Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:19:36 (1049)

1996-11-12 15:19:36# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., Flm. HG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:19]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana. Ásamt mér flytja þetta mál allir aðrir þingmenn Alþb. Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi af þeim sem hér talar en náði ekki langt þannig að full ástæða var til að flytja málið á nýjan leik og nú eru fleiri sem að því standa þar sem er allur þingflokkur Alþb. Ég vil taka fram að ekki var leitað til annarra þingflokka um meðflutning að málinu en allur stuðningur af hálfu þingheims við það er að sjálfsögðu afar vel þeginn.

Tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta reglur um málsmeðferð við flutning ríkisstofnana milli landshluta. Taki þær reglur m.a. á eftirfarandi þáttum:

a. aðstöðu stofnunar í nýju umhverfi,

b. kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem flytja með stofnuninni,

c. kjörum og réttarstöðu starfsmanna sem ekki kjósa að flytja,

d. málsmeðferð gagnvart Alþingi áður en ákvörðun er tekin.

Haft verði samráð við samtök opinberra starfsmanna og önnur stéttarsamtök, eftir því sem við á, um mótun reglnanna. Niðurstöður verði kynntar Alþingi eigi síðar en vorið 1997 ásamt tillögum um lagabreytingar sem þörf er talin á.``

Þetta er efni tillögunnar eins og það liggur fyrir á þskj. 17.

Í greinargerð með tillögunni er að finna rökstuðning fyrir henni og einstökum þáttum hennar. Þar er lögð áhersla á þýðingu þess að þessi mál verði tekin öðrum og ákveðnari tökum en hingað til með það að markmiði að færa þjónustu ríkisins með samræmdum hætti nær fólkinu og styrkja svæðisbundna umsýslu. Þannig má stuðla að betri stjórnsýslu, treysta stöðu landsbyggðar með fjölgun starfa og draga úr miðstýringu.

Í umræðu um þessi mál hefur hingað til skort verulega á umfjöllun um starfsaðstöðu þeirrar stjórnsýslu eða stofnana sem flytja á í nýtt umhverfi og enn óljósari hefur stefnan verið að því er varðar kjör og réttindi hlutaðeigandi starfsmanna. Hefur þetta í senn leitt til ómarkvissra vinnubragða og til óvissu og óánægju hjá starfsmönnum sem átt hafa hagsmuna að gæta vegna fyrirhugaðs flutnings.

Tilfinnanlega skortir á að til séu skýrar reglur m.a. um samskipti við starfsmenn viðkomandi stofnunar, bæði þá sem vilja halda starfi sínu áfram og hina sem ekki kjósa að flytjast með stofnuninni.

Það hefur í reynd gerst afar lítið í sambandi við flutning stjórnsýslu ríkisins frá höfuðborgarsvæðinu út á land, ekki síst ef tekið er mið af tillögum sem fram hafa komið frá stjórnskipuðum nefndum. Til dæmis nefnd sem skilaði áliti haustið 1975 til forsrn. og nefnd sem skilaði áliti 1993 og starfaði undir formennsku Þorvaldar Garðars Kristjánssonar, fyrrum alþingismanns og þingforseta.

Stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu og dreifingu opinberrar stjórnsýslu hefur að mínu mati lengst af verið afar óskýr. Hluti af ástæðunni að minna hefur gerst í þessum efnum en skyldi og vöntunin á svonefndu þriðja stjórnsýslustigi, sem er til staðar annars staðar á Norðurlöndum, hefur gert málstökin erfiðari en ella. Of mikill kraftur hefur farið í viðræður um að flytja stórar og grónar ríkisstofnanir frá höfuðstaðnum út á land í stað þess, sem ég tel að ætti að vera meginatriðið í málinu, að byggja upp með samræmdum hætti þjónustu ríkisins við íbúa í hverju kjördæmi á helstu umsýslusviðum opinberrar stjórnsýslu. Ég er sannfærður um að ef lögð hefði verið áhersla á þessa leið og tekist hefði að skipta landinu skilmerkilega í umdæmi, fylki eða héruð, hefðu menn náð allt annarri fótfestu í þessum efnum með miklum árangri fyrir hina opinberu stjórnsýslu og íbúa viðkomandi svæða. Ég tel að nú eigi að halda þannig á málum við frekari mótun tillagnanna að það verði tekið þessum tökum þó ég sé engan veginn að mæla gegn því að menn velji ríkisstofnunum stað utan höfuðborgarsvæðisins eða höfuðborgarinnar ef um er að ræða nýjar stofnanir, stofnanir sem eðli máls samkvæmt geta átt heima á viðkomandi landsvæði og hef reyndar verið tillögumaður að slíkri uppbyggingu. Ég nefni í því sambandi svonefnda Norðurstofnun, kennda við Vilhjálm Stefánsson, sem staðfest verði á Akureyri en það mál kemst væntanlega í höfn áður en langt um líður eftir viljayfirlýsingu Alþingis. Það er skýrt dæmi. Flutningur Skógræktar ríkisins á sínum tíma austur á Fljótsdalshérað sem Alþingi fjallaði um og samþykkti áður en ráðist var í frekari aðgerðir er dæmi um flutning á stjórnsýslu sem hefur greinilega fótfestu á viðkomandi svæði og þannig rök fyrir því að ætla að byggja hana upp þar enda hefur mjög þokkalega til tekist í þeim efnum.

