Samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 13:45:43 (1117)

1996-11-13 13:45:43# 121. lþ. 22.1 fundur 136. mál: #A samkeppnisstarfsemi á vegum Póst- og símamálastofnunar# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi VK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[13:45]

Fyrirspyrjandi (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel að það hafi komið fram í henni hvar hinir andstæðu pólar liggja. Það er einmitt svo farið að hæstv. samgrh. styður að sjálfsögðu þá stofnun sem undir hann heyrir og er ekki óeðlilegt að hann vilji sjá vöxt og viðgang hennar sem mestan. Og ég undrast það ekki að starfsbræður hans í Evrópu styðji einnig þær stofnanir sem undir þá heyra.

En ég geri athugasemd við það að ég tel að Póstur og sími sé þarna að hasla sér völl á nýjum vettvangi sem hann hefur ekki starfað á áður. Hann hefur verið að reka dreifikerfið, hann hefur verið að reka ljósleiðarasambandið um allt land og ljósleiðarasambandið til útlanda og þar á hann að starfa og byggja sig upp sem öflugur aðili en ekki að ákveða það að stíga skrefið lengra og ná þar með að keppa við einkafyrirtæki sem eru búin við illan kost að byggja sig upp um nokkurra ára skeið. Nú fyrst eru þau að sjá fram á að eitthvað fari að skila sér af þessum tilkostnaði sem í hefur verið lagt og þá allt í einu birtist Póstur og sími og segir: Við ætlum að taka þetta yfir. Það er það sem ég tel vera rangt. Ég tel ekki óeðlilegt að Póstur og sími vaxi og dafni og verði sterkur í samkeppni við erlend fyrirtæki um rekstur á sínum dreifikerfum. Það er eðlilegt.

Hæstv. samgrh. minntist á pappírslaus viðskipti og að í Mekka einstaklingsframtaksins, Bandaríkjunum, væru fyrirtæki að fara inn á það svið og það er einmitt það sem er að gerast að verið er að leggja áherslu á dreifikerfin eins og í Bandaríkjunum, að byggja upp öflug dreifikerfi fyrir þessa þjónustu en ekki með þeim hætti að fara inn á samkeppnismarkað, það er ekki að gerast.

Hæstv. ráðherra beindi því til mín að mér væri nær að flytja tillögu um að breyta RÚV í hlutafélag. Það vill nú þannig til að þáltill. frá mér varðandi Ríkisútvarpið bíður umfjöllunar og ég vonast eftir stuðningi hans við það mál.