Aðbúnaður um borð í fiskiskipum

Þriðjudaginn 12. nóvember 1996, kl. 19:50:16 (1103)

1996-11-12 19:50:16# 121. lþ. 21.27 fundur 131. mál: #A aðbúnaður um borð í fiskiskipum# þál., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 21. fundur

[19:50]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 142 um aðbúnað um borð í fiskiskipum. Aðrir flm. eru hv. þm. Sigurður Hlöðvesson og Steingrímur J. Sigfússon. Tillagan er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd er hafi það hlutverk að gera úttekt á aðbúnaði og starfsumhverfi skipverja um borð í íslenskum fiskiskipum og gera tillögur til ríkisstjórnarinnar um úrbætur í þeim efnum. Í nefndinni eigi sæti átta fulltrúar skipaðir af Vinnueftirliti ríkisins, Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum úthafsútgerða, landlæknisembættinu og Félagi íslenskra heimilislækna.

Úttektin taki til allra fiskiskipa sem gerð eru út af íslenskum útgerðum og taki m.a. til eftirfarandi þátta:

1. öryggismála og alls aðbúnaðar í íbúðum og við störf um borð,

2. möguleika skipverja til líkamsræktar og tómstundaiðkunar með tilliti til þess tíma sem veiðiferðin tekur,

3. möguleika skipverja til að hafa samband við umheiminn, sérstaklega fjölskyldu sína,

4. lengd útiveru og hvenær slíkt sé í síðasta lagi ákveðið,

5. dvalartíma í landi milli veiðiferða og hvenær hann sé ákveðinn,

6. vaktafyrirkomulags og hvíldartíma.

Að lokinni úttekt skal nefndin gera tillögur um úrbætur á því sem betur má fara til ríkisstjórnarinnar. Skulu þær tillögur liggja fyrir skriflega eigi síðar en 1. júlí 1997 og leggi ríkisstjórnin þær fyrir Alþingi í upphafi þings haustið 1997.``

Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt um aðbúnað skipverja um borð í fiskiskipum sem gerð eru út af íslenskum útgerðum. Gagnrýni hefur komið fram og því verið haldið fram að aðbúnaðurinn standist í mörgum tilvikum ekki nútímakröfur. Einkum hefur umræðan snúist um svonefnd úthafsveiðiskip þ.e. þau skip sem eru vikum saman á fjarlægum fiskimiðum en þeir túrar geta verið allt að tveggja mánaða langir. Því hefur verið haldið fram að skipin sem send eru til úthafsveiða séu mörg hver illa búin til langrar útiveru hvað varðar aðbúnað skipverja. Vistarverur séu þröngar, aðstaða til tómstundaiðkunar fábrotin ef nokkur. Aðstaða til líkamsræktar ófullnægjandi og samband við umheiminn takmarkað hvort sem er við fjölskyldu eða við aðra þætti mannlífsins. Þá bætist það ofan á að útiverutími er óöruggur í mörgum tilvikum og dvalartími í landi sömuleiðis en allir þessir þættir hafa að sjálfsögðu áhrif á andlega sem og líkamlega líðan skipverja. Rétt er þó að taka fram að nýjustu skip flotans eru flest hönnuð með það í huga að gera lífið um borð sem eðlilegast eftir því sem hægt er en aðstaðan er mjög mismunandi eftir skipum. Þess vegna er í tillögu þessari lagt til að úttekt verði gerð á þessum málum og tillögur lagðar fram til úrbóta.

Það er hreinlega lyginni líkast að heyra um svo slakan aðbúnað eins og dæmi hafa verið nefnd um hjá íslensku launafólki á ofanverðri 20. öldinni og verður að taka þessa gagnrýni til alvarlegrar skoðunar. Í umfjöllun í Vinnunni, tímariti ASÍ, 8. tbl. 1996, er fjallað um málefni úthafsveiðisjómanna og haft er eftir ungum sjómanni, sem hefur verið við veiðar á fjarlægum miðum í fjögur ár, að líðanin hafi verið skelfileg og þeir sem aldrei hafa verið á sjó við þessar aðstæður geti líklega aldrei skilið þessa líðan. Hann segir m.a., með leyfi forseta: ,,Á allra nýjustu skipunum eru sána, ljósabekkir og líkamsræktartæki en það er ekki þannig hjá okkur. Við getum haft samband við land en bara í gegnum loftskeytastöð sem allir geta hlustað á þannig að maður getur aldrei verið út af fyrir sig, á ekkert einkalíf. Fréttir eru líka lengi að berast. Stundum berast fréttir ekkert. Skipstjórinn heyrir kannski eitthvað í gegnum stöðina en svo segir hann manni þetta kannski nokkrum dögum seinna ef maður spyr. Maður er langt á eftir öllu, á allt annarri bylgjulengd þegar maður kemur í land. Maður nær ekki að gera neitt, reynir að fara út að skemmta sér, finnst maður eiga skilið að djamma en hugsar bara um næstu ferð. Líðanin er samt miklu betri í hléunum. Það er rosalega gott að koma í land.``

