Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 16:49:25 (1074)

1996-11-12 16:49:25# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., KHG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[16:49]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér er flutt til þál. um undirbúning vegna flutnings ríkisstofnana hefur leitt af sér mjög fjörugar umræður um stöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu. Ég vek athygli á því að í tillögunni felst ákveðin afstaða þingflokksins sem flytur hana og kemur fram í fyrstu setningu ályktunargreinarinnar en er hún svo, með leyfi forseta: ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta reglur um málsmeðferð við flutning ríkisstofnana milli landshluta.`` Það þýðir að það er skoðun flutningsmanna að flytja eigi ríkisstofnanir milli landshluta. Það er afdráttarlaus og óumdeild skoðun þingflokksins sem flytur tillöguna að þessa leið eigi menn að fara. Það eigi að dreifa valdinu, það eigi að snúa við þeirri öfugþróun sem verið hefur í gangi undanfarin ár. Ég tek undir þessa skoðun enda er ég einn af flutningsmönnum og bendi á að það er eðlilegt til að greiða fyrir þessu máli að menn setji sér almennar reglur um það hvernig eigi að standa að því. Þá er fyrst til þess að taka að menn þurfa að gera upp við sig á hvaða þáttum þær reglur eiga að taka sem setja á. Það er talið upp í tillögugreininni hvaða atriði það eru. En ég vek athygli á einu atriði sem hefur ekki komið fram enn og það er að ég legg mikla áherslu á að menn einangri ekki þetta mál við ríkisstofnanir og opinbera starfsmenn. Fyrirtæki eru flutt á milli landsvæða og það er í öðrum atvinnugreinum en opinberum rekstri sem fyrirtæki eru flutt á milli byggðarlaga og landsvæða og það er eðlilegt og sjálfsagt að starfsfólk í þeim atvinnugreinum búi einnig við ákveðið öryggi í lagabúningi ef með þarf rétt eins og þeir sem starfa hjá hinu opinbera. Ég vek athygli á málsgrein á bls. 2 með greinargerðinni sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Segja má að hér sé um að ræða málefni sem varðað geti vinnumarkaðinn í heild og þörf sé á að skoða í víðara samhengi sem viðfangsefni kjarasamninga eða í löggjöf. Til dæmis er full ástæða til að setja almennar reglur sem tryggi frekar rétt verkafólks til sjós og lands, við þær aðstæður að skip eða kvóti er seldur frá því fyrirtæki sem það starfar við. Flutningsmönnum þykir rétt að skipta málinu í tvennt, annars vegar setja reglur gagnvart starfsemi ríkisins, eins og lagt er til hér, og hins vegar um aðra atvinnustarfsemi, sem huga þarf betur að.``

Ég legg einmitt áherslu á þetta sjónarhorn, að menn gleymi því ekki í umræðunni um þennan afmarkaða þátt málsins, ríkisstofnanir og opinbera starfsmenn, að menn verða að huga að stöðu annarra fyrirtækja og annarra starfsmanna. Sem dæmi er nefnd réttarstaða þeirra sem starfa á sjó. Við þekkjum öll dæmi um það að togarar eru seldir á milli landshluta, frá einum stað til annars, og menn missa vinnuna ef þeir kjósa ekki að flytja með, þ.e. standi þeim það til boða. Mér þykir eðlilegt að menn setji reglur um þessa hluti rétt eins og menn setja reglur um flutning á ríkisstofnunum. Mér þykir hins vegar ekki eðlilegt að menn setji bara reglur um flutning á ríkisstofnunum en ekki reglur um flutning á öðrum störfum eins og þeim sem fylgja rekstri útgerða.

Þá vildi ég vekja athygli á að mér finnst oft og tíðum í umræðunni um staðsetningu ríkisstofnana gæta töluverðrar þröngsýni af hálfu þeirra sem horfa á málið héðan af höfuðborgarsvæðinu. Þeim finnst mikil firn ef það eigi að flytja stofnun af Laugaveginum yfir á annan veg rétt hjá, jafnvel þó að sá vegur sé í öðru sveitarfélagi. Ég segi fyrir mitt leyti og skírskota þá til umræðunnar um Landmælingar Íslands að mér þykir ekki ástæða til að þessi þáltill. nái til þeirrar ákvörðunar vegna þess að um er að ræða sama atvinnusvæði við Faxaflóann. Ég tel enga ástæðu til að setja sérstakar reglur um flutning ríkisstofnunar frá Laugaveginum í Reykjavík til Keflavíkur eða Akraness eða Seltjarnarness. Þetta er eitt og hið sama svæði og flutningur stofnana þar á milli þarf ekki að lúta neinum sérstökum reglum. Þetta er eitt atvinnusvæði þar sem menn geta búið nánast hvar sem er á því og unnið hvar sem er á því. Menn mega ekki verða svo rígbundnir við hreppamörk eins og mér finnst oft gæta í máli þeirra sem búa í Reykjavík að líta svo á að allt það sem er utan Reykjavíkur sé langt í burtu. Þetta vildi ég árétta líka, herra forseti, og hvetja þingheim til þess að sýna meiri víðsýni í þessum efnum, einkum þá sem tala gegn ákvörðun hæstv. umhvrh. um flutning á Landmælingum Íslands. Ég hef lýst yfir stuðningi við þá ákvörðun og ítreka það hér. Hugsanlega má gagnrýna aðdraganda þeirrar ákvörðunar en að mínu viti er ekki hægt að gagnrýna ákvörðunina sjálfa. Hún var hárrétt. Þær reglur sem menn kunna að vilja setja verða að mínu mati að vera mjög skýrar og einfaldar. Þær verða að vera þannig úr garði gerðar að jafnræðis sé gætt eins og kostur er á milli starfsmanna hins opinbera og starfsmanna á almennum vinnumarkaði. Ég tel að draga verði úr þeim mun sem menn hafa búið til á milli launafólks í þessu efni. Ég sé ekki í fljótu bragði að þörf sé á öðrum reglum að sinni en þeim að stjórnvöld taki ákvörðunina að yfirlögðu ráði og tilkynni hana með góðum fyrirvara. Nákvæmlega það var gert varðandi Landmælingar Íslands og því tel ég að þar hafi verið alveg nægjanlega vel að málum staðið og ekki ástæða til að bera sig illa undan henni. Menn kunna að vera ósammála ákvörðuninni en það er annað mál. Hún verður ekki gagnrýnd á þeim forsendum að skort hafi á í undirbúningi.

Ég vil svo, herra forseti, segja það að lokum að hér hafa farið fram umræður um þriðja stjórnsýslustigið sem er eðlilegt því það er víðast hvar til erlendis og er nauðsynlegt að setja það upp til að dreifa valdinu. Málið snýst nákvæmlega um það að dreifa valdinu.