Sala notaðra ökutækja

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:43:07 (1089)

1996-11-12 18:43:07# 121. lþ. 21.18 fundur 148. mál: #A sala notaðra ökutækja# (leyfisbréf, eftirlit o.fl.) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:43]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er vert að velta því fyrir sér hvort lögin skuli taka til þessara milliliðalausu viðskipta þeirra fjármálastofnana sem hv. þm. nefndi. Ef sú ákvörðun hefði verið tekin hefði í sjálfu sér sú regla þurft að gilda líka almennt um sölu fyrirtækja á þeim atvinnubílum sem viðkomandi fyrirtæki ætti og hefði verið hluti af starfsemi þess. Sú leið var valin að láta í meginatriðum gilda um fyrirtæki og þær stofnanir sem nefndar voru sömu reglu og gildir þarna um milliliðalaus viðskipti milli einstaklinga. Ég tel fulla ástæðu til þess að nefndin skoði það sérstaklega og er síður en svo á móti því að það verði kannað og sérstaklega í hv. efh.- og viðskn.

Í öðru lagi spurði hv. þm. um gjaldið. Það skal viðurkennt að að baki því liggur ekki nákvæmur útreikningur. Ástæðan er sú að mjög erfitt er að gera sér grein fyrir því hver kostnaður embættanna er af þessu eftirliti. Gjaldið var fundið með þeim hætti að það var rætt, eins og ég reyndi að gera grein fyrir í framsögu minni, við marga aðila og þar á meðal bæði við sýslumenn og fulltrúa lögreglustjóraembættanna og reynt að áætla hver þessi kostnaður gæti verið. Það er alltaf viss hætta á að menn séu þá að leggja á hærra gjald og gjaldtakan sé því meiri en hinn raunverulegi kostnaður. En það var reynt að hafa þetta undir þeim áætlaða kostnaði sem að bestu manna yfirsýn, ef svo má orða í þessu tilfelli, gátu áætlað hver raunverulegur kostnaður yrði sem kemur þó ekki í ljós hver verður fyrr en eftir á. Komi það hins vegar í ljós að hann er meiri en gjaldið tel ég eðlilegt að gjaldið verði hækkað þegar á þetta reynir. En það gildir þá líka það sama ef það kemur í ljós að hann er minni. Þá er eðlilegt að gjaldið verði lækkað. En það er rétt að nákvæmir útreikningar liggja þar ekki að baki og því miður held ég að ekki sé hægt að fá þá nákvæmu útreikninga sem þyrftu að vera til staðar þegar svona gjald er lagt á.