Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:34:41 (1151)

1996-11-13 15:34:41# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:34]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er farið að tíðkast í lagasmíði á Íslandi að byrja lög með því að gefa ítarlegar skýringar á ýmsum heitum og hugtökum, jafnvel heitum og hugtökum sem hafa unnið sér nokkurn þegnrétt í málinu og allir vita hvað átt er við með. Frægt er dæmið frá því í fyrra þar sem sjúklingur var skilgreindur sem hver sá sem leitaði þjónustu heilbrigðisstétta hvort sem sá hinn sami væri sjúkur eða heilbrigður. En nú bregður svo við að í öðrum kafla þessara laga, kaflanum um orðskýringar, kemur orðskýring á gömlu og góðu íslensku heiti sem gerir það að verkum að ég sem hélt mig hafa skilið þetta heiti botna hvorki upp né niður. En þar er útskýrt hvað sé talsímaþjónusta. Ég held að við Íslendingar höfum nú svona sæmilega hugmynd um hvað sé talsímaþjónustu. En það er skilgreint svona, með leyfi forseta:

,,Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um sjálfvirkt fjarskiptanet þannig að notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda sem tengdur er við annan tengipunkt.``

Nú spyr ég, virðulegi forseti, finnst mönnum virkilega ástæða til að leiða svona skýringar í íslensk lög? Barn sem væri t.d. spurt á prófi hvað væri talsímaþjónusta fengi ekki rétt svar nema það svaraði: Þjónusta, seld almenningi, sem fólgin er í beinum rauntímaflutningi á tali um sjálfvirkt fjarskiptanet þannig að notandi getur notað búnað tengdan við tengipunkt á netinu til að hafa samband við annan notanda sem tengdur er við annan tengipunkt. Hvaða ástæða er, virðulegi forseti, til að hafa svona samsetning í lögum? Eigum við ekki bara að leyfa fólkinu sjálfu að viðhalda skilningi sínum á því hvað talsímaþjónusta er? Ég er sannfærður um að maður sem talar jafnmikið í símann og hæstv. samgrh., sem þarf að nota símann þó hann tali hátt því öðruvísi heyrist ekki norður til hans, viti nokkurn veginn hvað talsímaþjónusta er og hann þurfi ekki að biðja hv. Alþingi um að festa þennan skilning á orðinu í sessi.

Ég tók það fram hér áðan að við jafnaðarmenn værum að meginefni sammála þeim breytingum sem er verið að gera og hæstv. ráðherra hefur lýst og koma vel fram í greinargerð með þessu frv. En það eru örfáar athugasemdir sem mig langar til að gera og m.a. er spurning til hæstv. ráðherra. Í greinargerðinni segir svo um V. kafla í frv. að í ákveðnum tilvikum kunni að vera nauðsynlegt að takmarka fjölda rekstrarleyfishafa á tilteknum sviðum fjarskipta. Ég vildi gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra nánar hvað þarna væri átt við, þ.e. í hvaða tilvikum slíkt kæmi til greina og á hvaða sviðum fjarskipta slíkt kæmi til greina. Þetta er það opið og loðið orðalag að ómögulegt er að átta sig á því hvað vakir fyrir höfundunum. Þá ítreka ég það sem ég benti á áðan að þarna er gert ráð fyrir því að innheimt verði sérstakt gjald fyrir fjarskiptaleyfi þar sem fjöldi rekstrarleyfa er takmarkaður og gert ráð fyrir að það sé jafnvel gert með útboði. Það er að verða almenn regla í lögum að menn taki sérstakt gjald, jafnvel með útboði, fyrir takmörkuð réttindi til ábatavonar, sem hæstv. ríkisstjórn veitir þegnunum sem framkvæmdarvald, þar sem einn fær og annar ekki. Auðvitað styrkir það stöðugt sjónarmið þeirra sem vilja að sömu reglum verði fylgt hvað varðar nýtingarréttinn á helstu auðlind landsmanna, fiskveiðunum og fiskimiðunum, sem er takmarkaður. Það er búið að leggja hér ákveðnar línur sem varða ekki lengur bara úthlutun takmarkaðra tollkvóta til innflutnings á landbúnaðarvörum og búvörum hvers konar þar sem menn verða að greiða fyrir með útboði, sá fær sem hæst býður. Hér er verið að staðfesta sama kerfi í sambandi við póst- og símaþjónustu. Því má segja að menn séu að færa sig nær og nær meginatriðum málsins, sem sagt því að þegar takmörkuðum gæðum er varðar aðgang að auðlindinni, fiskimiðunum, er úthlutað sé sama regla í heiðri höfð.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra út í það að hér er gert ráð fyrir því að Póst- og fjarskiptastofnun geti krafist þess að rekstrarleyfishafar þjónustu gefi upplýsingar um notendur sína og séð til þess að gefin verði út heildstæð skrá yfir notendur að síma- og fjarskiptaþjónustu um land allt. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað um það kerfi sem er enn í gildi, þ.e. að einstakir notendur geta óskað eftir því að númer þeirra séu ekki skráð og þurfi ekki að greiða neitt sérstakt gjald fyrir? Er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að halda þeim sið, þ.e. þeir notendur, sem óska ekki eftir því að númer þeirra séu skráð og veittar upplýsingar um þau, geti haldið þeim rétti sínum? Það er ekki sérstaklega tekið fram.

