Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:34:58 (1111)

1996-11-13 13:34:58# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:34]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég verð að segja til að byrja með að ég er mjög undrandi á málflutningi hv. þm. og átta mig ekki alveg á því út frá hvaða sjónarmiðum hann talar. (Gripið fram í: Sjálfstæðisstefnunni.) Það er svo að ég er yfirmaður Pósts og síma og mér ber sem slíkum að standa vörð um íslensku póst- og símaþjónustuna með sama hætti og ég hygg að ráðherra símamála í Þýskalandi eða ráðherra símamála í Noregi telji sína skyldu að standa vörð um þeirra símaþjónustu. Og væri fróðlegt, út frá ummælum hv. þm. að fá skoðun hans á því hvernig á því stendur að Deutsche Telecom, sem er að öllu leyti í eigu ríkisins, skuli vera dyggilega stutt af þeirri ríkisstjórn sem situr í Þýskalandi og það hafi búið sig undir það að geta selt hlutabréf á frjálsum markaði. Hið sama er raunar að segja í Noregi. Það hlutafélag er að öllu leyti í eigu norska ríkisins. Í því fyrirtæki var hlutafé aukið nú á dögunum og það var ríkið sjálft sem jók hlutafé sitt í símaþjónustunni. Ég hygg því að það sé alveg ljóst að Evrópuríkin eru hvert á fætur öðru að búa sig undir það að færa þjónustuna út á markaðinn og menn hafa sett sér 1. janúar 1998 til að gera það.

Þegar við á hinn bóginn erum að tala svo um internet, ég heyri að hv. þm. er vel að sér í interneti, þá liggur það fyrir í Bandaríkjunum, óskalandi einkakapítalismans, að bandaríska póstþjónustan, sem er ríkisrekin, er að búa sig undir það að taka upp internet-þjónustu vegna þess að það er forsenda fyrir pappírslausum viðskiptum að slíkur aðili geti komið bréfum til skila þannig að bæði sendandi og viðtakandi geti treyst því að rétt sé með farið og mun póstþjónustan bandaríska gera hvort tveggja í senn að dagsetja og stimpla bréfin. Þetta er sú þjónusta sem verið er að taka upp annars staðar og menn eru að búa sig undir líka í Evrópu. Ef menn eru að velta því fyrir sér hvort menn vilji vöxt og viðgang símastofnana þá er líka best að gera sér grein fyrir því að því er spáð að innan 15 ára muni 50% af viðskiptum fyrirtækja eins og símans vera í gegnum internetið. Væri fróðlegt að fá upplýsingar hjá hv. þm., sem ber líka íslenskt atvinnulíf og íslenskt verkfólk fyrir brjósti, hvernig hann hugsi sér að þrepa niður rekstur símans ef hann má ekki koma að þessum rekstri sem er hreinn fjarskiptarekstur og er líka kominn inn á póstþjónustuna því internet-þjónustan er að skilningi Bandaríkjamanna, einkakapítalistanna, ekki annað en framhald af venjulegri póstþjónustu. Internet-bréfin eru að taka við af venjulegum bréfum.

Spurt er: Hvernig var staðið að ákvörðun um það þegar Póst- og símamálastofnun hóf að selja almenningi aðgang að innhringiþjónustu fyrir internet á liðnu sumri?

Þetta hefur margoft komið fram hjá mér. Það var gert með því að aðskilja fullkomlega einkaréttarsvið og markaðssvið Pósts og síma og með því jafnframt að stuðla að því að stofnuninni yrði breytt í hlutafélag sem verður 1. janúar næstkomandi. Og ég hélt að það væri stefna Sjálfstfl. en mér heyrðist að hv. þm. telji að ég sé ekki velkominn í þeim flokki.

Í öðru lagi er spurt: Er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að Póst- og símamálastofnun hefur að undanförnu aukið umsvif sín í samkeppnisrekstri á ýmsum sviðum?

Póstur og sími hefur haldið áfram sínum rekstri með eðlilegum hætti, --- og ég vil stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar --- farið að íslenskum lögum og mun gera það áfram.

Í þriðja lagi er spurt: Mun ráðherra, sem handhafi hlutabréfa ríkisins í Pósti og síma hf., beita sér fyrir eða styðja frekari útþenslu fyrirtækisins í samkeppnisrekstri þegar hlutafélagið hefur tekið til starfa 1. janúar næstkomandi?

Útþensla er einhvern veginn neikvætt orð í þessu --- útþenslustefna. Ég fór að velta fyrir mér t.d. hver væri útþenslustefna Lífstykkjabúðarinnar. Það sem maður er að tala um hér er hvort ég vilji stuðla að því að Póstur og sími haldi áfram að vaxa og dafna, og svarið er já.

Í fjórða lagi er spurt: Telur ráðherra að ríkið eða ríkisfyrirtæki ættu að beita sér fyrir samkeppnisrekstri á fleiri sviðum?

Ég hef verið talsmaður þess að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag en hv. þm. hefur ekki flutt tillögu um það heldur um önnur efni. (Gripið fram í.) Því miður hefur þm. ekki gert það og ég tek undir með honum að hann hefði betur staðið heill að því.

Í fimmta lagi er spurt: Er uppsetningu hnitpunkta á landsbyggðinni vegna innhringiþjónustu fyrir internet lokið?

Þeirri uppsetningu lauk um miðjan síðasta mánuð.