Póst- og fjarskiptastofnun

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:26:44 (1149)

1996-11-13 15:26:44# 121. lþ. 23.13 fundur 149. mál: #A Póst- og fjarskiptastofnun# frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:26]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Vissulega er ástæða til að láta í ljós þakklæti fyrir góðar undirtektir formanns Alþfl. og raunar Alþfl. við það starf og þá löggjöf sem samþykkt hefur verið um breytingar á Pósti og síma og þá stefnu sem mörkuð hefur verið í grundvallaratriðum. Það er ástæða til að ætla að það nái einnig til hins nýja þingflokks jafnaðarmanna og Þjóðvaka. Ánægja er yfir þeirri stefnu sem mörkuð er með þessum frv. þar sem maður veit að þar ríkir mikil eining innan búðar sem á að geta þegar fram líða stundir orðið að miklu afli, vonandi ekki öflum sitt í hvora áttina.

Ég vil aðeins segja út af því sem hv. þm. Ragnar Arnalds, 4. þm. Norðurl. v., sagði áðan og sömuleiðis 18. þm. Reykv. Ásta R. Jóhannesdóttir að samkvæmt viðræðuáætlun fara fram viðræður við starfsmenn Pósts og síma. Auðvitað eru uppi álitamál eins og ævinlega við undirbúning launaflokka og kjarasamninga. Ekki er ástæða til að ætla annað en að þær muni leysast í fyllingu tímans. Ég hygg að misskilningur sé að starfsmönnum sé meinað að vera í stéttarfélagi. Á hinn bóginn hefur komið upp að stöðvarstjórar hafa óskað eftir því að þeir hafi sjálfstæðan samningsrétt og með sama hætti liggur það fyrir að fjölmargir yfirmenn Pósts og síma hafa verið í svokallaðri ráðherraröðun hjá opinberum starfsmönnum. Raunar er það svo í einkageiranum að ekki er samið um öll stjórnunarstörf í almennum kjarasamningum. Ég veit að hæstv. þingmaður þekkir til að mynda kjarasamninga verslunarmanna og þar er það ekki gert.