Lánasjóður íslenskra námsmanna

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:08:18 (1033)

1996-11-12 14:08:18# 121. lþ. 21.11 fundur 7. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (samtímagreiðslur o.fl.) frv., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:08]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er allnokkuð um liðið frá því að þessi umræða hófst og nokkuð vatn til sjávar runnið síðan. Við höfum fengið inn á okkar borð frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem varpar enn skýrara ljósi á mennta- og skólastefnu þessarar ríkisstjórnar. Því nefni ég þetta að hæstv. menntmrh. notaði tækifærið til að nefna nokkur önnur mál áður en hann vék að lánasjóðnum og kom þar m.a. að lokun og sameiningu skóla sem væri ástæða til að ræða alveg sérstaklega. En þar sem þetta er síðari ræða mín í þessari umræðu hef ég ekki nema tíu mínútur og ætla að láta þá umræðu bíða þar til kemur að fjárlögunum. En ég hygg að varðandi sameiningu skóla, sérstaklega þar sem hússtjórnarskólarnir tveir sem eftir eru eiga í hlut, þá þurfi að skoða það mál býsna vandlega. Ég er ekki viss um að hæstv. menntmrh. sé þar á réttri braut.

Af því að hann nefndi fallskattinn svokallaða þá fagna ég þeirri yfirlýsingu að undantekningar eða undanþágur verði gerðar á honum gagnvart fötluðum nemendum. Ég skildi orð hæstv. menntmrh. þannig að reglurnar yrðu sveigjanlegar ef þessi skattur verður samþykktur sem ég vona að verði ekki því þetta er algjörlega óþolandi aðferð til að afla fjár til reksturs skóla.

Við erum að ræða Lánasjóð íslenskra námsmanna. Ég skil það svo að hæstv. menntmrh. sé sammála því að draga þurfi úr endurgreiðslubyrði lánanna samkvæmt núgildandi lögum. En það er náttúrlega orðinn dágóður hópur sem búinn er að ganga í gegnum kerfið eins og það er frá árinu 1992, fólk sem er með lán á þessum erfiðu kjörum. Þetta eru mjög erfið kjör og fulltrúar námsmanna, bæði frá stúdentaráði Háskóla Íslands og SÍNE, hafa haft samband við okkur þingmenn og bent okkur á sífellt fleiri dæmi sem eru að koma upp, dæmi um að launakjör fólks koma engan veginn heim og saman við greiðslubyrðina af námslánunum og hvað þá ef fólk þarf að afla sér húsnæðis. Þarna er að verða til hópur af menntafólki sem á í verulegum erfiðleikum. Og ég spyr: Hvernig verður tekið á málum þessa hóps? Það tíðkast yfirleitt ekki hér að lög séu afturvirk og þeir sem hafa tekið lán á þessum kjörum hafa skrifað undir þau. Ég veit ekki hvort menn ætla að grípa til einhverra ráðstafana til að reyna að létta á greiðslubyrðinni hjá þessum hópi. Ég heyri á fulltrúum og forustumönnum námsmanna að þeir hafa verulegar áhyggjur af því hvernig afkomu fólks er háttað. Það veldur því sem við ræddum við fyrri hluta umræðunnar að fólk veigrar sér við að taka námslán ef það mögulega kemst hjá því og leysir sín mál með því að vinna með námi sem auðvitað tefur það í náminu. Ég ítreka enn og aftur að fróðlegt væri að fá upplýsingar um það hvernig vinnu námsmanna með háskólanámi er háttað og reyndar öðru námi sem telst lánshæft.

Hæstv. menntmrh. sagði að með breytingunum frá 1992 hefði verið komið í veg fyrir hrun lánasjóðsins, hvorki meira né minna. Þetta var allt reiknað rækilega út á sínum tíma og staðreyndin er sú, hæstv. menntmrh., að þeim sem eru að greiða námslánin sín fjölgar stöðugt þannig að innstreymið í sjóðinn vex mjög hratt eins og kemur fram í frv. til fjárlaga þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Árið 1992 voru greiðendur 13.519, en er áætlað að þeir verði 25.150 í ár og að þeim fjölgi um 10% á næsta ári.`` Þetta er gífurleg fjölgun greiðenda sem kemur í kjölfar þess hve lánshöfum fjölgaði hratt á þeim árum þegar námslánunum var breytt og þau voru kannski hvað viðráðanlegust og reyndar var nemendum að fjölga gífurlega. Endurgreiðslurnar aukast jafnt og þétt og greiðendum fjölgar þannig að staða sjóðsins er mjög að batna. Þetta var auðvitað fyrirséð þannig að ég hafna því að Lánasjóður íslenskra námsmanna hafi stefnt í hrun. Það voru vissir erfiðleikar sem menn sáu fyrir á tímabili, en að tala um hrun og að komið hafi verið í veg fyrir hrun er algjörlega út í hött.

