Sala notaðra ökutækja

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:31:26 (1087)

1996-11-12 18:31:26# 121. lþ. 21.18 fundur 148. mál: #A sala notaðra ökutækja# (leyfisbréf, eftirlit o.fl.) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:31]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um sölu notaðra ökutækja, nr. 69/1994. Frv. er 148. mál þingsins og er á þskj. 163.

Fljótlega eftir gildistöku laganna kom í ljós að hnökrar voru á framkvæmd útgáfu leyfisbréfa og eftirlits. Þannig voru vandkvæði á framkvæmd í Reykjavík þar sem embætti sýslumanns og lögreglustjóra voru aðskilin. Var því augljóst að ekki mundi líða langur tími þangað til endurskoða þyrfti lögin. Haft var samband við hagsmunaaðila og kallað eftir hugmyndum þeirra varðandi þau atriði er þeir teldu að betur mættu fara í lögunum. Eftir að hugmyndir þessara aðila höfðu borist ráðuneytinu voru samin þar drög að frv. Ákveðið var að einblína ekki á þau atriði er lúta að leyfisveitingum og eftirliti í gildandi lögum heldur taka lögin í heild til endurskoðunar. Lágu drög fyrir síðla vetrar og voru þau send eftirfarandi aðilum til umsagnar: Neytendasamtökunum, dómsmrn., prófnefnd bifreiðasala, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, fjmrn. (vegna Ríkiskaupa), Verslunarráði Íslands, utanrrn. (vegna Sölu varnarliðseigna), Félagi íslenskra bifreiðaeigenda og Félagi löggiltra bifreiðasala. Umsagnir bárust fra öllum þessum aðilum nema utanrrn. og prófnefnd bifreiðasala. Áður en farið verður að lýsa einstökum greinum frv. tel ég rétt, herra forseti, að fara nokkrum orðum um helstu nýmæli frá gildandi lögum.

Skýrar er nú kveðið á um gildistöku laganna. Er nú tekinn af allur vafi um það að þeir sem selja notaðar bifreiðar í atvinnuskyni, hvort sem það eru bílasalar, vátryggingasalar eða Ríkiskaup, falli undir lögin. Í stað þess að sýslumenn gefi út leyfi til að mega stunda starfsemina gerir frv. ráð fyrir að viðskrh. gefi þau út. Er það enda í samræmi við útgáfu annarra leyfisbréfa til miðlara svo sem vátryggingamiðlara og auðveldar mjög að halda utan um landsskrá fyrir bifreiðasala.

Hæfisskilyrði eru nokkuð þrengd. Er þar tekið mið af sambærilegum ákvæðum í hlutafélagalögum. Ákvæði um starfsábyrgðartryggingu er einnig lítillega breytt til samræmis við sambærileg ákvæði sem gilda um aðra miðlara.

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir eftirliti sýslumanns með starfsemi bifreiðasala án þess þó að þeim séu tryggðar neinar tekjur til þess að standa undir kostnaði við eftirlitið. Frv. gerir ráð fyrir að eftirlitið sé í höndum lögreglustjóra og að lagt verði árlegt eftirlitsgjald á, 5.000 kr., á starfandi bílasala til þess að standa undir kostnaði við eftirlitið. Er það álit mitt að gjald þetta sé það hæfilegt að það eigi ekki að íþyngja neinum bifreiðasala sem á annað borð hefur með höndum starfsemi.

Þá er loks rétt að geta þess að skýrar er kveðið á um leyfisveitingu í frv. en gert er í lögum svo og um þau úrræði er lögreglustjórar geta gripið til ef starfsemi á sér stað án tilskilinna leyfa. Mun ég nú, herra forseti, víkja að einstökum greinum frv.

Eins og áður sagði er lagt til að gildissvið laganna sé gert skýrara. Þannig er í 1. tölul. 1. gr. kveðið á um hefðbundna starfsemi bifreiðasala, þ.e. milligöngu um sölu notaðs ökutækis sem fram fer á skipulagðan hátt sem þáttur í atvinnustarfsemi viðkomandi. Í 2. tölul. 1. gr. segir að lögin taki einnig til sölu notaðra ökutækja þó þau séu í eigu seljanda ef sú starfsemi er þáttur í atvinnustarfsemi viðkomandi.

