Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:29:57 (1150)

1996-11-13 15:29:57# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:29]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Markmiðið með frumvarpi þessu um fjarskipti er að tryggja örugg og hagkvæm fjarskipti fyrir alla landsmenn á sambærilegum kjörum. Til að svo megi verða er m.a. lagt til að lögbundinn einkaréttur ríkisins verði afnuminn frá og með 1. jan. 1998 en að Pósti og síma hv. verði veittur einkaréttur til þess að reka almenna talsímaþjónustu og reka almennt fjarskiptanet til þess tíma. Er sú skipan mála í samræmi við ákvæði laga nr. 103/1966, um Póst- og síma hf. Þar með verður þeim sem þess óska heimilt að veita fjarskiptaþjónustu frá 1. jan. 1998 að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem nánar er mælt fyrir um í lögunum.

Jafnframt er lögð á það áhersla að stjórnvöld geti lagt á svokallaða alþjónustu til að tryggja þjónustu um allt land.

Með frumvarpi þessu eru íslensk fjarskiptalög færð til samræmis við þær breytingar sem orðnar eru og sem boðaðar hafa verið í fjarskiptamálum í Evrópu.

Fram til ársins 1993 var einkaréttur ríkisins á fjarskiptum víðtækur hér á landi og undanþágur voru fáar. Þetta fyrirkomulag var talið réttlætanlegt meðan verið var að byggja upp grunnnetið og voru tekjur af fjarskiptaþjónustu gjarnan nýttar beint eða óbeint til öflugrar uppbyggingar almennra fjarskiptaneta.

Á síðustu árum hefur orðið mikil viðhorfsbreyting að þessu leyti. Uppbyggingu almennra fjarskiptaneta er að mestu lokið; tæknilegar breytingar og þarfir viðskiptalífsins kalla á breytt lagalegt umhverfi fjarskipta og svo mætti lengi telja. Frumvarp það sem hér er lagt fram endurspeglar þessa viðhorfsbreytingu.

Breyting á rekstrarformi Póst- og símamálastofnunar í hlutafélag er meðal annars gerð til að búa Póst og síma undir þær breytingar sem í vændum eru.

Einkaréttur ríkisins til að eiga og reka fjarskipti og fjarskiptaþjónustu var þrengdur verulega með breytingu á fjarskiptalögum árið 1993 og nær samkvæmt gildandi lögum eingöngu til talsímaþjónustu og til að eiga og reka almennt fjarskiptanet.

Fyrr á þessu ári var samþykkt tilskipun Evrópusambandsins sem mælir fyrir um fullt frelsi í fjarskiptaþjónustu og rekstri fjarskiptanetsins frá 1. janúar 1998. Þetta frelsi er þó ekki óheft því samhliða afnámi einkaréttar á fjarskiptaþjónustu er talið nauðsynlegt að tryggja að allir notendur eigi aðgang að lágmarksþjónustu á sviði fjarskipta á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Þetta er í frumvarpinu kallað alþjónusta. Samkvæmt því má leggja þá skyldu á þá sem fá leyfi til að reka almenna fjarskiptaþjónustu, t.d. almenna talsímaþjónustu, að þeir taki á sig slíkar skuldbindingar gagnvart notendum. Nokkur óvissa hefur verið um það, m.a. innan Evrópusambandsins til hvaða þátta fjarskiptaþjónustu alþjónusta nær og því þykir rétt að hafa ekki ítarleg ákvæði hér að lútandi í frumvarpinu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að nánar verði mælt fyrir um það í reglugerð. Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að lagt verði á rekstrarleyfishafa sérstakt jöfnunargjald til þess að fjármagna skyldubundna alþjónustu. Slíkt gjald verður þó ekki lagt á fyrr en fleiri en einn rekstraraðili verður kominn á viðkomandi þjónustusvið.

Frumvarpið byggir á því grunnsjónarmiði að stjórnvöld eigi ekki að takmarka fjölda þeirra sem fá leyfi til að veita fjarskiptaþjónustu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að leyfi þurfi til að reka slíka þjónustu aðra en virðisaukandi þjónustu. Að frátalinni fjarskiptaþjónustu þar sem takmarka verður fjölda leyfishafa af tæknilegum ástæðum, eins og er um GSM-farsíma, er lagt til að þeir sem fullnægja ákveðnum hlutlægum skilyrðum fái leyfi til fjarskiptaþjónustu og til að reka almennt fjarskiptanet. Skilyrðin eru af ýmsum toga, ekki síst tæknilegum, og er tilgangur þeirra meðal annars að tryggja aðgang nýrra aðila að þeim fjarskiptanetum sem komið hefur verið upp og þar með jafnan aðgang rekstraraðila að markaðnum og að samtenging fjarskiptaneta sé tryggð, en einnig að tryggja að fjarskiptaþjónustu verði í raun haldið uppi. Er í síðastgreinda tilvikinu talið mikilvægt að öllum sé tryggður aðgangur að tiltekinni alþjónustu eins og ég greindi frá fyrr í máli mínu.

Þegar nauðsynlegt verður að takmarka fjölda rekstraraðila má samkvæmt frumvarpinu ákveða að rekstrarleyfi skuli veitt að undangengnu útboði.

Auk þessara nýmæla eru ýmis ákvæði í frumvarpinu, svo sem um leynd og vernd fjarskipta, þráðlaus fjarskipti, símatorgsþjónustu og fleira.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til 2. umr. og samgn.