Flutningur ríkisstofnana

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 17:21:29 (1078)

1996-11-12 17:21:29# 121. lþ. 21.16 fundur 17. mál: #A flutningur ríkisstofnana# þál., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[17:21]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram um þáltill. okkar alþýðubandalagsmanna. Margt athyglisvert hefur komið fram. Umræðan hefur kannski að nokkru snúist um annað en efni tillögunnar þó að hún gefi auðvitað tilefni til þess að menn ræði um reynslu af flutningi ríkisstofnana hingað til og er ekkert óeðlilegt að það komi með inn í þessa umræðu.

Eins og menn hafa tekið eftir og ýmsir ræðumenn hafa fjallað um er þessi tillaga um að markaðar verði reglur og skýrari aðferðir í aðdraganda þess að ákvarðanir séu teknar um tilfærslu á ríkisstarfseminni. Það er sem sagt meginefni málsins. Mér finnst mjög ánægjulegt að heyra að það séu undirtektir við það að reyna að draga skýrari línur en verið hefur. Það hefur kannski skort mjög tilfinnanlega á það til þess að ná meiri sátt um aðgerðir þegar í þær er ráðist og pólitískur vilji er til staðar. Ef það verður niðurstaðan af þessu máli við skoðun í þingnefnd, og það er hv. allsh. þingsins sem ég legg til að fái tillöguna til meðferðar, þá er mikið fengið að mati okkar flm.

Ég tel að einmitt litið til reynslunnar sé alveg ljóst að það þarf talsvert mikið að breytast að því er varðar viljann, pólitískan vilja, en einnig vinnubrögð til þess að það verði brotið í blað í sambandi við þessi mál og tekið stærra á í þessum efnum í þokkalegri sátt við fólk, óháð því hvar það er búsett. Ég tek undir með þeim hv. þm. sem hér hafa talað, og hafa einmitt lagt áherslu á það, að hér er ekki einvörðungu um staðbundið eða svæðisbundið vandamál að ræða, langt frá því, þ.e. samsöfnun ríkiskerfisins hér í höfuðborginni og starfsmanna þess, heldur er þetta vandamál þjóðarinnar allrar, þar á meðal höfuðborgar okkar. Ég deili áhyggjum með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni sem mælti hér varnaðarorð í því skyni: Hver eru örlög höfuðborgar án lands, án baklands eða upplands? Það er mjög eðlilegt að þeirri spurningu sé varpað fram í umræðu sem þessari.

Ég vek athygli á því að það hefur gengið nokkuð þunglega þegar menn hafa ráðist í að færa ríkisstofnanir sem hafa haft aðsetur hér í höfuðborginni út til tiltekinna svæða. T.d. á hæstv. umhvrh. í verulegum erfiðleikum í framhaldi af ákvörðun sinni um að flytja Landmælingar ríkisins upp á Akranes. Ég hef áhyggjur af því að slíkar deildar meiningar um flutning ríkisstofnana geti leitt til þess að draga úr árangri á þessu sviði. En úr því verði hins vegar hægt að draga með skýrum og skilmerkilegum reglum. Þess vegna set ég fram þær hugmyndir að menn leggi meiri áherslu á það að skipta upp ríkisstarfseminni þannig að færð séu út verkefni sem eru þjónusta við fólkið á tilteknum svæðum. Þar er af nógu að taka: heilbrigðismál, húsnæðismál, menntamál o.s.frv. Fjölmarga þætti, sem falla til í öllum kjördæmum landsins, má til nefna sem eðlilegt er að skipulega séu færðir nær fólkinu. Og við talsmenn nýs stjórnsýslustigs höfum bent á hvaða kostur það væri að hafa slíka skýra skiptingu landsins til staðar til þess að ná skilmerkilegri árangri í svona tilfærslu. Ég tel að það sé miklu líklegra til árangurs með tiltölulega skjótum hætti ef menn byndust samtökum um aðferðafræði af þessum toga og reyndu að ná árangri þannig.

