Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:42:01 (1114)

1996-11-13 13:42:01# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:42]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur haldið því fram að það hafi ekki verið fyrirtæki á markaðnum til að annast þessa þjónustu og þess vegna hefði Póstur og sími þurft að koma að. Ég fullyrði að þetta sé rangt. Það hefði verið athyglisvert í þessari umræðu að heyra sjónarmið hæstv. menntmrh. sem er notandi á internetinu og þekkir þessi mál og skiptir reyndar við annað fyrirtæki en Póst og síma. Ég held nefnilega að hér sé á ferðinni kerfisvörn samgrh. Það er stór aðili sem er næstum því einkaaðili, var einkaaðili, fákeppnisaðili, sem er að kreppa að smærri fyrirtækjum sem eru núna að koma inn á markaðinn á nýju sviði. Mér finnst þetta vera vond stefna. Það getur vel verið að þetta sé stefna Sjálfstfl. Ég kýs að líta svo á að ráðherra fari með stefnu Sjálfstfl. en e.t.v. er þetta eitt mál því málshefjandi, sem ég þakka fyrir að hefja þessa umræðu, er einnig sjálfstæðismaður. E.t.v. er þetta dæmi um málaflokk sem menn hefðu átt að ræða á landsfundi Sjálfstfl. en svo getur líka verið að það hafi verið bannað að ræða þetta mál þar eins og önnur mál á þeim vettvangi.