Listamannalaun

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 14:46:09 (1040)

1996-11-12 14:46:09# 121. lþ. 21.12 fundur 135. mál: #A listamannalaun# (markmið, greiðslufyrirkomulag o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[14:46]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil lýsa í heild stuðningi mínum við frv. og líka þakka það að frv. er endurskoðað núna í nánu samstarfi við þau félög eða hópa sem njóta góðs af þessum listamannalaunum. Mér finnst það einmitt vera rétta aðferðin til að vinna að slíkum málum. Mér skilst að þarna hafi verið tekið fullt tillit til athugasemda sem fram komu frá alla vega sumum þeirra hópa sem þarna eru nefndir eins og t.d. rithöfundum. Ég tel það vel. Og 6% álagið á starfslaunin þannig að þau verða greidd eins og verktakalaun mun vera breyting sem er gerð til að færa þetta að þeim hætti sem hefur verið praktíseraður en ekki mun hafa verið greitt beint í lífeyrissjóð þó það hafi staðið í lagatexta. Þó það sé sagt í lögum að listamenn eigi aðild að söfnunarsjóði lífeyrisréttinda mun það vera svo, því miður, að tiltölulega mjög fáir af þeim sem hafa notið listamannalauna hafa greitt í lífeyrissjóð af sínum framlögum og það er vissulega áhyggjuefni.

Það er aðeins eitt atriði sem ég hef svolitlar áhyggjur af og það er að hlutfall leiklistarfólks skuli vera minnkað niður í einn þriðja. Það verður væntanlega fjallað betur um þetta í hv. menntmn. og þar koma sjálfsagt fram skýringar.

Svo er annað sem mér finnst vert að athuga. Hér virðist vera verið að fastsetja þennan mánaðafjölda til starfslauna sem hér er tiltekinn. Mér finnst ekki líklegt að umsóknum muni fækka á næstu árum og ég teldi skynsamlegt að setja alla vega einhver endurskoðunarákvæði inn í þessi lög ef samþykkt verða.