Menn skulu taka eftir því, virðulegur forseti, að þegar um hefur verið að ræða slíka svæðisbundna uppbyggingu þá hafa ekki orðið neinar teljandi stimpingar af þeim sökum eða vandræði, m.a. að fá fólk til starfa, vegna þess að það er ekki verið að rífa upp starfsemi sem fyrir er og færa hana til ásamt þeim mannafla sem því fylgir heldur er verið að hlúa að nýjum vaxtarsprotum. Auðvitað getur fylgt slíku að það dragi úr þörf fyrir starfsemi hér í höfuðborginni og það mun til lengri tíma litið óhjákvæmilega leiða til þess, ef menn ná sátt um slíka svæðisbundna skiptingu, að fólki fækki hér. En slíkt er hægt að gera skipulega og með mildari hætti heldur en þegar um það er að ræða að setja mönnum þá kosti að annaðhvort flytji þeir með viðkomandi stofnun eða er sagt upp störfum.

Það er hægt að fara margar leiðir í þessum efnum, t.d. þá að viðbótarstarfsemi á vegum ríkisins, að viðbótarstörf sem nauðsynleg eru talin, séu færð út á svæðin. Á þetta hefur verið minnst sem möguleika af ýmsum, t.d. þingmönnum úr öllum flokkum. Ég minnist ummæla sem hv. 5. þm. Norðurl. e., Tómas Ingi Olrich, viðhafði í spjalli ekki alls fyrir löngu um þetta efni. Ég nefni það vegna þess að hann tók þátt í umræðunni. Ég tek undir það að þetta eiga menn að skoða vel og vandlega vegna þess að þar eru örðugleikarnir, þar eru hindranirnar ekki jafnsjálfgefnar eins og koma upp í sambandi við það að færa til heilar stofnanir úr sínu umhverfi, grónu umhverfi oft á tíðum ef þær hafa verið um langt skeið. Hitt er svo annað mál að það ber engan veginn að útiloka slíkt og alveg sérstaklega ber að nota færin þegar um er að ræða nýja starfsemi, nýjar stofnanir að velja þeim stað utan höfuðborgarsvæðisins. Það er gífurlega þýðingarmikið, og mætti fara um það mörgum orðum, að fá til starfa fólk bæði með þekkingu og sérþekkingu út í það sem við köllum hinar dreifðu byggðir landsins, hvort sem um væri að ræða nokkur þúsund manna byggðarlag eða fámennara sem fengi slíka blóðgjöf sem það er að fá ný verkefni af öðrum toga en hið oft því miður tiltölulega fábreytta atvinnulíf sem er hjá okkur víða úti um land og öðlast aukinn styrk við það að fá fjölbreytni í næsta nágrenni.

[17:30]

Ég hvet sem sagt eindregið til þess að menn skoði allar leiðir í þessum efnum. Ég er þeirrar skoðunar að því betur sem hægt er að halda á þessum málum gagnvart því fólki sem er í störfum og í hlut á þeim mun meiri árangri í heild er líklegt að við náum. Það er ekkert gamanmál að þurfa að efna til deilna, ófriðar í kringum sérhæfða starfsemi. Það er ekkert gamanmál. Það er hætt við því að það bitni a.m.k. tímabundið á viðkomandi starfsemi. Og ef unnt er að komast hjá því með skýrum leikreglum og mildandi aðferðum sem liggi fyrir þegar kemur að því að taka ákvörðun því betra, þeim mun meiri líkur eru á því að viðkomandi ákvörðun fái staðist og leiði til farsællar niðurstöðu.

Þegar ég var að líta á þessi mál og móta þessa tillögu fyrir síðasta þing þegar hún kom fram þá leit ég auðvitað m.a. á það sem er gert í grannlöndum. Ég vil nefna sem dæmi undirbúning að flutningi norsku Norðurslóðastofnunarinnar, Norsk Polarinstitutt, frá Ósló til Tromsö en þangað á að flytja stofnunina, mig minnir að sá flutningur eigi að vera um garð genginn 1. janúar 1998, hef það þó ekki nákvæmlega fyrir mér, alla vega með rúmum aðdraganda því ákvörðunin mun hafa verið tekin 1994 um þetta efni. Þá lá fyrir skýr samningur milli aðila, ríkisins og viðkomandi ráðuneytis og viðkomandi starfsmannafélaga, fulltrúa viðkomandi starfsmanna, um það á hvaða forsendum þetta væri gert að því er varðaði þá og þeirra hagsmuni. Þennan samning hef ég hér fyrir framan mig sem heitir í yfirskrift Avtale om personellmessige forhold ved flytning af Norsk Polarinstitutt til Tromsø. Þetta er samningur sem er gerður við ekki bara eitt fagfélag heldur mörg stéttarfélög fólks sem starfar við viðkomandi stofnun sem á að flytja í nýtt umhverfi. Þetta er dæmi um leikreglur sem hér þurfa að verða til fyrr en seinna. Það sama gildir um lífeyrismálefni m.a., en hjá Norðmönnum liggja fyrir skýrar reglur að þessu leyti sem við getum vel litið til, og einnig um biðlaunarétt, ef menn ekki flytja með stofnun, þar sem um er að ræða það sem Norðmennirnir kalla forgöngurétt eða fortrinnsrett til ny stilling og ventelønn eins og það heitir á norskunni, þ.e. biðlaun og forgangur til nýrra starfa á vegum ríkisins ef um er að ræða flutning á ríkisstarfsemi. Allt þetta getur létt stórlega undir fæti í sambandi við það sem hér er um að ræða til að menn nái þeim pólitísku markmiðum sem verið er að framfylgja eða sækjast eftir.

Ég tek líka undir það sem hér kom fram í umræðunni og nefnt var af hv. 5. þm. Norðurl. e., en hann tók dæmi af Háskólanum á Akureyri. Það er lýsandi dæmi um það hvernig tekst að koma fótum undir nýja ríkisstofnun sem ekki var á því stigi sem ákvörðunin var tekin að koma í staðinn fyrir einhverja aðra eða keppa við einhverja aðra stofnun þó að því miður hafi nokkrar ýfingar orðið á milli þeirra stofnana sem fyrir voru á sama sviði en það er önnur saga. Þetta held ég einmitt að renni stoðum undir þann málflutning sem hér hefur verið uppi hafður og ég vil þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir ágætt innlegg í umræðuna en hann er í hópi þeirra sem að hafa frá sínum heimavettvangi verið að reyna að ýta að Alþingi Íslendinga m.a. hugmyndum um hina svæðisbundnu stjórnun og styrkingu byggðar með því að deila upp ríkiskerfinu og færa þjónustu nær umbjóðendum, nær fólkinu.

Varðandi það sem sagt hefur verið um sveitarfélögin í tengslum við þetta mál þá er þar um að ræða annað mál að vissu leyti um ýmsa möguleika sem eru á að færa verkefni milli stjórnsýslustiga ríkis og sveitarfélaga. Hins vegar kemur það að mínu mati ekki í staðinn fyrir það sem hér hefur verið mest rætt um, þ.e. að ríkið færi hluta af sinni starfsemi og haldi henni sem ríkisstarfsemi út svæðisbundið með skipulegum hætti því seint verða sveitarfélögin færð svo út og stækkuð það mikið að þau komi í staðinn fyrir svæðisbundna skipan þessara mála í stærri landfræðilegum ramma en skynsamlegt er að þenja út sveitarfélögin.

Ég ítreka, virðulegur forseti, þakkir mínar til þátttakenda í umræðunni fyrir það sem fram hefur komið og legg áherslu á að hér er um að ræða viðleitni til að fá mótaðar almennar reglur til að ná meiri árangri heldur en orðið hefur á langri tíð í sambandi við flutning á verkefnum ríkisins út til landshlutanna.