Fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 18:54:55 (1091)

1996-11-12 18:54:55# 121. lþ. 21.21 fundur 44. mál: #A fjárfesting erlendra aðila í atvinnurekstri# (fiskiðnaður) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[18:54]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991, með síðari breytingum.

Á síðasta þingi var lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri breytt nokkuð. Annars vegar var verið að laga reglur um erlenda fjárfestingu að ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og hins vegar var heimiluð óbein erlend eignaraðild í sjávarútvegi, innan tiltekinna marka þó, bæði í fiskveiðum og fiskvinnslu.

Með því að opna á óbeina eignaraðild í sjávarútvegi var í raun tekin ákvörðun um að því fortakslausa banni sem þágildandi lög gerðu ráð fyrir yrði ekki fylgt eftir. Það var verið að viðurkenna eða aðlaga löggjöfina þeim veruleika sem við höfum búið við um skeið, þ.e. að erlend fyrirtæki eiga og hafa átt óbeint í ýmsum íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, einkum í gegnum olíufélögin. Enda kom það fram í greinargerð með stjórnarfrv. frá í fyrra að fortakslaust bann mundi leiða til þess að fyrirtækjum í sjávarútvegi yrði áfram gert erfiðara með að afla sér eigin fjár en öðrum fyrirtækjum í landinu.

Það liggur fyrir að óbein fjárfesting á móti möguleikum til beinnar fjárfestingar mismunar líka eins og bent var á í umræðunni um það frv. Lengra varð ekki gengið þá nema að eftir nokkurn þrýsting varð einnig aðeins hnikað þeirri flokkun hvað væri sjávarútvegur og hvað iðnaður og þar með hvaða greinar fiskvinnslu eða fiskiðnaðar væru háðar sérstökum takmörkunum á fjárfestingu erlendra aðila.

Það frv. sem ég mæli fyrir gerir hins vegar ráð fyrir því að um allan fiskiðnað gildi sömu reglur og almennt um annan iðnað hvað varðar fjárfestingar erlendra aðila. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á gildandi lögum hvað varðar útgerðarþáttinn.

Herra forseti. Með því að heimila einungis óbeina eignaraðild í fiskiðnaði voru engir nýjir möguleikar opnaðir. Með heimild til beinna fjárfestinga erlendra aðila í íslenskum fiskiðnaði, eins og í öðrum matvælaiðnaði, geta hins vegar skapast ýmsir nýir möguleikar og sóknarfæri fyrir fiskvinnsluna. Þekking erlendra aðila á Íslandi er lítil, hvort sem um er að ræða aðila í matvælaframleiðslu eða fjárfesta, en mestar líkur eru á að sú þekking tengist sjávarútvegi í einhverri mynd. Heimild til beinnar þátttöku í fiskiðnaði gæti því laðað að aðila sem síðar, eða jafnframt, vildu gerast þátttakendur á öðrum sviðum matvælaiðnaðar.

Nú háttar þannig til að erlendir aðilar geta keypt fisk á innlendum mörkuðum en mega ekki taka þátt í vinnslu hans nema að mjög takmörkuðu leyti. Breyting í þá veru að heimilt yrði að fjárfesta beint í fiskvinnslu þýddi því ekki útflutning hráefnis miðað við reynslu okkar heldur gæti sú skipan mála eflt frekari vinnslu hérlendis. Og ekki trúi ég við núverandi stöðu fiskvinnslu í landinu að menn slái hendinni á móti slíku.

Fjölmörg veigamikil rök eru fyrir því að gera þessa breytingu á lögunum:

1. Óeðlilegt er að mismuna fyrirtækjum í matvælaiðnaði eftir því í hvaða grein þau eru og fráleitt að mismuna fiskvinnslu eftir því hvaða geymsluaðferðum er beitt við meðhöndlun hráefnisins. En við erum, herra forseti, fyrst og fremst að tala um mismunandi geymsluaðferðir.

2. Mörg dæmi eru um fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum atvinnurekstri og slík eignaraðild hefur styrkt íslenskt atvinnulíf.

3. Lengi hefur verið stefna stjórnvalda að fá erlenda aðila til að fjárfesta meira í íslensku atvinnulífi. Það hefur helst gengið í stóriðju hingað til en hættulega lítið verið um fjárfestingar í öðrum greinum. Jafnframt má ætla að ný sóknarfæri kynnu að skapast fyrir aðra matvælaiðju sem mjög er nú sóst eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um.

