Fjarskipti

Miðvikudaginn 13. nóvember 1996, kl. 15:47:02 (1152)

1996-11-13 15:47:02# 121. lþ. 23.14 fundur 150. mál: #A fjarskipti# (heildarlög) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 23. fundur

[15:47]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Hv. þm. vék að því þegar um takmörkuð gæði er að ræða og undir hvaða kringumstæðum búast megi við að farið verði út í útboð. Því er fljótsvarað. Þegar um sjónvarpsrásir er að ræða eða farsíma, t.d. GSM, verður í sambandi við útboðið ekki einungis tekið tilboði vegna fjárhæðar þess sem boðið er peningalega heldur einnig litið á gæði og þjónustu sem látin skuli í té. Við höfum auðvitað verið í vandræðum með þessa hluti. Ég var spurður að því í sjónvarpinu í gærkvöldi hvort ekki hefði verið rétt að láta bjóða í eina sjónvarpsrás sem laus var norður á Akureyri. Það hafði á hinn bóginn ekki verið gert við aðrar sjónvarpsrásir sem úthlutað hefur verið um ótakmarkaðan tíma þannig að það þótti ekki rétt í þessu sérstaka tilviki. En á hinn bóginn hlýtur það að koma til álita síðar meir þegar farið er inn á ný svið en eins og nú standa sakir er ekki gerlegt að átta sig á hvernig tæknin þróast.

Í sambandi við eftirlit með leyfishöfum er það rétt sem hv. þm. sagði að eftirlitsúrræði Pósts- og fjarskiptastofnunar eru mjög viðamikil, og er í samræmi við það sem er t.d. í Danmörku eftir því sem mér hefur skilist. Því er nauðsynlegt að átta sig á því hvort þeir aðilar sem annast póstþjónustu og fjarskiptaþjónustu fyrir almenning séu fjárhagslega sterkir og nokkur trygging sé fyrir að þeir geti látið þá þjónustu í té, sem þeir hafa skuldbundið sig til, og að þjónustan sé viðhlítandi og trúverðug.

Hv. þm. vék nokkuð að ákvæðinu um að greitt skuli úr ríkissjóði til símans og annarra sem hafa fjarskiptaþjónustu með höndum. Þá kemur upp sú spurning hvernig haldið skuli á þeim málum ef t.d. þykir rétt að halda því áfram að aldraðir fái símkostnað sinn greiddan að hluta, eins og nú er, og er þá miðað fjölda skrefa, mismunandi eftir landshlutum. Eins og frv. er byggt upp er gert ráð fyrir að greiðsla fyrir það komi úr ríkissjóði. Það hefur verið stefna, ég vil segja beggja þeirra ríkisstjórna sem ég hef setið í, að rétt sé að hafa greiðslur af þessu tagi inni í fjárlögum til að menn geti séð hvað fríðindi af þessu tagi kosti þótt því hafi ekki verið komið í verk af fyrirkomulagsástæðum. En ég hygg að ógjörningur sé að hafa þennan háttinn á. Þetta er ekki vandamál meðan hér er einungis eitt fjarskiptafyrirtæki, síminn, þá kemur þetta af sjálfu sér og hægt er að leggja kvaðir af þessu tagi á stofnunina eða fyrirtækið. En um leið og fleiri rekstraraðilar koma inn í dæmið verður óhjákvæmilegt að jafna samkeppnisstöðu þeirra með því annað tveggja að greiðslur af þessu tagi komi beint á ríkissjóð með fjárlögum eða með hinu að lagður sé skattur á veltu fjarskiptafyrirtækjanna og af þeim tekjum komi síðan greiðslur til símafyrirtækjanna. Það má hugsa sér hvort tveggja og hvort sem er í því sambandi.

Ég man ekki hvort eitt enn vantar. (Gripið fram í: Skilgreining á talsímaþjónustu.) Já, skilgreining á talsímaþjónustu. Hv. þm. var nú búinn að lesa tvisvar yfir mér skilgreiningu á talsímaþjónustu og ég er honum þakklátur því loksins var ég að byrja að átta mig á hvað í þessu fælist. Og ég geri ráð fyrir að læsi hann nú skilgreininguna í þriðja sinn fyrir mig héðan úr þessum ræðustól þá mundi ég loks skilja þetta til fullnustu.