Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:04:38 (1146)

1996-11-13 15:04:38# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., RA
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:04]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir 13. dagskrármálinu um Póst- og fjarskiptastofnun en það frv. er nátengt 14. og 15. dagskrármáli um póstþjónustu og fjarskipti. Frá sjónarmiði hæstv. ríkisstjórnar verður að viðurkenna að þessi frumvarpsflutningur og væntanleg lagasetning er í sjálfu sér í rökréttu framhaldi af því sem samþykkt var að tillögu hæstv. ríkisstjórnar á liðnu vori í fjarskiptamálum. Á hitt er rétt að minna að þau skref sem þá voru stigin voru umdeild hér í þinginu og á það bent að óþarflega langt væri gengið á þessu sviði. Það var t.d. mjög umdeilt hér á síðasta vori hvort rétt væri að breyta Póst- og símamálastofnuninni í hlutafélag. Á það var bent að reynsla frá nálægum löndum sýndi að slík breyting hefði ekki endilega í för með sér ódýrari þjónustu fyrir neytendur heldur jafnvel hið gagnstæða, að þjónustan yrði dýrari. Sérfræðingar Pósts og síma bentu hv. samgn. á það með greinargóðum upplýsingum sem þeir létu í té að t.d. væri reynslan frá Bretlandi einmitt á þann veg að þjónustan hefði orðið dýrari og slík breyting sem hér væri fyrirhuguð hefði ekki endilega mikla kostnaðarlækkun í för með sér fyrir neytendur. Einnig var á það bent að staða starfsfólks Pósts og síma yrði mjög í vindinum eftir að þessi breyting hefði verið gerð. Um er að ræða verulegan réttindamissi á vissum sviðum og réttindaskerðingar sem þó voru uppi áform um að reyna að bæta. Ég hef upplýsingar um það að starfsfólk Pósts og síma telur að enn vanti nokkuð á að það geti unað sátt við þá breytingu sem er að verða og í morgun komu fram upplýsingar í hv. samgn. um það efni sem eðlilegt væri að rifja hér upp og verður væntanlega gert af einhverjum þeim sem fundinn sátu. Ég átti þess ekki kost að sitja þann fund en mér er kunnugt um það að fram voru bornar verulegar umkvartanir um að það starf sem unnið væri á vegum starfsmannafélaga og ríkisins væri ekki í þeim farvegi sem æskilegt væri.

Nú ég vil leggja á það áherslu að endingu að aðstæður í litlu ríki eins og á Íslandi eru auðvitað allt aðrar en í stórum ríkjum þar sem eru starfandi stór og voldug sjálfstæð símafélög sem hugsanlega geta tekið upp samkeppni við fyrrverandi ríkisfyrirtæki. Í litlum fámennum ríkjum eru aðstæður allar og staðhættir töluvert öðruvísi og þar af leiðandi er ekki eins mikil þörf á því að gefa þar fjarskipti frjáls eins og kannski kann að vera í stærri ríkjum. Á þessu er nokkur munur og það sem verra er að kostnaðurinn við þessa breytingu verður hlutfallslega miklu þyngri í litlu ríki heldur en stóru. Það kemur fram í því frv. sem hér er til umræðu að kostnaður muni nema tæplega 90 millj. kr. á hverju ári. Þó er þetta bara hrein skriffinnskustofnun sem ekki mun skapa nein verðmæti af neinu tagi. Ég held að mörgum muni þykja að þessu fjármagni væri betur varið til annarra þarfra hluta í okkar þjóðfélagi heldur en að bæta nýrri stofnun við sem þarf að eyða svo miklu af almannafé. Ég held sem sagt að margvíslegar spurningar hljóti að vakna í tengslum við þau frv. sem hér er verið að flytja og þá þróun sem hér er gerð tillaga um að stuðlað verði að og að eðlilegt sé að málið sé rækilega skoðað í nefnd frá öllum hliðum áður en afstaða til þess er tekin. Ég vænti þess að í hv. samgn. gefist góður tími og aðstaða til þess að kanna málið frá öllum hliðum.