Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:31:31 (1099)

1996-11-12 19:31:31# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:31]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst rökstuðningur hv. þm. mjög sérkennilegur en hann virðist bara horfa á eina hlið á málinu en ekki líta á þetta út frá heildinni. Það er margtekið fram í greinargerð og framsögðuræðu líka að verið er að hugsa um þetta fyrir hinn breiða hóp 16--18 ára. Það er verið að framlengja ábyrgð og skyldur foreldra, forráðamanna og samfélagsins alls en forráðamenn hafa forsjárskyldu til 18 ára aldurs. Og ég spyr hv. þm.: Hvað er öðruvísi hjá okkur heldur en hjá öðrum þjóðum?

Fram til 1968 var sjálfræðisaldurinn 21 ár hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en 1968 held ég að honum hafi verið breytt í 18 ár og er núna 18 ár og í flestum öðrum löndum einnig. Mjög mikið ósamræmi er í okkar löggjöf gagnvart börnum og unglingum. Til dæmis er ökuleyfisaldurinn 17 ár hjá okkur á meðan hann er hjá öðrum þjóðum yfirleitt 18 ár.

Þeir hópar sem hafa fjallað um þetta og fjalla almennt um málefni barna, ekki bara börn sem eru í vandamálum, t.d. Barnaheill, Landssamtökin Heimili og skóli, mæla eindregið með hækkun á sjálfræðisaldrinum og færa fyrir því mjög sterk rök. Ég hvet hv. þm. til að lesa nú rökin með því að hækka sjálfræðisaldurinn. Auðvitað er það fráleitt sem fram kom hjá hv. þm. síðast að hægt sé að fresta sjálfræðisaldrinum til 18 ára aldurs. Þetta er eitthvað sem er varanlegt. Hann getur ekki bara tekið ákvörðun um 16 ára aldurinn og frestað þessu hjá einhverjum ákveðnum hópi þannig að þetta er auðvitað fráleit tillaga sem þingmaðurinn kemur með.

Ég skora á hann að kynna sér rökin, líka hina hliðina á málinu sem hv. þm. hefur ekki gert. Hvernig stendur á því að allir hópar, og þeir eru margir, líka Samband ísl. sveitarfélaga, sem hafa fjallað um málefni barna mæla með hækkun sjálfræðisaldurs? Hvað er öðruvísi á Íslandi en hjá öðrum þjóðum sem hafa sjálfræðisaldurinn í 18 árum?