Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:11:09 (1147)

1996-11-13 15:11:09# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:11]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Þetta frv. sem hæstv. samgrh. hefur mælt fyrir er, eins og kom fram í máli hans, í rökréttu framhaldi af þeim skuldbindingum sem við höfum gengist undir með því að gerast aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og í rökréttu framhaldi af lagabreytingum sem voru gerðar á þinginu í vor. Ég rak augun í það þegar ég fór í gegnum frv. að það hafa orðið ákveðin sinnaskipti hjá ríkisstjórninni í málefnum gjaldtöku fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind. Í fyrravetur vakti ég máls á úthlutun rása til útvarps- og sjónvarpssendinga og gagnrýndi hvernig staðið var að þeim úthlutunum. Ég vakti þá einnig máls á því að eðlilegt væri að greitt væri fyrir aðgang að slíkri auðlind. Þess vegna fagna ég því að í 9. gr. skuli vera tekið á þessu máli og menn tilbúnir til að fallast á, eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson nefndi hér áðan, svokallað veiðileyfagjald í þessari grein. Það er greinilegt. Hér eru sömu rökin notuð og við veiðileyfagjaldið, að það beri að greiða fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind sem ríkið veitir aðgang að.

Eftir því sem ég hef skoðað þetta mál get ég nú ekki séð annað en að þetta sé svona eðlilegt framhald af því sem rætt hefur verið um breyttar aðstæður í fjarskiptum í framtíðinni. En mig langar aðeins vegna athugasemda fjmrn. að vekja athygli á því að í frv. til fjárlaga 1997 er ætlað að rekstur Fjarskiptaeftirlits ríkisins muni kosta 58 millj. kr., en þar eru 10 starfsmenn. Síðan er fjallað um að það megi ætla að kostnaður vegna reglubundinnar starfsemi stofnunarinnar verði 85--87 millj. kr. á ári sem verði fjármagnað með afmörkuðum tekjustofnum. Ég hef alltaf ákveðinn fyrirvara þegar talað er um markaða tekjustofna til rekstrar opinberra stofnana því það hefur nú verið reynslan að þessir mörkuðu tekjustofnar hafa oft ekki viljað skila sér í það sem þeim er ætlað. Við könnumst við það úr frv. sem koma hér inn árlega um ráðstafanir í ríkisfjármálum að þessir mörkuðu tekjustofnar eru iðulega teknir í annað og sömuleiðis við fjárlagagerð.

Það er einnig talað um í athugasemd frá fjmrn. að í frv. sé veitt heimild til þess að innheimta sérstakt rekstrargjald vegna rekstrarleyfa þar sem takmarka þarf fjölda leyfishafa. Í framhaldi af því er bent á að hér sé átt við annað GSM-farsímakerfi eða sambærilega þjónustu og tekið til þess að það sé gert ráð fyrir að kostnaður við væntanlegt útboð á nýju GSM-farsímakerfi verði um 32 millj. kr.

[15:15]

Ég ætla ekki að gera þetta frv. að frekara umtalsefni núna við 1. umr. en mig langar til að koma aðeins inn á atriði sem hv. þm. Ragnar Arnalds, sem nú situr í forsetastóli, nefndi hér áðan en það er hvernig háttað er málefnum starfsmanna Pósts og síma sem ég tel eðlilegt að minnst sé aðeins á hér úr því að þessi fjarskiptamál eru til umræðu. Í máli starfsmanna Pósts og síma á fundi með samgn. í morgun kom fram hörð gagnrýni á það hvernig staðið er að málum starfsmanna og réttinda þeirra og samningum við þá vegna breytinga á rekstri Pósts og síma. Þar kom fram að ekki hafa verið gerðir neinir samningar við háskólamenn hjá Pósti og síma en samkvæmt lögum eiga þeir að hafa sex vikna umþóttunartíma til að skoða samninga sem eru gerðir við þá áður en breyting verður á rekstrarformi Pósts og síma. Næstkomandi miðvikudag verða sex vikur til áramóta. Þá eru sex vikur þar til þessir samningar eiga að taka gildi og það er nánast umþóttunartíminn frá næsta miðvikudegi og þangað til þessir samningar eiga að taka gildi. Þarna eru nú samningamenn hæstv. ráðherra sem ég vona að sé að hlusta þó hann sé í símanum hérna frammi. Þá eru samningamenn hans frekar seinir með þessi samningmál.

Í morgun kom einnig fram að búið væri að senda út samninga til ýmissa starfsmanna en gagnrýnt var að yfir þeim samningum sem stöðvarstjórar sem hafa fengið senda að ríki alger leynd. Það var gagnrýnt í morgun og einnig að þeim er meinað að vera í stéttarfélögum sem er einnig sérkennilegt. Þar kom líka fram að það eru hópar sem hafa ekki fengið neina samninga og engin svör við spurningum um hvað framtíðin beri í skauti sér fyrir þessa starfsmenn. Engin svör frá Pósti og síma um það hvað framtíðin beri í skauti sér.

Frá fulltrúa Rafiðnaðarsambandsins kom fram að greinilega væru fleiri en eitt stéttarfélag sem ætti að semja um kaup og kjör við fyrirtækið fyrir sömu stéttir. Bent var á að með því að Póstur og sími væri gert að einu hlutafélagi þá væri það komið inn á almennan vinnumarkað.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort standi til að útiloka starfsmenn Pósts og síma hf. frá því að vera í stéttarfélögum eða verkalýðsfélögum. Er það meiningin? Því virðist hafa verið haldið að starfsmönnum við samningagerðina hjá þeim fulltrúum sem settir voru í þá nefnd sem á að vinna undirbúningsvinnuna að samningum við starfsmenn Pósts og síma. Hvernig er þessum málum háttað? Býst hann við að búið verði að semja við háskólamennina innan tiltekins tíma? Verða þeir komnir með samninga fyrir næsta miðvikudag þannig að þeir hafi þennan sex vikna umþóttunartíma? Ég held að hæstv. ráðherra þurfi að svara þessum spurningum því menn voru fullvissaðir um það hér í umræðunni um breytt rekstrarform á Pósti og síma í vor að gengið yrði frá þessum málum í tíma. En það hefur greinilega dregist og það úr hömlu. Ég vil því fá skýr svör frá hæstv. ráðherra um málefni Pósts og síma áður en hann lýkur umræðum um fjarskiptamálin og póstmálin hér í dag.