Sala notaðra ökutækja

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:39:36 (1088)

1996-11-12 18:39:36# 121. lþ. 21.18 fundur 148. mál: #A sala notaðra ökutækja# (leyfisbréf, eftirlit o.fl.) frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:39]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ræðan verður stutt. Ég ætla að lýsa yfir stuðningi við frv. Ég held að í því séu gerðar nauðsynlegar endurbætur. Það hefur verið leitað umsagnar þeirra aðila sem málið varðar. Það eru góð vinnubrögð þegar lög er búin að vera í gildi nokkurn tíma að sníða af þeim þá vankanta sem hafa komið fram og það er gert með frv. Það er mikilvægt að löggjöf um sölu á notuðum bifreiðum sé vel úr garði gerð. Þetta eru viðkvæm viðskipti og bæði með leyfisveitingu og eftirliti, eins og hér er kveðið á um, held ég að mál séu færð til betri vegar.

Það er tvennt, sérstaklega að svokallaðir tjónabílar, þ.e. sala vátryggingabifreiða og sala bifreiðaumboða á notuðum bílum, fellur undir þessi lög og ég tel vera mjög til bóta og eðlilegt út frá samhengi málsins. Ég velti hins vegar upp tveimur spurningum sem ég vil biðja hæstv. viðskrh. að tjá sig um, hvort ástæða væri til að láta þetta ná yfir þá aðila sem selja bifreiðar. Í 3. mgr. athugasemdar við 1. gr. segir að þau taki ekki til milliliðalausrar sölu á einstökum bifreiðum eða milligöngu um sölu einstakra bifreiða hjá stofnunum og fyrirtækjum. Það er talað um banka, eignarleigustarfsemi og vátryggingafélög. Vitaskuld er þetta ekki meginþáttur í starfseminni. Hins vegar má hugsa sér hvort ákvæðin ættu að gilda almennt um þessa aðila sem oft og tíðum selja nokkurt magn af bílum því í fyrri málsgrein er þetta látið taka yfir innkaupastofnanir sveitarfélaga og ríkis sem hafa það hlutverk að annast sölu notaðra bifreiða. Ég velti því upp hvort mönnum finnist að það ætti kannski að gilda almennt um þessa aðila sem stunda nokkur viðskipti með notaðar bifreiðar, alveg eins og gert er með sölu hjá vátryggingafélögum á tjónabílum og hjá bifreiðaumboðunum á notuðum bílum sem er reyndar orðinn umfangsmikill þáttur í starfsemi bifreiðaumboða. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra vildi aðeins tjá sig um það.

Seinna atriðið sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um er það gjald sem lagt er hér á, 5.000 kr., á hvert leyfi. Það kemur ekkert fram í frv. um hvernig þetta gjald er fundið, hvort þetta er skot út í loftið. Í umsögn fjmrn. segja þeir einfaldlega að samþykkt frv. hafi ekki önnur fjárhagsleg áhrif. Það getur verið viðkvæmt mál hvort lagt sé á eftirlitsgjald sem er umfram þann kostnað sem embætti ber, lögreglustjóraembætti í þessu tilviki. Ég er fylgjandi því að menn greiði fyrir kostnað við eftirlit en ég spyr hvort hér er byggt á nákvæmu mati. Er alveg víst að gjaldtakan sé ekki meiri en nemur kostnaði við eftirlitið? 5.000 kr. er að vísu ekki mikið en ég teldi rétt ef hæstv. ráðherra gæti tjáð sig nokkuð um þessa tölu þannig að við gætum verið þess fullviss að við værum ekki á neinum mörkum varðandi þá gjaldtöku sem væri eðlileg í tengslum við frv.