Niðurstaðan af þessum breytingum er sú að hópur námsmanna hefur orðið að hætta við nám. Það er búið að gera öðrum hópi mjög erfitt fyrir. Ég get fullyrt að rektor Háskóla Íslands er ekki sammála hæstv. menntmrh. um að þær kröfur sem gerðar eru um námsframvindu séu sanngjarnar, það er langt því frá. Það hefur einmitt verið bent á það, m.a. í ræðum háskólarektors að þessar kröfur lánasjóðsins séu ekki í samræmi við það sem gengur og gerist í námsframvindu við Háskóla Íslands. Það leiðir til þess að nemendur lenda í vandræðum með lánin og þar með í vandræðum með að greiða og í vandræðum með sitt nám. Staðan hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna og fyrst og fremst staða námsmanna er því alls ekki nógu góð. Það þarf að skoða þessar kröfur þannig að þær séu í raun sanngjarnar.

Það þarf að skoða samtímagreiðslukerfið. Ég minni á að það hefur aldrei tíðkast hjá lánasjóðnum að fólk fái lán --- það er kannski of mikið að segja aldrei --- en a.m.k. eftir að lögunum var breytt síðast fyrir 1992, þurfti fólk að sýna fram á árangur í námi áður en það fékk lánin. Fólk fékk ekki lán fyrr en að loknu fyrsta missiri eða að loknum fyrstu prófum með einstaka undantekningum þó. Það hefur því aldrei verið um það að ræða að þessar greiðslur komi fyrirhafnarlaust enda falla þær að sjálfsögðu í gjalddaga ef fólk stendur sig ekki.

[14:15]

Það kerfi sem nú hefur verið tekið upp er allt of þungt í vöfum. Mergurinn málsins er þessi, hæstv. forseti, að við bíðum hér eftir að nefnd hæstv. menntmrh. skili af sér og mér finnst biðin orðin býsna löng. Við erum komin á annan vetur á þessu kjörtímabili.

Ljóst er að Framsfl. setti breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna sem forgang á verkefnaskrá sinni og erum við svo lánsöm að hæstv. viðskrh., sem er fyrrverandi formaður stúdentaráðs og mikill baráttumaður fyrir að lánasjóðurinn sinnti hagsmunum námsmanna sem best, er hér í salnum og hlýðir á umræðuna og lætur vonandi í sér heyra á eftir. Vonandi fullvissar hann okkur um að stefna Framsfl. að taka eigi vanda námsmanna hafi ekki breyst. Við bíðum eftir að frv. líti dagsins ljós. Þar eru fyrst og fremst tvö atriði sem þarf að taka á. Ég vil ítreka það enn og aftur. Það eru annars vegar breytingar á endurgreiðsluhlutfallinu svo það verði viðráðanlegt. Og hitt er að lánin séu í samræmi við raunverulega námsframvindu þannig að skilyrði séu ekki svo erfið að þau hreki fólk frá námi, sem því miður eru of mörg dæmi um. Tölur sem námsmenn hafa tekið saman sýna að þetta hefur fyrst og fremst bitnað á einstæðum foreldrum sem eiga erfitt með að reka heimili, þ.e. vera einn fullorðinn með börnum. Ef eitthvað bregður út af, veikindi eða annað slíkt, er hætta á að námsframvindan raskist og þar með er allt í voða. Svona stíf kerfi eru ekki af hinu góða. Ég get þó tekið undir að kröfur eigi að gera til að fólk standi sig í námi. Ég vil líka minna á að árið 1992 var mikið talað um að koma upp styrkjakerfi við hliðina á lánasjóðnum. Ég hef ekki séð bóla á því að menn væru að byggja upp styrkjakerfi. Ég hef reyndar aldrei skilið hvers vegna má ekki setja ákveðið nám í forgang hér á landi. Að reyna að ýta undir að fólk stundi ákveðið nám þar sem við sjáum að okkur vantar fólk í framtíðinni. Það er eitthvað sem hefur aldrei mátt hér á Íslandi, að setja upp forgangsröðun.