En vissulega má segja, virðulegur forseti, að þau málefni sem hér er rætt um geti varðað vinnumarkaðinn í heild sinni. Það þarf auðvitað að líta til fleiri þátta en hinnar opinberu stjórnsýslu sem er þó málefni þessarar tillögu. Það eru mörg atriði um aðstöðu og staðsetningu fyrirtækja sem varða launafólk almennt og starfsmenn slíkra fyrirtækja sem og byggðarlögin þar sem þau starfa. Við erum hins vegar ekki að fjalla um það efni hér þó við minnum á, um leið og þessi tillaga er flutt, að einnig þarf að gefa gaum að slíkum málum og ef til vill verða flutt af hálfu þingmanna Alþb. sérstök mál sem varða hið víðara samhengi.

Hér á landi, virðulegur forseti, er ekki að finna neinar heildarreglur sem taka t.d. á réttarstöðu starfsmanna ríkisstofnana sem fyrirhugað er að flytja á milli landshluta. Það sjá allir að er óviðunandi. Ég tala nú ekki um ef teknar eru ákvarðanir, sem sagðar eru reistar á pólitískum forsendum, án þess að fyrir liggi skýrar og afmarkaðar reglur um hver réttarstaða þeirra er, sem starfa við þær stofnanir sem fyrir eru og ætlunin er að flytja.

Það er líka rétt, virðulegur forseti, að minna á að í áliti nefndar um flutning ríkisstofnana, þeirrar sem síðast starfaði og skilaði áliti 1993, kemur fram að leita eigi allra ráða til að stofnunum haldist á starfsmönnum sínum. Þá kemur þar einnig fram að starfsmenn sem láta af störfum vegna flutnings stofnunar ættu að hafa forgang að hliðstæðum störfum í öðrum ríkisstofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar er að öðru leyti lítið fjallað um þennan undirstöðuþátt mála og engar skýrt afmarkaðar tillögur að finna varðandi starfsmenn en mörgum öðrum atriðum gerð veruleg skil í áliti nefndarinnar.

Við mótun þeirra reglna sem tillagan gerir ráð fyrir að settar verði er ástæða til að líta til annarra Norðurlanda þar sem mun stærri skref hafa verið stigin en hérlendis við dreifingu á stjórnsýslu ríkisins enda þar víðast hvar, a.m.k. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku að finna héraðaskipan eða fylkjaskipan, kölluð ömt í Danmörku, sem auðvelda slíkt mjög verulega. En til mikils baga í þessum málum og fyrir byggðamál í landinu almennt hefur ekki skapast hér pólitísk samstaða um slíka formlega svæðisskiptingu með uppbyggingu á svonefndu þriðja stjórnsýslustigi. Það má hins vegar ekki koma í veg fyrir að á þessum málum verði tekið og það er hægt að gera ef vel er að verki staðið.

[15:30]

Ég vil nefna til áréttunar því sjónarmiði að langsamlega vænlegast er að byggja skipulega upp svæðisbundna stjórnsýslu í hinum einstöku kjördæmum landsins sem geta verið grundvöllurinn að umdæmaskiptingu á sviðum þar sem verkefni er að finna og leysa þar stjórnsýsluverkefni á viðkomandi sviði. Þar er af nógu að taka. Í tillögu sem ég flutti þegar verið var að setja ný sveitarstjórnarlög árið 1986 um nýjan kafla um héruð, sem kalla mætti fylki mín vegna, og ítarlegar útfærðar tillögur um slíka héraðaskipan í landinu. Þar segir í tillögugrein, með leyfi forseta:

,,Færa skal frá ríki til héraða hið fyrsta m.a. eftirtalda málaflokka að því er varðar svæðisbundin verkefni: húsnæðismál, almannatryggingar, skipulagsmál, byggðamál, menntamál, þjóðminjavernd, heilbrigðismál, vegamál, orkumál, opinbert eftirlit (með rafmagni, heilbrigði, öryggi og annarri hliðstæðri starfsemi), ráðgjöf í atvinnumálum.