Í sama tölublaði Vinnunnar er viðtal við Guðrúnu Guðmundsdóttur lækni en hún hefur starfað sem heimilislæknir í tveimur bæjum sem hafa gert út skip í Smuguna. Hún segist reglulega hafa fengið menn af Smuguskipum til sín og þar hafi oftast verið um að ræða unga, fullfríska menn sem sáu ekki fram á að geta lifað eðlilegu lífi eftir langan tíma í einangrun. Þeir þjást oft af mikilli vanlíðan, geta ekki haft samband við sína nánustu. Finnst þeir hafa misst tengslin við vini og fjölskyldur og vantar samfellu í það sem er að gerast. Þeim finnist þeir vera eins og áhorfendur en ekki þátttakendur í lífi fjölskyldunnar og eigin lífi. Guðrún segir einkennin vera þau sömu yfirleitt, að upphafið sé að menn verði framtaksminni og hafi sig ekki í að lesa eða hafa ofan af fyrir sér. Þessi andlega deyfð verði síðan að líkamlegum pirringi, menn ná ekki að sofna, finnst vera mikil ólga inn í sér og þeim líður eins og þeir séu fullir umframorku sem þeir geta ekki losnað við. Guðrún segi ástæðuna vera þá að enga örvun sé að fá og lífið um borð sé allt of einhæft til þess að menn geti langtímum saman þrifist í slíku umhverfi. Þá segir hún það vera mikið vandamál hversu stuttur tími gefist oft á milli túra til þess að jafna sig. Menn hafi þrjá til fjóra daga til þess að ná áttum og ná tengslum við fjölskylduna sem sé allt of stuttur tími. Alvarlegasta stig þunglyndis segir Guðrún koma fram í gífurlegri vanlíðan og þá geti farið á ýmsa vegu.

Í umfjöllun Vinnunnar segir einnig að reglur séu til um lágmarksaðbúnað hjá Siglingamálastofnun er kveði á um lágmarksstærð mannaíbúða og aðstöðu til matar og þrifa. Engar reglur séu til um lágmarksafþreyingu eða aðstöðu til líkamsræktar sem verður þó að teljast jafnmikilvægur aðbúnaður við þær aðstæður sem að ofan er lýst og starfsaðstaðan sjálf eða vistarverurnar sem slíkar.

Því hefur ekki verið mótmælt að aðbúnaðurinn sé í mörgum tilvikum slæmur, a.m.k. mjög misjafn um borð í íslenska fiskiskipaflotanum. Þess vegna er lagt til að reglu verði komið á þessi mál með ítarlegri úttekt og þar verði hinir ýmsu fletir málsins kirfilega kannaðir. Lagt er til að nefnd verði skipuð til að vinna að þessum málum en í henni eigi sæti fulltrúar frá Vinnueftirlitinu, Samtökum sjómanna og útgerðarmanna, fulltrúa frá landlæknisembættinu og Félagi íslenskra heimilislækna. Æskilegt væri að fulltrúarnir sem skipaðir væru af landlækni og jafnvel líka sá sem væri skipaður af Félagi íslenskra heimilislækna væru einstaklingar sem hefðu þekkingu og reynslu af vinnu með sjómönnum og/eða fjölskyldum þeirra. Reyndar gæti allt eins komið til að þeir einstaklingar væru sálfræðimenntaðir alveg eins og læknar þar sem að ég veit til þess að sálfræðingar hafa sérhæft sig á þessu sviði, m.a. með námskeiðum fyrir sjómenn og fyrir fjölskyldur þeirra. Eftir því sem ég best veit þá hafa þau námskeið reynst vel og hefur verið mikil eftirspurn eftir þeim.