Samkvæmt þessu gilda lögin t.d. um sölu bifreiðaumboða á notuðum bifreiðum hvort sem þær eru í eigu umboðsins eða viðskiptamanna. Einnig taka lögin til vátryggingafélaga sem selja tjónabíla, hvort sem þeir hafa verið formlega yfirteknir af vátryggingafélaginu eða eru enn í eigu þess sem fyrir tjóninu varð. Sama máli gegnir um skipulagða sölu Sölu varnarliðseigna á ökutækjum. Enn fremur fellur hér undir sölustarfsemi innkaupastofnana sveitarfélaga eða ríkis sem hafa það hlutverk að annast sölu notaðra ökutækja fyrir viðkomandi sveitarfélög eða ríki. Þá fellur undir lögin sala bílaleiga á þeim bifreiðum sem hafa verið notaðar til útleigu, enda er litið þannig á að sala og endurnýjun bifreiða á vegum bílaleigu sé eðlilegur þáttur í atvinnustarfsemi slíks fyrirtækis. Sama á við um beina sölu fjármálastofnana, svo sem banka og eignarleigufyrirtækja, á bifreiðum sem slíkar stofnanir hafa leyst til sín.

Lögin taka hins vegar ekki til milliliðalausrar sölu á einstökum bifreiðum eða milligöngu um sölu einstakra bifreiða sem ekki fer fram með skipulögðum hætti eða sem þáttur í atvinnustarfsemi. Þannig má nefna að sala stofnana eða fyrirtækja, eins og banka, eignarleigufyrirtækja eða vátryggingafélaga, á einstökum bifreiðum sem notaðar hafa verið í rekstri eða starfsemi viðkomandi stofnunar eða fyrirtækis, fellur ekki undir gildissvið laganna.

Ástæða þykir til að láta lögin ekki taka til nauðungarsölu notaðra ökutækja, samanber núgildandi lög, enda verður að ætla að neytendamarkmiðum laganna sé nægilega vel borgið hjá opinberum sýslunarmönnum.

Í 2. gr. frv. er lagt til að sama fyrirkomulag verði á útgáfu leyfis til sölu notaðra ökutækja og er á útgáfu leyfa til verðbréfamiðlunar og vátryggingamiðlunar. Þannig er gert ráð fyrir því að þeir sem vilja stunda sölu notaðra ökutækja í atvinnuskyni hafi til þess leyfi viðskrh. Slíkt fyrirkomulag auðveldar að unnt sé að halda á einum stað landsskrá yfir leyfishafa.

Rétt þykir einnig að kveða skýrt á um það að leyfishafi geti lagt inn leyfi sitt verði breytingar á aðstæðum hans, án þess að missa við það nokkurn rétt.

Breytingar þær sem lagðar eru til í 3. gr. eru til þess að skýrar sé kveðið á um hæfisskilyrði umsækjenda um leyfi til þess að mega stunda bifreiðasölu. Þannig er nú gert ráð fyrir, auk þeirra ákvæða sem óbreytt standa, að umsækjendur séu lögráða og hafi eigi hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað á síðustu þremur árum. Er þetta ákvæði sett inn til samræmis við ákvæði hlutafélagalöggjafarinnar. Í samræmi við ákvæði um starfsábyrgðartryggingar verðbréfa- og vátryggingamiðlara eru ákvæði 3. gr. þar um einnig endurskoðuð.

Í 4. gr. er lagt til að upplýsingar þær sem bifreiðasala ber að afla sér skriflega frá seljanda fylgi afsali fyrir bifreiðinni þannig að ekki fari á milli mála að þeirra hafi verið aflað og kaupanda gerð grein fyrir þeim.

Kaupendur bifreiða virðast almennt ekki hafa vitneskju um þau sölulaun sem bifreiðasalar krefjast þegar um skipti á bifreiðum er að ræða, þ.e. þegar ódýrari bifreið er tekin upp í dýrari, enda hefur skort nokkuð á að vakin sé athygli á gjaldskrá fyrir söluþóknun vegna bifreiðaviðskipta. Þar sem kvörtunarmál vegna ofangreindra sölulauna eru tíð er lagt til í 5. gr. að bifreiðasala sé skylt að vekja athygli viðskiptamanna sinna á gjaldskrá fyrir söluþóknun áður en viðskipti eru gerð.

Í 7. gr. er lagt til að lögreglustjóri hafi eftirlit með þeim bifreiðasölum í hans umdæmi sem fengið hafa starfsleyfi. Skiptir hér engu hvort starfsstöðin er aðalstarfsstöð eða útibú frá aðalstarfsstöð sem staðsett er í öðru umdæmi. Sá sem veitir starfseminni forstöðu skal ætíð hafa starfsleyfi.

Jafnframt því er kveðið á um að lagt verði á starfandi bifreiðasala, eins og áður segir, sérstakt árlegt gjald til þess að standa straum af kostnaði við eftirlitið.

Virðulegi forseti. Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.