Endurskoðun á launakerfi ríkisins

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:27:54 (1085)

1996-11-12 18:27:54# 121. lþ. 21.17 fundur 32. mál: #A endurskoðun á launakerfi ríkisins# þál., SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:27]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka að ég er algerlega sammála þeim meginmarkmiðum sem eru sett fram í frv. en ég get ekki sætt mig við þessa nefnd. Ég gæti aldrei samþykkt það, sérstaklega undir þeim kringumstæðum sem nú eru, að fram undan eru kjarasamningar og þetta er auðvitað kjarasamningamál.

Ég virðist hafa talað eitthvað óljóst um hörku kvenna í samningaviðræðum. Ég hef dáðst að því, eins og Kristín Ástgeirsdóttir, hversu skeleggar konur hafa verið í kjarabaráttunni á undanförnum árum, en það sem ég var að meina er að sennilega erum við þannig gerðar að í því að ná fram kjarabótum fyrir okkur persónulega á vinnustað, þar erum við ekki eins harðar. Það var það sem ég meinti og eingöngu það. Ég hef einmitt upplifað þetta --- að konur eiga mjög erfitt með að sækja kjarabætur fyrir sig persónulega.

Ég get algerlega tekið undir það með hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur að auðvitað er ekkert mikilvægara en menntun. Ekkert hefur skilað okkur konum eins fram á við og aukin menntun á þessari öld. En því miður hefur menntunin ekki skilað okkur peningum í launaumslagið og því þurfum við að breyta.