Þessi skipan nefndarinnar ítrekar þá áherslu að hér sé ekki aðeins um vinnumarkaðsmál að ræða eða um kjaramál heldur allt eins um heilbrigðismál og þess vegna er mjög mikilvægt að að því komi fagaðilar úr þeim geira.

Eftir að þessi tillaga var lögð fram í þinginu eða dagana 6.--8. nóvember var haldið 20. þing Sjómannasambands Íslands og þar var aðbúnaður um borð í úthafsveiðiskipum m.a. tekinn til umfjöllunar. Í ályktun þingsins um þessi mál segir m.a., með leyfi forseta:

,,20. þing Sjómannasambands Íslands bendir á að á undanförnum árum hafa veiðar Íslendinga sífellt farið vaxandi á fjarlægum miðum. Sem dæmi má nefna veiðar í Smugunni, í Barentshafi og á Flæmska hattinum. Fjöldi skipa, sem þessar veiðar stunda, er alls ekki búinn til langra útivista með tilliti til aðbúnaðar áhafnar. Sérstaklega á þetta við um minni og eldri skipin. Klefar eru litlir og sameiginleg rými mjög af skornum skammti. Af þessu leiðir m.a. að ekkert pláss er fyrir þá frístundaaðstöðu sem þykir eðlileg og sjálfsögð í nýjum skipum. Það er krafa 20. þings Sjómannasambands Íslands að samgönguráðherra láti nú þegar fara fram endurskoðun á reglugerð nr. 185/1995 um vistarverur, öryggi og aðbúnað í vinnu- og vinnslurými fiskiskipa til að tryggja sjómönnum sem þessar veiðar stunda mannsæmandi aðstöðu um borð.``

Síðar segir í annarri ályktun sem samþykkt var á sama þingi:

,,20. þing Sjómannasambands Íslands skorar á félagsmálaráðherra að láta nú þegar fara fram könnun á því hvaða áhrif löng útivist skipa hefur á sálarlíf þeirra sjómanna sem stunda veiðar utan lögsögu Íslands, andlegt og líkamlegt þrek þeirra og fjölskyldna þeirra. Þingið telur mikla nauðsyn að þessi athugun fari fram strax þar sem þessi útrás íslenskra útgerða fer mjög vaxandi.

20. þing Sjómannasambands Íslands ítrekar fyrri ályktanir til Ríkisútvarpsins og Pósts og síma um nauðsyn þess að stórbæta útvarpssendingar og símaþjónustu við sjómenn á miðunum umhverfis landið og á fjarlægum veiðislóðum.``

Af þessu má sjá að Sjómannasamband Íslands ræddi málin á sínu þingi á mjög svipuðum nótum og lagt er til að gert verði í þessari tillögu. Það eru greinilega þau sömu mál sem þar er mest áhersla lögð á að tekið verði á og það er líka ítrekað að á þessum málum verði tekið hið allra fyrsta því eins og við vitum eru þessar löngu útiverur á úthöfunum tiltölulega nýtilkomið fyrirbrigði á þann hátt sem nú hefur verið á síðasta ári og mjög brýnt að á þeim málum sé tekið sem allra fyrst.

[20:00]

Í tillögunni sem hér liggur fyrir er lagt til að ríkisstjórninni verði í sameiningu falið að gera úttektina. Það kemur fyrst og fremst til af því að málið er af margvíslegum toga og ekki einhlítt eða ekki sjálfsagt að einum sérstökum fagráðherra verði falin framkvæmd tillögunnar. Þannig má t.d. segja að öryggismál sjómanna falli undir samgn. þingsins en einnig mætti segja að efnið ætti heima undir sjútvn. og í raun og veru líka félmn. Enn mætti halda því fram að þetta málefni gæti fallið undir heilbr.- og trn. Tillagan tekur á málaflokkum sem snerta allar þessar nefndir þar sem félmn. fer með öryggis- og aðbúnaðarmál almennt og t.d. málefni Vinnueftirlits ríkisins. Þetta tengist sjútvn. óneitanlega og heilbrigðisnefnd að einhverju leyti.

Ég legg til að máli þessu verði vísað til hv. samgn. þar sem hún hefur með öryggismál sjómanna að gera og þar sem hún hefur til umfjöllunar ef breytingar eru lagðar fram á sjómannalögum en óska þó eftir því að hinum þremur nefndunum, þ.e. sjútvn., félmn. og heilbr.- og trn., verði falið að gefa umsögn um málið þar sem það snertir óneitanlega verksvið þeirra.