Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:15:04 (1064)

1996-11-12 16:15:04# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., ÓÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:15]

Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur verið sagt: Hvers vegna skyldu Reykvíkingar flytja út á land? Sé það á rökhugsun byggt þá lít ég svo á að hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir líti svo á að Selfoss sé orðinn hluti af Stór-Reykjavíkursvæðinu. Því að í tillögunni sem lögð var fram var litið svo á að það væri allt í lagi að flytja á Selfoss og þá ætti líka að vera allt í lagi að sameina Akranes Reykjavík og hafa það sem eitt sveitarfélag og hafa þetta upp á Skaga út frá sömu rökum.

En það sem gerði það að verkum að ég ákvað að fara hér í andsvar var að Byggðastofnun á sínum tíma snerist hart gegn þeirri hugsun að hægt væri að líta svo á að hér væru tvær höfuðborgir. Akureyri væri höfuðborg landsbyggðarinnar en Reykjavík væri höfuðborg Íslands. Ef Akureyri væri orðin höfuðborg landsbyggðarinnar þá áttuðum við okkur margir hverjir ekki á því fyrir hvað Reykjavík væri þá höfðuborg --- Seltjarnarnesið? --- ef hitt svæðið væri orðið undir Akureyri. Og af því ég kem nú úr því kjördæmi sem sá maður var þingmaður sem lagði á það áherslu að Reykjavík yrði höfuðborg Íslands, þá taldi ég nú rétt að verja þær gömlu kenningar Jóns Sigurðssonar að breyta því ekki. Hins vegar lögðum við til að starfsemi Byggðastofnunar yrði flutt út á land. En í skýrslu svokallaðrar byggðanefndar þingflokkanna um það hvernig eigi að standa að flutningi stofnana og hvers vegna við þurfum þriðja stjórnsýslustigið, sem við þurfum, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vitnaði til, þá kemur það alveg skýrt fram að það er til mikil reynsla á Norðurlöndum um hvernig eigi að standa að flutningi ríkisstofnana og við vildum byggja á henni. Og annað hitt er ástæðan fyrir þriðja stjórnsýslustiginu. Það er ekki upp á skraut sem það er haft, það er ekki spurning um hvort landið sé stórt eða lítið, það er spurning um það hvort sömu líffærin og eru í fílnum séu músinni nauðsynleg. Og það krefst umhugsunar að komast að niðurstöðu hvort ekki megi sleppa einhverju af því sem er í fílnum, t.d. maganum, láta músina sleppa við það á þeirri forsendu að hún sé miklu minni. En þetta gengur bara illa upp, hv. þm., og þess vegna er þriðja stjórnsýslustigið nauðsynlegt.