Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:04:20 (1058)

1996-11-12 16:04:20# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:04]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá held ég að við séum komin að ákveðinni niðurstöðu í málinu. Hv. þm. lýsir yfir að hann sé reiðubúinn að endurskoða afstöðu sína varðandi flutning ríkisstofnana (KÁ: Nei, þetta er bull.) út á land og ekki síst til Akraness í ljósi upplýsinga sem hafa komið fram um hversu margs konar aðstaða er til staðar fyrir fólk einmitt í stofnunum af tagi Landmælinga á þessu svæði.

Úr því að rök voru í huga hv. þm. fyrir að færa stofnun eins og Landmælingar austur á Selfoss, þá er búið að sýna fram á að nákvæmlega allt hið sama á við varðandi flutninginn til Akraness nema að því leytinu að bent hefur verið á að margt í umhverfi Akraness er enn þá ákjósanlegra fyrir starfsfólk Landmælinganna en austur á Selfossi. Hafi rök verið fyrir því, sem hv. þm. sagðist hafa tekið undir á sínum tíma í þeirri nefnd sem hún starfaði í, að flytja þessa stofnun austur á Selfoss, þá eru auðvitað fullkomin rök fyrir að þessi stofnun fari upp á Akranes. Það er meginniðurstaðan í þessari umræðu.