4. Eignatengsl Íslendinga og útlendinga í fiskvinnslufyrirtækjum geta örvað markaðsstarf og leitt til nýsköpunar.

5. Fiskiðnaðurinn gæti sótt sér áhættufé og yrði þá ekki eins háður erlendu lánsfé.

6. Samstarf við erlenda aðila með þátttöku þeirra í uppbyggingu fiskiðnaðar á Íslandi færi fram fyrir opnum tjöldum og samkvæmt eðlilegum leikreglum.

7. Íslendingar hafa fjárfest mikið í sjávarútvegi erlendis. Sú þróun er býsna sterk að fyrirtæki verði til þvert á landamæri ef atvinnurekstur og þjóðfélag hefur hag af.

8. Heimild til beinna fjárfestinga og þátttöku í fiskiðnaði getur verið lykill að frekari fjárfestingum í öðrum greinum. Þá geta orðið til hliðarfyrirtæki vegna nýrra umsvifa.

9. Lagabreyting sem þessi mundi styrkja samkeppnisstöðu Íslands. En eins og menn þekkja er nefnd samkeppnisstaða mjög í sviðsljósi um þessar mundir og í umræðu.

[19:00]

Ekki er um það að ræða að verið sé að skylda aðila til að aðskilja veiðar og vinnslu þótt óbreytt lög mundu gilda um útgerðarþáttinn. Ætlunin er eingöngu að bjóða upp á þann valkost að ef fyrirtækin vilja efna til samstarfs við erlenda aðila um fiskvinnslu þá sé það heimilt og að ekki þurfi að fara kringum lögin svo sem dæmi eru um. Þau fyrirtæki sem reka útgerð mundu þá stofna sérstakt fyrirtæki um þann vinnsluþátt sem þau hyggjast efna til samstarfs um.

Við höfum á undanförnum árum afnumið hömlur fyrir erlenda fjárfesta hérlendis á flestum sviðum. Afnám sérstakra takmarkana í fiskvinnslu er eðlilegt framhald þeirrar stefnu.

Í núgildandi lögum eru eftirtaldar vinnsluaðferðir þegar undanþegnar sérstökum takmörkunum: reyking, súrsun, niðursuða, niðurlagning og umpökkun afurða í neytendaumbúðir eða frekari vinnsla afurða til að gera þær hæfari til dreifingar, neyslu eða matreiðslu. Ef frumvarp þetta yrði að lögum yrði jafnframt heimilt að erlendir aðilar fjárfestu í frystingu, söltun, herslu, bræðslu og mjölvinnslu.

Þar sem sumar vinnsluaðferðir eru nú þegar undanþegnar lögunum um fjárfestingu erlendra aðila en í öðrum má eignaraðild einungis vera óbein verður framkvæmd laganna bæði flókin og erfið. Aðilar beina jafnvel samstarfinu í allt annan farveg en æskilegt væri þar sem erfitt getur verið að skipta vinnslunni upp eftir einstökum þáttum eða geymsluaðferðum. Má ætla að löggjöfin sé þannig að verulegum vandkvæðum sé bundið oft á tíðum að vinna eftir henni.

Herra forseti. Frá því hefur verið greint í fjölmiðlum að fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu hafi fundið sér aðra farvegi en þá sem lögin beinlínis gerðu ráð fyrir. Þannig munu vera dæmi þess að erlendir aðilar láni fé til kaupa á fiskvinnsluhúsi og eigi jafnframt vélar og tæki. Reksturinn sé að vísu í nafni íslensks aðila en erlendi aðilinn ráði alfarið framleiðslu og sölu afurðanna enda til samstarfsins stofnað til að framleiða tiltekna vöru fyrir tiltekinn markað. Ekkert í þessu er beinlínis ölöglegt en hlýtur að verða til þess að við veltum því fyrir okkur til hvers er verið að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í fiskvinnslu eins og nú er gert þegar ekkert stöðvar þá sem til slíks samstarfs vilja stofna. Fyrirhöfnin við að búa til hinn nauðsynlega millilið ef um óbeina eignaraðild er að ræða tefur reyndar og svo er hin aðferðin, sem ég rakti áðan, þegar hinn erlendi aðili leggur til fjármagn og tæki svo tiltekið samstarf geti tekist um tiltekna vinnslu.