Þá vil ég einnig hrósa því sérstaklega sem talað er um í 7. gr. þar sem gert er ráð fyrir að tryggja alhliða fjarskiptaþjónustu við notendur með sérþarfir svo sem fatlaða eða aldraða sem oft og tíðum þurfa á mikilli þjónustu varðandi fjarskipti að halda. Það er rétt sem segir í greinargerð að miklar framfarir hafa orðið í fjarskiptum fyrir slíka hópa og ýmiss konar búnaður, sem tryggir öryggi þeirra, hefur séð dagsins ljós. En einnig er mikilvægt að sett séu ströng skilyrði í rekstrarleyfum fyrir fjarskiptaþjónustu við slíka hópa. Það er trú mín að með þeirri kerfisbreytingu sem hér er verið að gera geti skapast grundvöllur til að bæta mjög mikið þjónustuna við aldrað fólk, fatlaða og þroskahefta, sem þarf í vaxandi mæli á þjónustu fjarskiptanets að halda til þess að geta lifað sem eðlilegustu lífi, lífi eins og við hin lifum.

Þá langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra um atriði í 14. gr. frv. þar sem rætt er um að rekstrarleyfishafi, sem gert er skylt að veita alþjónustu samkvæmt rekstrarleyfi sem hann telur ekki arðbæra, geti leitað eftir því að honum verði tryggt eðlilegt endurgjald fyrir slíka þjónustu með fjárframlögum. Auðvitað þarf ekkert að segja það í lögum að menn geti leitað eftir fjárframlögum, það geta allir Íslendingar, menn þurfa ekkert leyfi til þess að skrifa t.d. bréf til hv. fjárln. og óska eftir því að þeir fái fjárfamlög til þess að veita einhverja sérstaka þjónustu er varðar samfélagið, t.d. við dreifðar byggðir eða einhverja tiltekna hópa. Engin lög eru í gildi sem banna mönnum það. Allir eru frjálsir að því að skrifa slík erindi eða bera þau fram á annan hátt. Ég spyr hvaða hald er í því að taka fram í lögum í slíku sambandi að aðili af því tagi, sem falið er að veita þjónustu sem ekki er talin borga sig, geti leitað eftir fjárframlögum. Er ekki eðlilegra að snúa þessu við og segja að ríkisvaldið skuli tryggja að slík þjónusta sem ríkisvaldið skyldar rekstraraðila til að veita og varðar t.d. þjónustu við dreifðustu byggðir landsins, þar sem ekki er um að ræða þjónustu sem getur staðið undir sér, og hafi skyldur í þeim efnum sjái svo um að viðkomandi rekstraraðili geti sinnt þeirri þjónustu eins og best verði á kosið? Það er engin vernd í þessum efnum að segja eins og sagt er í 14. gr. að viðkomandi aðili geti óskað eftir stuðningi því það geta allir borgarar á Íslandi án þess að það sé tekið sérstaklega fram í lögum.

[15:45]

Mig langar einnig til að spyrja hæstv. ráðherra og vitna þar í greinargerðina með frv. en þar er gert ráð fyrir því að í þeim tilvikum sem ekki er talið sanngjarnt eða eðlilegt að beita jöfnunargjaldi þar sem um er að ræða niðurfellingu á talsímagjöldum til aldraðra eða öryrkja skuli kostnaður af alþjónustu greiddur úr ríkissjóði. Mig langar til að spyrja: Þýðir þetta að þeir aldraðir eða öryrkjar, sem þurfa ekki að borga fastagjald af síma í dag, hafi tryggingu fyrir að þeim aðstæðum verði ekki breytt þrátt fyrir þá kerfisbreytingu sem fyrir dyrum stendur? Eða er hætta á að þeir aldraðir og öryrkjar, sem hafa lægstu tekjurnar og hafa síma sér að kostnaðarlausu, að það komi til álita að taka þau réttindi af einhverjum stórum eða smáum hópi þeirra við þær breytingar sem fyrir dyrum standa? Þetta vil ég gjarnan fá alveg skýrt, herra forseti, vilja hæstv. samgrh. í þeim efnum. Ekki vegna þess að ég haldi að fyrir honum sjálfum vaki að gera einhverjar breytingar í því efni. En vissara er að hafa það ljóst áður en frv. er afgreitt sem lög frá Alþingi hvað hæstv. ráðherra ætlast fyrir svo þeir aðilar sem kunna að fara með framkvæmd valdsins verði þá bundnir af þeim orðum sem hæstv. ráðherra segir um túlkun sína á málinu á hinu háa Alþingi.