Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:43:36 (1143)

1996-11-13 14:43:36# 121. lþ. 23.95 fundur 82#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil ítreka gagnrýni mína og taka undir með hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur. Þetta eru auðvitað tengd mál, bæði það sem varðar fátæktina og þessar skerðingar sem eru í kjölfar bandorms frá því fyrir ári, ráðstafanir í ríkisfjármálum sem ég er hér að gera að umtalsefni og spurði hæstv. ráðherra um. Það er lágmark að gefin séu viðhlítandi svör. Það hefði í raun ekki átt að þurfa almennann þingmann til að spyrja um þessar upplýsingar því auðvitað hefði hæstv. ráðherra átt að kynna sér það hverjir verða fyrir þessum niðurskurði, hverjir lenda illa í þessum ráðstöfunum, hjá hverjum verið er að skerða hér, af hverjum verið er að taka umönnunaruppbót og af hverjum verið er að taka uppbót vegna lyfjakostnaðar. Það þýðir ekki að svara bara út í hött og kynna sér ekki málin. Auðvitað verða menn að láta vinna þessa upplýsingavinnu í sínum ráðuneytum. Ég fer fram á það hér formlega, herra forseti, að það komi viðbótarsvar frá hæstv. heilbrrh. þar sem þær upplýsingar koma fram sem verið er að biðja um hér.

Ég hef fengið upplýsingar um það að lífeyrisþegar sem hafa fengið uppbótina skerta eða jafnvel fellda niður búa við sárustu fátækt. Þeir hafa kannski 10--15 þús. kr. til að lifa af yfir mánuðinn þegar búið er að greiða húsaleigu og annan fastan kostnað. Það er lágmark að hæstv. ráðherra kynni sér hvar þessar skerðingar lenda og hvaða afleiðingar þessar lagabreytingar, sem menn hafa verið að beita sér fyrir og meiri hluti þingsins samþykkti um síðustu áramót við afgreiðslu fjárlaga, hafa og á hverjum þessar ráðstafanir lenda.

(Forseti (ÓE): Hæstv. ráðherrar munu vafalaust kynna sér þessa umræðu.)