Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:44:17 (1116)

1996-11-13 13:44:17# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EKG
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:44]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Það sem einkennir fyrst og fremst fjarskiptamarkaðinn um þessar mundir er að skil milli fjarskiptaþjónustu, símaþjónustu og jafnvel fjölmiðlunar eru orðin mjög óljós. Þess vegna hefur þróunin alls staðar úti um hinn vestræna heim orðið sú að fyrirtæki sem hingað til skilgreindu sig t.d. sem þröngt símafyrirtæki eða þröngt fjölmiðlunarfyrirtæki eru núna farin að starfa inni á sviði hvers annars. Og við skulum ekki láta okkur detta það í hug eitt andartak að tækniþróunin hér á landi leiði til nokkurs annars en hún hefur leitt í öðrum löndum í kringum okkur. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að Póstur og sími taki þátt í nýrri starfsemi eins og internet-þjónustu en þá þarf hann auðvitað að fylgja öllum almennum leikreglum. Það er stóra málið. Og það væri óeðlilegt að Póstur og sími notaði sitt mikla afl sem hann að hluta til nýtur vegna einokunaraðstöðu sinnar til þess að greiða þetta niður og bola þannig fyrirtækjum út af markaðinum. En ekki eitt andartak skulum við ímynda okkur það að fyrirtæki á borð við Póst og síma geti leitt hjá sér stóran hluta af eðlilegri þjónustu á sviði fjarskiptamála og við skulum ekki gleyma því að innan skamms munum við mæta vaxandi samkeppni utan lands frá og hún verður líka á internet-sviðinu.