Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:02:03 (1057)

1996-11-12 16:02:03# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:02]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. að stórar skólastofnanir eru í grenndinni en ég hef hingað til litið svo á að Suðurlandið eða sá hluti Suðurlands sem er nær Reykjavík tilheyri meira því atvinnusvæði sem Reykjavík er. Það er mjög algengt að fólk sæki sér atvinnu yfir heiðina. En lengra er þó upp á Skaga alla vega enn sem komið er þó að göngin muni stytta þá vegalengd verulega ef fólk þorir að fara um þau. En við skulum ekki vera að eyða miklum tíma í landkosti og umhverfið. Starfsfólkið hlýtur að hafa vegið það og metið upp á hvaða kosti var boðið. Það hlýtur að vera það sem ræður. Fólk skoðar möguleikana og er bundið af ýmsu á sínum heimaslóðum. Fólkið sem vinnur hjá Landmælingum býr flest í Reykjavík eða nágrenni og gildar ástæður eru fyrir því að fólk vill ekki flytja. Í mínum huga er það grundvallaratriði, eins og ég hef margoft nefnt, að stofnun geti starfað áfram og henni sé ekki rústað á þennan hátt. Það getur verið að þetta sé einhver skynvilla að Suðurlandið sé svona miklu nær en Skaginn. (GE: Það er nokkuð ljóst.) Það segir hv. þm. Gísli S. Einarsson. En þegar nefndin var að vinna sínar tillögur á sínum tíma var Akranes aldrei inni í þeirri mynd, aldrei. Það kann vel að vera að það hefði mátt skoða betur. Ég skal alveg vera tilbúin til að endurskoða það. En í mínum huga enn og aftur --- það sem skiptir máli er að fólk vill ekki fara og við hljótum að spyrja: Hvers vegna?