Lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:00:29 (1122)

1996-11-13 14:00:29# 121. lþ. 22.2 fundur 137. mál: #A lágmarksrefsing við alvarlegum líkamsárásum# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi VK
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Viktor B. Kjartansson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann veitti hér og fagna því sérstaklega að hann tekur undir þau sjónarmið að það sé orðið tímabært að lágmarksrefsingar séu innleiddar inn í þennan kafla hegningarlaganna. Ég fagna því einnig að í bígerð sé að koma á laggirnar nefnd sem hefur í stöðugri endurskoðun hegningarlög og getur því gripið inn í þegar nauðsynlegt er talið.

Það kom hér fram hvort ekki væri heillavænlegra að fara aðrar leiðir varðandi refsingar heldur en fangelsisvist. En það sem ég tel grundvallaratriði í þessu máli er það að verið er að senda út röng skilaboð út í þjóðfélagið með þeim lögum sem nú eru í gildi eða þeim dómum sem falla þegar alvarlegar líkamsárásir fá ekki sambærilega meðferð og önnur ofbeldisverk. Þegar svona röng skilaboð berast út í þjóðfélagið, þá er kannski ekki að undra að við sjáum ekki fækkun á þessum ofbeldisverkum. Því tel ég að þetta sé mjög brýnt mál og vonast eftir því að fljótlega verði tekið á málinu eins og reyndar kom fram hjá hæstv. dómsmrh.