Endurskoðun á launakerfi ríkisins

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:13:18 (1083)

1996-11-12 18:13:18# 121. lþ. 21.17 fundur 32. mál: #A endurskoðun á launakerfi ríkisins# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:13]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir umræðuna um launakjör hjá hinu opinbera. Ég tel hana vera mjög tímabæra og gagnlega þótt ég sé ekki sammála öllu því sem fram hefur komið hjá flutningsmönnum. Ég tel t.d. að gera eigi nauðsynlegar breytingar á launakerfinu og launakjörunum í gegnum kjarasamninga. Þar þurfi engin sérstök nefnd að koma til sögunnar, heldur eigi fyrst og fremst að fjalla um þessi mál í beinum kjarasamningum á milli aðila sem standa reyndar nú fyrir dyrum.

Ég er ekki heldur alveg sammála tali um að launakerfi hins opinbera sé handónýtt. Ég held að staðreyndin sé sú að launataxtar séu allt of lágir. Almennir launataxtar hjá hinu opinbera eru of lágir. Ef opinbera launakerfið er borið saman við það sem tíðkast á almennum vinnumarkaði er ekki saman að jafna. Ég held helst að hæstu taxtar hjá Verslunarmannafélaginu séu innan við 90 þús. kr. Það segir hins vegar litla sögu um raunveruleikann, einkum hjá þeim sem eru í efri kantinum. Það sem þar er ofan á er ekki samið um í kjarasamningum þannig að þar segir launakerfið og launataxtarnir okkur miklu minna en gerist almennt hjá hinu opinbera.

[18:15]

Hins vegar er verið að eyðileggja launakerfið hjá hinu opinbera. Það var yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar, sem fram kom í tengslum við umræðu um lög um réttindi og skyldur sl. vor, að stefna ætti að því að viðbótarlaun, þar sem forstöðumenn stofnana og fyrirtækja á vegum hins opinbera, yrðu stór hluti í launamynduninni. Hugsunin var sú að grunnlaunin yrðu lág en síðan yrði launakerfið líkt og gerist víða á almennum vinnumarkaði í valdi einstakra forstöðumanna. Að þessu er stefnt leynt og ljóst.

Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir spurði hvort búið væri að semja um þær reglur sem ættu að gilda um viðbótarlaun. Svo er ekki. Það er ekki búið að ná samningum um þetta.

Það er annað í þróuninni nú um stundir sem veldur því að mér finnst rétt að fullyrða að verið sé að eyðileggja launakerfið og gera það ógagnsærra í raun. Það eru niðurstöður frá kjaranefnd frá því fyrr á þessu ári þar sem farið er að nota nýjar mælieiningar, starfseiningar held ég að það heiti. Þar er að finna eins konar blöndu af yfirvinnu og ábyrgð. Erfiðara er orðið að átta sig á hvað raunverulega er verið að greiða fyrir hverju sinni.

Það er eitt sem ég vil vara við í þessari umræðu þegar við erum að tala um yfirvinnu, ökutækjastyrki o.s.frv. Það eru þær alhæfingar sem einkenna umræðuna. Staðreyndin er sú að í flestum tilvikum er yfirvinnan unnin, í allflestum tilvikum er yfirvinnan unnin og ekið er fyrir þá ökupeninga sem menn fá greidda. Það er hin almenna regla. Hins vegar er farið að tala um jafnaðaryfirvinnu sem hvern annan ránsfeng. Þetta er af og frá. Staðreyndin er sú að unnið er fyrir þessar greiðslur og það er ekið fyrir þessa peninga. En það er líka staðreynd og er alveg rétt að þetta kerfi hefur verið notað til yfirborgana. Margir hjá hinu opinbera hafa verið í aðstöðu til að skammta sér og sínum nánustu samstarfsmönnum og í sumum tilvikum stærri hópum yfirborganir í gegnum þetta kerfi. Það er alveg rétt. Og það sporslukerfi ber að afnema. Það er skiljanlegt að því hafi verið mótmælt þegar átti að færa inn í launataxtann greiðslur sem hefðu verið fengnar með þessum hætti. Það er skiljanlegt vegna þess að þar með var verið að staðfesta, ekki bara í launakerfnu heldur í öllu réttindakerfinu, mismun sem var til kominn utan kjarasamninga og mismun sem jók muninn á milli karla og kvenna, þeirra sem stóðu hátt í launakerfinu og þeirra sem stóðu lágt í launakerfinu. Það sem ég tel að þurfi að gera er að semja í kjarasamningum um hækkun almennra launataxta. Það er það sem þarf að gera, það er verkefnið. Síðan þarf að afnema það misrétti sem er við lýði og er tilkomið vegna yfirborgana hvort sem er í gegnum yfirvinnugreiðslur eða ökutækjastyrki eða hvernig sem það er tilkomið, það á að afnema.

Því miður vakir það ekki fyrir stjórnvöldum. Að vísu á þetta eftir að koma betur í ljós í þeim kjaraviðræðum sem nú eru hafnar. En ég tel sýnt að ekki muni nást samningar fyrr en gengið hefur verið frá þessum málum.