Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 14:52:05 (1144)

1996-11-13 14:52:05# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[14:52]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Með frumvarpi því sem ég mæli hér fyrir er lagt til að sérstök stofnun, Póst- og fjarskiptastofnun taki að sér almennt eftirlits- og stjórnsýsluhlutverk á sviði fjarskipta og póstmála. Þessi verkefni hafa til þessa verið hjá samgönguráðuneyti, Póst- og símamálastofnun og Fjarskiptaeftirliti ríkisins.

Með afnámi einkaréttar og aukinni samkeppni á sviði fjarskipta og þeirri breytingu sem fyrirhuguð er á sviði póstmála er nauðsynlegt að fela sérstökum aðila stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk á þessu sviði. Rökin fyrir því eru meðal annars þessi:

Eftir formbreytingu Póst- og símamálastofnunar og stofnun hlutafélags leiðir það af sjálfu sér að sú stjórnsýslustarfsemi sem þar var hverfur þaðan. Þar sem samgönguráðherra fer alfarið með eignaraðild ríkisins í Pósti og síma hf. er stofnuninni falið að annast umsjón með framkvæmd póst- og símamála og er ekki gert ráð fyrir að ráðuneytið hafi afskipti af afgreiðslu einstakra mála.

Þessi skipan mála er í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem mikil áhersla er lögð á að sjálfstæð stofnun fari með stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk á sviði fjarskipta og póstmála.

Í 8. gr. frumvarpsins er ákvæði um sérstaka þriggja manna úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála. Til þeirrar nefndar geta aðilar skotið ákvörðunum og úrskurðum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þeim verður með öðrum orðum ekki skotið til ráðuneytisins og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi.

Helstu verkefni stofnunarinnar verða að veita leyfi til fjarskipta og póstþjónustu og hafa eftirlit með því að leyfishafar fullnægi skilyrðum slíkra leyfa; að vera ráðgefandi fyrir stjórnvöld á sviði fjarskipta- og póstmála og að hafa umsjón og eftirlit með alþjónustu og samtengingu fjarskiptaneta og fjarskiptabúnaði.

Gert er ráð fyrir að rekstur stofnunarinnar verði að mestu eða öllu leyti fjármagnaður af leyfishöfum. Tekjur stofnunarinnar verða gjald fyrir útgáfu leyfisbréfa og skráningu póstrekenda, rekstrargjald sem verður ákveðið hlutfall af veltu leyfishafa og gjald vegna þjónustu sem Fjarskiptaeftirlit ríkisins veitir nú.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.