Möguleikar ungmenna til framhaldsnáms

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:19:57 (1131)

1996-11-13 14:19:57# 121. lþ. 22.4 fundur 140. mál: #A möguleikar ungmenna til framhaldsnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÓI
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Ólafía Ingólfsdóttir):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. menntmrh. hljóðar svo:

1. Hefur ráðuneytið látið kanna hvaða áhrif aukakostnaður vegna búsetu hefur á möguleika ungmenna á landsbyggðinni til að stunda framhaldsnám?

2. Hefur ráðherra hugsað sér að gera tillögur um aðgerðir til þess að jafna möguleika ungmenna til framhaldsnáms?

Það er mikill aukakostnaður samfara því hjá fjölskyldum á landsbyggðinni að senda börn sín eða ungmenni í framhaldsnám, sérstaklega þar sem framhaldsskólar eru ekki staðsettir í byggðarlaginu. Dæmi eru um að fjölskyldur hafi ekki haft efni á því að reka tvö heimili, þ.e. ef ungmenni þeirra hafa farið til Reykjavíkur í nám, þá hefði þurft að reka heimili í Reykjavík fyrir börnin og síðan á heimaslóðunum. Þetta fólk hefur oft og tíðum brugðið á það ráð að flytja hreinlega af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið þar sem flestir framhaldsskólarnir eru.

Ég veit dæmi um það að mikill námsmaður í afskekktu byggðarlagi las 9. og 10. bekk grunnskóla heima. Síðan tók hann próf og fékk 9 og 10 í einkunn á þeim prófum. Foreldrar þessa námsmanns hafa ekki efni á að senda hann í framhaldsskóla. Hann er kominn út á vinnumarkaðinn til að safna sér fyrir skólagöngu sem náttúrlega getur tekið einhver ár.

Ég óttast að svona sögur geti fleiri landsbyggðarmenn flutt okkur og hafa heyrt. Heildarútgjöld við að senda ungmenni í heimavistarskóla eru talin vera 500--800 þús. sem er heimavistarkostnaður, bókakostnaður og önnur þau gjöld sem framhaldsskólanemar inna af hendi. Þessi ungmenni búa alls ekki við jafnrétti til náms.