raunar hefur ekki verið sýnt fram á með neinum lagatexta hvernig unnt er að ná markmiðum þess nema með því að stofna fjárhag lánasjóðsins á ný í mikla óvissu. Er það mat starfsmanna sjóðsins að útgjöld ríkissjóðs til hans mundu aukast um hundruð milljóna kr. yrði horfið frá núverandi kerfi. Miðað við þrönga stöðu ríkissjóðs og brýna þörf skólakerfisins fyrir aukna fjármuni tel ég glapræði að taka slíka fjárhagslega áhættu.

Herra forseti. Á árinu 1992 var vissulega gripið til úrræða sem þrengdu hag viðskiptavina Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Enginn neitar því. Þessar ráðstafanir fólust í því að taka upp vexti á námstíma, innleiða strangar kröfur um námsframvindu og herða reglur um endurgreiðslu. Við þetta minnkaði árleg fjárþörf lánasjóðsins úr ríkissjóði um nokkur hundruð millj. kr.

Tölur um virka nemendur í Háskóla Íslands á árunum 1988--1995 benda ekki til þess að breytingar á lánasjóðnum hafi raskað árlegri fjölgun þessara nemenda í skólanum. Jafnhliða hefur virkum nemendum við aðra skóla á háskólastigi einnig fjölgað, eins og t.d. við Háskólann á Akureyri.

Ég ætla síður en svo að oftúlka þessar nemendatölur enda er sá málstaður sem ég flyt hér þess eðlis að ekki þarf neinar ýkjur til að fegra hann. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að nokkrir tugir námsmanna kunni að hafa horfið frá námi eða ekki hafið nám af ótta við hertar námslánareglur. En þegar málið er skoðað hlutlægt er hins vegar ekki unnt að komast að annarri niðurstöðu um málefni lánasjóðsins en þeirri að umræður um þungbær lánakjör hans hafi verið miklu neikvæðari en réttmætt er og efni standa til. Er ekki ólíklegt að þessar neikvæðu umræður hafi jafnvel ráðið meiru um ákvarðanir manna um að fara ekki í nám vegna reglna um lánasjóðinn en efni reglnanna sjálfra.

Að lokum vil ég árétta þá skoðun mína að ég tel nú sterk rök hníga að því að fjárveitingar skuli auknar úr ríkissjóði til Lánasjóðs íslenskra námsmanna í því skyni að létta enn frekar undir með viðskiptavinum hans. Þar tel ég mestu skipta að líta til endurgreiðslubyrðarinnar en hrófla ekki við þeim skynsamlegu meginreglum sem mótast hafa um útgreiðslu lána.