Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 15:56:01 (1053)

1996-11-12 15:56:01# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[15:56]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég átti í greinarskrifum í sumar í DV við þann hv. þm. sem var í andsvari. Hann fór nú ekki alls kostar rétt með í þeim greinum svo ég nennti ekki að halda þeim skrifum áfram. Ég hef ekki látið í ljósi neitt álit á Akranesi. Það er eflaust ágætur bær og ágætt að búa þar. En þingmaðurinn getur ekki annað en viðurkennt að Akranes og umhverfi er öðruvísi atvinnusvæði. Við erum að tala um stofnun þar sem vinnur mestmegnis háskólamenntað fólk og í flestum tilvikum er það gift háskólamenntuðu fólki, ég hef að vísu ekki gert neina rannsókn á hjúskaparstöðu starfsfólksins en þar af leiðandi skiptir máli að fólk geti fengið vinnu einhvers staðar nálægt. Það skiptir marga máli að eyða mörgum klukkustundum á dag í það að fara á milli vinnustaða þrátt fyrir Hvalfjarðargöngin þegar og ef þau koma. Umhverfi Selfoss er öðruvísi atvinnusvæði. Ég tel að réttlætanlegt hefði verið að flytja Landmælingar ríkisins þangað en ég skal reyndar viðurkenna að ég er farin að efast mjög mikið um það. Framhaldsskóli er á Selfossi, framhaldsskóli er á Laugarvatni, það eru margir grunnskólar, það er sjúkrahús á Selfossi en það er líka sjúkrahús á Akranesi. (Gripið fram í: Og skólar líka. Ég gæti trúað að það væri grunnskóli á Akranesi.) Það er það að sjálfsögðu, hv. þm. En aðalatriðið er það að forsendan fyrir því að flytja ríkisstofnanir er að verulegur hluti starfsfólksins fylgi með, öðruvísi virkar stofnunin ekki nema mönnum finnist það réttlætanlegt að fara að eyða mjög miklu fé í að byggja heila ríkisstofnun upp frá grunni. Er það það sem þingmanninum finnst?