Lögræðislög

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:33:49 (1100)

1996-11-12 19:33:49# 121. lþ. 21.23 fundur 49. mál: #A lögræðislög# (sjálfræðisaldur) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Um að ekki sé hægt að fresta sjálfræðisveitingu þá getum við að sjálfsögðu sett þau ákvæði í lög að sjálfræðinu verði frestað. Við getum sett það í lög. Við getum breytt lögunum. Þetta er löggjafarsamkunda. Við getum breytt lögunum þannig að fresta megi sjálfræði fyrir ákveðna einstaklinga, ekki svipta þá heldur fresta því þannig að ekki yrði eins mikið átak fyrir menn að svipta þá sjálfræðinu.

En varðandi samanburð við útlönd sýnist mér samkvæmt upplýsingum hv. þm. að verið sé að lækka aldurinn erlendis væntanlega með þeim rökum að gera menn fyrr fullorðna og hvetja til meiri ábyrgðar. Það er nefnilega ákveðin ábyrgð sem fylgir því að verða fullorðinn og unglingurinn bíður í ofvæni eftir því að fá að nota þessa ábyrgð, vera ábyrgur fullorðinn maður og hluti af því að er að fá sjálfræði, geta valið sér búsetu, fá að ráðstafa sjálfsaflafé eins og felst í sjálfræðinu sem er heilmikið mál fyrir unglinga. Með því að vísa til útlanda, þá vil ég ekki líkja því saman hvað íslenskir unglingar eru miklu ábyrgari og sjálfstæðari en ég hef kynnst erlendis.