Samhliða slíkri tilfærslu verkefna frá ríkinu til héraða skal dregið úr umsvifum stjórnarráðsins og ríkisstofnana á höfuðborgarsvæðinu.``

Þarna er þessi hugsun mótuð með skýrum hætti. Sum af þessum verkefnum hafa vissulega verið flutt út svæðisbundið en hafa ekki þá fótfestu í samræmdri stjórnskipan sem æskilegt væri. Dæmi um þetta er Vegagerð ríkisins sem hefur haldið uppi svæðisbundnum skrifstofum. Dæmi um þetta er líka uppbygging á vegum Byggðastofnunar á skrifstofum hennar á nokkrum svæðum og fleira mætti nefna í því sambandi. En stóru þættirnir, þar á meðal í heilbrigðismálum og menntamálum, hafa ekki fengið þá fótfestu sem skyldi og því miður voru fræðsluskrifstofurnar teknar undan ríkinu þegar grunnskólinn var fluttur til sveitarfélaganna og ekki byggðar upp sem rekstur af ríkisins hálfu til eftirlits og stuðnings við grunnskólann í héruðum landsins og kjördæmum landsins eins og æskilegt hefði verið að mínu mati.

Alþýðubandalagsmenn og sá sem hér talar hafa reynt að þoka þessum málum áfram. Ég minni á lög um iðnráðgjafa frá 1980 sem þá voru samþykkt og hafa orðið til þess að atvinnuþróunarstarfemi úti í kjördæmum landsins hefur styrkst verulega. Ég minni á lagasetningu frá 1993 um setur Náttúrufræðistofnunar Íslands sem er ný hugsun í sambandi við flutning eða skiptingu ríkisstofnana. Ég held að þar hafi verið farin mjög farsæl leið. Og ég minni á tillögu sem ég flutti á sínum tíma og samþykkt var á Alþingi um svæðisskrifstofur, um skrifstofur heilbrigðismála í kjördæmum landsins. Það hefur hins vegar ekkert gerst í því máli í reynd, því miður.

Virðulegur forseti. Það er mikið rætt í landinu um þessi mál af tilefni ákvarðana sem einstakir ráðherrar hafa gripið til, ekki síst umhverfisráðherrar bæði fyrrv. og núv., í tengslum við flutning Landmælinga ríkisins upp á Akranes. Ég minni aðeins á það umdeilda mál sem þar er á ferðinni án þess að taka það til sérstakrar umræðu. En þar er verið að flytja ríkisstofnun sem ekki hefur neina sérstaka svæðisbundna skírskotun, að því er verkefni varðar, til þess svæðis sem ætlunin er að flytja til. Þar hefur skapast slíkt uppnám m.a. vegna þess að samræmdar reglur skortir til að ganga út frá þannig að allir viti hverjar leikreglurnar eru, að það getur orðið til mikils baga fyrir þá starfsemi sem þar er um að ræða, því miður. Og ég held að menn þurfi að læra af þessu, læra af því hversu lítið hefur gerst og fara yfir aðferðafræðina í þessum málum til þess að ná því markmiði að færa þjónustu ríkisins skipulega og svæðisbundið út frá höfuðborginni til hagsbóta fyrir alla þegna landsins og koma í veg fyrir stimpingar sem engu skila í raun í byggðamálum í landinu ef ekki er staðið vel að þessum málum. Við þurfum auðvitað að gæta þess jafnframt að varðveita kosti höfuðborgar sem stjórnsýslumiðstöðvar, óneitanlega. Það er engin tilviljun að menn hafa byggt upp höfuðborgir. En það er hægt að komast hjá samhleðslu ríkisstarfseminnar þar með því að taka þannig á málum eins og ég hef mælt fyrir.

Ég legg til, virðulegur forseti, að þessari tillögu verði vísað til nefndar að umræðu lokinni. Hún mun ekki hafa farið til nefndar á síðasta þingi. Ég vil athuga það aðeins frekar áður en ég geri tillögu um það hvert tillagan fer. Ég hef ekki, satt að segja, alveg mótað það en málaflokkurinn heyrir undir umhvrn., það er að segja það sem ég var að víkja að hér síðast. Mér sýnist að um sé að ræða að annaðhvort taki forsrn. við tillögu af þessum toga eða að allshn. fjalli um málið sem er e.t.v. eðlilegasti farvegurinn.