Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 10:56:37 (1163)

1996-11-14 10:56:37# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), GE
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[10:56]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð inn í þessa umræðu um Ríkisendurskoðun. Það er oft svo þegar fjallað er um stofnanir eða ráðuneyti að umræðan er gagnrýnin og oft rætt um það sem miður fer. Ég ætla ekki að ræða neitt því um líkt í þetta skipti. Ég ætla að fjalla um starfsemi Ríkisendurskoðunar og hvernig hún virkar fyrir mig sem þingmann.

Ég tel að slík stofnun sé ákaflega mikilvæg og mjög nauðsynleg fyrir þingið. Ég veit satt að segja ekki hvernig ég kæmist áfram í því starfi sem ég vinn á þingi í fjárln. nema hafa þær þörfu ábendingar sem koma tvisvar á ári um framkvæmd fjárlaga. Ég tel ákaflega mikilvægt að slík stofnun starfi. Það eru ákaflega mikilvæg og veigamikil atriði sem hafa komið fram, ekki síst hvað varðar framkvæmd fjáraukalaga. Ég tel að ástæður fyrir að verið er á ferðinni með frv. um fjárreiður ríkisins, að það komi vegna athugasemda Ríkisendurskoðunar. Það hefur verið ákveðin tregða í kerfinu, hjá hæstv. ríkisstjórn að fara eftir þeim ábendingum, en nú er svo komið að við erum að fjalla um fjárreiður ríkisins út frá þeim athugasemdum, ekki síst hvað varðar fjáraukalög íslenska ríkisins. Og eftirminnileg er ábendingin vegna fjáraukalaga 1994, þær ábendingar sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, og hvað þær hafa haft mikið að segja hvaða breytingar hafa orðið á meðferð mála hjá ríkinu bara vegna þessa.

Ég tel að skýrslurnar hafi nýst sem veigamikil gögn varðandi úttektir á stofnunum. Síðasta skýrsla sem við fjölluðum um var stjórnsýsluendurskoðun á Byggðastofnuninni og þar tel ég að hafi komið fram mjög margar gagnlegar ábendingar, bæði um það sem miður hefur farið, einnig um það sem hefur tekist vel til. Ég tek því ekki undir þá gagnrýni sem kom fram í máli hæstv. forsrh. að þetta sé, nánast að segja, nöldur. Ég er mjög ósáttur við þá framsetningu því þar er margt sem hefur tekist vel til í ábendingum um þá sérstöku úttekt. Það hefur reynst mér miklu auðveldara að fóta mig á þessum flóknu brautum sem eru fjármálastarfsemi ríkisins með aðstoð þessarar ágætu stofnunar. Ég held að við verðum að hafa svona apparat til úttektar á stofnunum, á ráðuneytum, á einstökum aðilum sem eru á vegum ríkisins. Einhver verður að vinna þessa vinnu en menn mega að sjálfsögðu búast við að sæta gagnrýni.

[11:00]

Ég tek undir með hæstv. forseta Alþingis, sem flutti skýrslu Ríkisendurskoðunar, að nauðsynlegt sé að fylgja eftir þeim úttektum sem gerðar hafa verið. Það má kannski segja að það sé ljóður á ráði þingsins að það hafa safnast upp skýrslur sem ég held að hafi ekki verið fylgt eftir nægjanlega vel. Fyrir tvö og hálft ár er ég með einar 15 skýrslur sem ég tel að ástæða væri til þess að skoða hvernig hefur verið farið að þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun hefur komið með í þeim.

Bara rétt til að rifja upp þá hefur Ríkisendurskoðun það hlutverk að fara yfir hvort reikningsskil ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja væru í samræmi við gildandi lög og reikningsskilavenjur og athuga hvort framlögum sem Alþingi veitir til einstakra viðfangsefna hafi verið ráðstafað í samræmi við lagaheimildir og síðan að veita, eins og ég kom inn á áðan, þingnefndum Alþingis og þingmönnum álit sem varðar upplýsingar og mat á tilteknum viðfangsefnum að beiðni þeirra. Þetta hefur verið gert og eins og ég nefndi áðan var síðasta úttektin stjórnsýsluendurskoðun hjá Byggðastofnun.

Nauðsynlegt er fyrir ráðuneytið að eiga möguleika á því að sækja til einhvers aðila eins og var gert á síðasta kjörtímabili þegar gerð var úttekt á utanrrn. