Umferðarlög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 17:45:44 (1080)

1996-11-12 17:45:44# 121. lþ. 21.24 fundur 61. mál: #A umferðarlög# (hlífðarhjálmar fyrir hjólreiðar) frv., Flm. LMR (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[17:45]

Flm. (Lára Margrét Ragnarsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að mæla fyrir frv. til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. gr.

72. gr. a laganna orðast svo:

Barn yngra en 15 ára skal nota hlífðarhjálm við hjólreiðar. Forráðamaður barns skal sjá um að barnið fylgi ákvæði þessarar greinar.

2. gr.

Lög þessi öðlast gildi 1. júní 1997. Eigi skal þó refsa fyrir brot framin gegn 1. gr. fyrr en 1. júní 1999.``

Svipuð frumvörp voru áður flutt á 111., 113., 117. og 120. löggjafarþingi en urðu þá eigi útrædd.

Síðastliðin tíu ár hafa verið lagðar fram slysaskýrslur hér á landi er sýna að höfuðslys við hjólreiðar eru mjög tíð meðal barna og ungmenna og að slík slys hafa jafnan alvarlegar afleiðingar. Þessum slysum hefur þó fækkað aðeins á síðastliðnum árum samhliða því sem notkun sérhannaðra hjólreiðahjálma hefur aukist hratt. Samkvæmt könnun er Umferðarráð stóð fyrir í júlí 1993 var hjálmanotkun við hjólreiðar í þéttbýli hérlendis þá um 20% en sambærileg könnun á þessu ári sýndi að þetta hlutfall var komið upp í 30%. Víða erlendis hafa verið gerðar athuganir er sýna að langflest börn, sem slasast alvarlega eða deyja vegna höfuðáverka er hlýst við hjólreiðar, hafa ekki borið hjálm á höfði. Sama niðurstaða kemur í ljós þegar skoðuð er slysaskráning á sjúkrahúsum hér á landi síðustu árin.

Árið 1990 voru sett lög um skyldunotkun hjólreiðahjálma í Ástralíu og í kjölfarið fækkaði alvarlegum höfuðmeiðslum hjólreiðamanna um 60--70% þar í landi. Sömu sögu er að segja frá nokkrum fylkjum Bandaríkjanna þar sem slík lög hafa verið sett. Fá lönd í Evrópu hafa hins vegar enn sem komið er sett slík ákvæði í löggjöf sína en samtök um öryggi evrópskra neytenda (ECOSA) ákváðu á fundi í Stokkhólmi í apríl 1992 að stefna að því að árið 2010 yrði hjálmanotkun orðin sem útbreiddust í öllum löndum Evrópubandalagsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu.

Skylda til bílbeltanotkunar var leidd í lög á Íslandi árið 1987, tíu árum eftir að fyrstu tillögur voru lagðar fram í því efni. Margir voru þá efins um ágæti þeirrar skyldu en nú efast fáir enda hefur slysum af völdum árekstra fækkað um nálægt 50% og framrúðuslys eru nánast algerlega horfin. Stjórnvöld hljóta að leitast við að tryggja öryggi borgaranna eftir fremsta megni og lögleiðing bílbeltanotkunar var heillavænlegt spor í þá átt. Nú er tækifæri til að halda áfram á sömu braut og huga þá í upphafi sérstaklega að yngstu vegfarendunum.

Á 116. þingi var samþykkt sú viðbót við umferðarlögin að dómsmálaráðherra gæti sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar. Hér er hins vegar lagt til að gengið verði lengra og slík skylda lögleidd og því er gert ráð fyrir að framangreind breyting verði felld brott. Börn undir 15 ára aldri teljast ósakhæf og verður því ekki refsað. Heimilt er hins vegar að sekta forráðamann barns og fer um slíkar sektir eftir almennum reglum um meðferð ákæruvalds. Þó er ekki gert ráð fyrir að farið verði að sekta fyrir brot gegn lögunum fyrr en tveimur árum eftir gildistöku þeirra. Er þar farin svipuð leið og þegar bílbelti voru lögleidd á níunda áratugnum.

Gert er ráð fyrir að lögin sjálf taki gildi 1. júní 1997.

Loks skal bent á að þó að með þessu frumvarpi sé aðeins ætlað að lögleiða notkun hlífðarhjálma hjá ungum hjólreiðamönnum geta slíkir hjálmar bjargað miklu og komið í veg fyrir höfuðmeiðsl þeirra sem detta á hjólabrettum, hjólaskautum, línuskautum, skautum, skíðum og snjóþotum.

Tel ég eðlilegt að í framtíðinni verði hugað að lögleiðingu hjálmanotkunar hjá öllum hjólreiðarmönnum ásamt þessum hópum sem ég nefndi áðan og það verði þá skoðað fljótlega og gert fyrr en síðar.

Ég vil líka benda á að frv. þetta er lagt fram af þingmönnum allra þingflokka og ætti því ekki að vera mikill ágreiningur um það frá pólitísku sjónarmiði.

Ég vil að lokinni þessari umræðu vísa málinu til allshn.