Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:38:02 (1037)

1996-11-12 14:38:02# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., menntmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:38]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um listamannalaun, nr. 35/1991. Við samþykkt núgildandi laga um listamannalaun á árinu 1991 var kveðið á um það að lögin skyldu endurskoðuð eftir fimm ár frá gildistöku þeirra. Stjórn listamannalauna var falið að annast endurskoðunina og er frv. þetta byggt á tillögum stjórnarinnar. Við endurskoðunina hafði stjórn listamannalauna samráð við úthlutunarnefndir annarra sjóða samkvæmt lögum nr. 35/1991 með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af framkvæmd laganna. Jafnframt var rætt við fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna, Félags íslenskra leikara, Hagþenkis, Félags íslenskra tónlistarmanna, Samtaka kvikmyndaleikstjóra, Rithöfundasambands Íslands, Sambands íslenskra myndlistarmanna og Félags íslenskra leikstjóra.

Í frv. eru einvörðungu lagðar til fáeinar breytingar á lögum um listamannalaun í þeim tilgangi að sníða af þá vankanta á lögunum sem stjórnin telur að þörf sé á að lagfæra. Mun hér gerð stuttlega grein fyrir helstu atriðum frv.

Lagt er til að Listasjóður skuli einkum sinna þeim listgreinum sem ekki falla undir hina þrjá sérgreindu sjóði þ.e. Launasjóð rithöfunda, Tónskáldasjóð og Launasjóð myndlistarmanna. Reyndin hefur verið sú að enda þótt Listasjóður skuli vera almennur sjóður í þágu allra listgreina hafa starfslaun úr sjóðnum einkum verið veitt þeim listamönnum sem ekki eiga aðgang að hinum sérgreindu sjóðum og er hér einkum átt við tónlistarflytjendur, leikhúslistafólk og þá sem starfa með einhverjum hætti að kvikmyndum. Með tillögunni er þessum hópum listamanna veittur forgangur við úthlutun starfslauna úr Listasjóði umfram þá hópa sem heyra undir aðra sjóði samkvæmt lögunum og um þetta er fjallað í 2. gr. frv.

Í frv. er leitast við að kveða skýrar á um það en nú er gert að þeir listamenn sem njóta starfslauna teljast ekki launþegar í almennum skilningi þar sem þeir eru sjálfráðir um störf sín meðan á starfslaunatímanum stendur og lúta ekki verkstjórn eða vinnuskipulagningu annars aðila en sjálfs sín. Reynslan hefur verið sú að listamannalaun hafa verið greidd listamönnum sem verktökum en ekki sem launþegum. Nær undantekningarlaust hafa listamenn einhvern kostnað af listsköpun sinni á móti þessari þóknun. Um þetta er fjallað í 4. gr. frv.

Í frv. eru ákvæði laganna um fjölda starfslauna færð til samræmis við þær lögbundnu breytingar sem orðið hafa á fjölda mánaðarlauna og árslauna frá gildistöku laganna. Hér er því ekki um það að ræða að lagt sé til að breyting verði gerð á fjölda þeirra starfslauna sem veitt eru árlega. Vísast um þetta efni til 5. gr. frv.

Rétt er að vekja sérstaka athygli á þeirri breytingu sem lagt er til að gerð verði frá núgildandi lögum varðandi úthlutun starfslauna til leikhúslistafólks. Lagt er til að horfið verði frá þeirri skyldu að veita a.m.k. helming starfslauna úr Listasjóði til leikhúslistafólks. Hefur það sýnt sig miðað við innbyrðis skiptingu á fjölda umsókna að þessi skipting skerðir óeðlilega hlut annarra listgreina að mati stjórnar Listasjóðs. Engu að síður er hér lagt til að leikhúslist verði sérstakur gaumur gefinn við úthlutun starfslauna. Er í frv. lagt til að um veitingu starfslauna til einstakra leikhúslistamanna, vegna þátttöku í uppfærslu leiksýninga á vegum leikhópa, verði fjallað af leiklistarráði og allt að þriðjungi fjárveitinga Listasjóðs varið til þess. Leiklistarráð starfar á grundvelli leiklistarlaga og hefur m.a. því hlutverki að gegna að fjalla um styrkumsóknir leikhópa til uppfærslu leiksýninga. Þessi skipan mála er nýmæli sem miðar að því að styrkja skilvirkari og faglegri umfjöllun um veitingu starfslauna til leikhúslistafólks. Rétt er þó að benda á að ef um er að ræða umsóknir einstakra leikhúslistamanna um starfslaun, sem ekki tengjast uppfærslu leiksýninga, geta þeir eftir sem áður komið til greina við úthlutun úr Listasjóði og er um þetta fjallað í 9. gr. frv.

Þá er lagt til að gerð verði breyting á lengd starfslaunatímans. Í núgildandi lögum er kveðið á um að starfslaun séu veitt til hálfs eða eins árs, til þriggja eða fimm ára. Í frv. er lagt til að framvegis verði ekki um það að ræða að veita starfslaun í fimm ár enda hefur það aldrei verið gert síðan lögin tóku gildi. Hins vegar verði heimilað að veita starfslaun í tvö ár og til skemmri tíma en hálfs árs, þó aldrei skemur en til þriggja mánaða og er þetta hvort tveggja nýjung. Um þetta er fjallað í 10. gr. frv.

Virðulegi forseti. Ég hef nú í stuttu máli gert grein fyrir efni frv. til laga um breytingu á lögum um listamannalaun og þeim meginforsendum sem að baki þessu frv. liggja, sem er, eins og áður segir, að sníða helstu vankanta af við framkvæmd laganna. Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.