Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:25:08 (1095)

1996-11-12 19:25:08# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:25]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst til að byrja með taka undir efni þessa frv. sem ég held að sé hið besta mál og ekki síst vegna þess að þarna er verið að einfalda hlutina. Það er verið að leggja til að sjálfræðisaldur og lögræðisaldur verði sá sami. Sú skipting sem nú er við lýði er engan vegin réttlætanleg að mínu mati, enda gerir hún málin að mörgu leyti flóknari eins og kom fram í ræðu framsögumanns.

Vegna orða hv. þm. Péturs Blöndals vil ég taka það fram og segja þá skoðun mína að sjálfræðissvipting er mjög alvarlegt mál. Mér finnst mjög alvarlegt ef menn eru á þeirri skoðun á hinu háa Alþingi að það eigi frekar að auðvelda sjálfræðissviptingu og beita henni nánast í refsiskyni þegar börn ekki hegða sér, eins og kannski má skilja af orðum sumra sem um þessi mál tala. Sjálfræðissvipting er eitthvað sem manneskjan burðast með alla sína ævi og verður ekki aftur tekin af þeirri manneskju þó að hún öðlist sjálfræði einhvern tíma seinna á ævinni. Að mínum dómi er því mun eðlilegra að gert sé eins og lagt er til í þessu frv., þ.e. að þetta tvennt sé látið falla saman og það sé þá í anda þess sem tíðkast annars staðar, að þetta sé einn og sami hluturinn. Nánast engin rök eru fyrir því að hafa þessa tvískiptingu eins og hún nú er. Öll rök mæla þvert á móti með því, eins og hv. frsm. sagði áðan, að þarna sé miðað við 18 ára aldur og menn öðlist þá það sem því fylgir að verða fullorðinn. Það gerist afskaplega lítið við 16 ára aldurinn annað en að menn verða sjálfráða eins og sagt er, en í því felst afskaplega lítið af því hlutverki sem fylgir því að verða fullorðinn.