Það var rætt á síðasta þingi þegar breytingarnar voru gerðar á lögunum um erlendu eignaraðildina að aðalgallinn við að heimila einungis óbeina eignaraðild í sjávarútvegi væri sá að í raun væri ekki verið að leyfa neitt nýtt, að samþykkt slíkra laga gæfi ekki nein ný sóknarfæri. Við sjáum hins vegar af reynslunni að fjárfesting erlendra aðila finnur sér farveg ef grundvöllur er fyrir samstarfinu. Sá grundvöllur virðist víða vera fyrir hendi og við því þarf að bregðast.

Nú um stundir er lögð mikil áhersla á það af hálfu stjórnvalda að þeir landshlutar sem ekki fá erlendar fjárfestingar og þar með uppgang í gegnum uppbyggingu stóriðju verði skilgreindir sem matvælaiðjusvæði. Þar yrði matvælaiðja sú stóriðja sem íbúarnir ættu að vinna við og hafa sína lífsafkomu af. Það hefur t.d. verið lausnarorð iðnrh. bæði fyrir norðan og austan þar sem heimamenn hafa gengið eftir stefnu stjórnvalda varðandi erlenda stóriðjufjárfestingu.

Hæstv. ráðherra hlýtur að vera ljóst að sannarlega getur verið erfitt fyrir þá sem eru að vinna að aukinni fjárfestingu erlendra aðila í okkar matvælaiðnaði að geta ekki kynnt hugsanlegum áhugaaðilum annað en gildandi löggjöf sem eins og áður sagði er flókin og nánast óskiljanleg og þjónar fráleitt orðið öðrum tilgangi en þeim að tefja fyrir að erlent fjármagn komi sem eðlilegt hlutafé inn í þá stóriðju sem matvælaiðjan er víða um land, einkum og sér í lagi fiskiðnaðurinn.

Herra forseti. Það er ástæða til að rifja upp að á undanförnum árum hafa komið fram frv. á Alþingi sem gera ráð fyrir að erlendir aðilar hafi rýmri möguleika til fjárfestinga í fyrirtækjum í sjávarútvegi en núgildandi löggjöf gerir ráð fyrir. Það má þess vegna gera að því skóna að innan þess sé víðtækur áhugi á því að auka slíka fjárfestingu. Það er líka ástæða til að nefna að á ráðstefnu sem viðskrn. og fjmrn. efndu til í haust um bætta samkeppnisstöðu Íslands kom ítrekað fram að gefa þyrfti erlendum fjárfestum meira svigrúm hérlendis, m.a. í sjávarútvegi og vinnslu. Svo ég vitni beint í ræðu hæstv. fjmrh., með leyfi forseta:

,,Í stað þess að byggja eingöngu á erlendu lánsfé væri eðlilegt að leita eftir áhættufé frá erlendum fjárfestum sem í vissum tilvikum geta að auki lagt til tækni og markaðsþekkingu.``

Í ljósi stöðu þessara mála treysti ég því að hv. efh.- og viðskn. muni nýta það tækifæri sem gefst við umfjöllun þessa frv. og kanna ítarlega þróun erlendrar fjárfestingar í fiskvinnslu undir þeim lagaákvæðum sem við búum við núna og höfum búið við.

Mér finnst ástæða til hér í lokin að vitna aftur í ræðu hæstv. fjmrh. á nefndri ráðstefnu þar sem hann segir, með leyfi forseta:

,,Flestir viðurkenna nú að stjórnmálamenn búa ekki til störf.`` Mér fannst, herra forseti, ástæða til að nefna þetta fyrr í dag þegar hæstv. viðskrh. talaði um þau störf sem hann hafði skapað en á þessari ráðstefnu sem ráðuneyti hans stóð að segir hæstv. fjmrh. að flestir viðurkenni nú að stjórnmálamenn búi ekki til störf: ,,Hugmyndir um hlutverk stjórnmálamanna hafa breyst í því efni á skömmum tíma. Það eru fyrirtækin sem búa til störf en ekki stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn geta hins vegar skapað gott rekstrarumhverfi fyrir fyrirtækin.``

Ég álít, herra forseti, að það frv. sem ég mæli hér fyrir sé einkum til þess fallið að skapa gott rekstrarumhverfi fyrir fyrirtækin og er það tilgangur þessa frv. að skapa slíkt umhverfi.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til efh.- og viðskn.