Áhættu- og nýsköpunarlánasjóður

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:11:30 (1046)

1996-11-12 15:11:30# 121. lþ. 21.19 fundur 19. mál: #A áhættu- og nýsköpunarlánasjóður# frv., Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:11]

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin. Vorið 1996 greindi ráðuneytisstjórinn í iðn.- og viðskrn. frá því að það hefði orðið samkomulag í þessu máli að því er varðar fjárfestingarbankann og sameiningarleiðin sem svo var kölluð hefði orðið ofan á og að áform væru uppi um að sameina sjóðina þrjá sem ég nefndi hér áðan og hæstv. ráðherra nefndi einnig, í einn fjárfestingarbanka. Enn fremur, eins og sagði í blaðafréttum, væri ætlunin að stofna sérstakan nýsköpunarsjóð. Ráðuneytisstjórinn í iðnrn. sagði mikið meira. Hann tíundaði alveg nákvæmlega hvernig þetta væri. Hann sagði að ráðgert væri að eigið fé bankans yrði 6--8 milljarðar og útlán í upphafi 45 milljarðar eða nokkru meiri en útlán Búnaðarbankans eða Íslandsbanka þannig að menn voru heldur betur farnir að kortleggja þessa framtíð fyrir sér. Og hann sagði jafnframt að það ætti að stofna hlutafélag um bankann sem hér um ræðir. Málið náði þá ekki fram að ganga og ég dró þá ályktun að það væri andstaða við málið af hálfu fulltrúa sjávarútvegsins, aðallega við sameiningarleiðina. Þess vegna fóru menn í það að kanna hvort hægt væri að finna aðra leið og setja niður þessa ráðuneytisstjóranefnd. Og af þeim ástæðum dró ég þá ályktun að um málið hefðu verið veruleg átök og um málið hefði verið heilmikill ágreiningur. Ég held að það sé ekki hægt að skafa neitt af því og mér finnst það í sjálfu sér ekkert skrýtið heldur þó það taki menn smá tíma að velta fyrir sér máli af þessu tagi sem er upp á tugi milljarða og snertir í grundvallaratriðum hagsmuni allra aðila sem hér er um að ræða. Það hefur margoft verið reynt að hrófla við skipulagsmálum þessara sjóða og þeir sem telja sig eigendur sjóðanna hafa viljað ráða mjög miklu. En það hafa allaf verið skiptar skoðanir um það hver ætti þessa sjóði, hvort það væru greinarnar sjálfar, þ.e. útvegsmenn, nú eða ríkið, og að hve miklu leyti þessi og að hve miklu leyti hinn.

Ég vil þess vegna með þessum orðum mínum útskýra af hverju ég talaði um ágreining. Jafnframt vil ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svörin en spyrja hann að því um leið hvort hugmyndinni um sérstakan nýsköpunarsjóð sem ráðuneytisstjórinn í iðnrn. greindi frá í frægri ræðu sinni hér sl. vor, hafi verið kastað fyrir róða og hvort það sé þá bara gert ráð fyrir því að þessi 40% af fjármunum fjárfestingarbankans fari í þetta verkefni og þá hvernig.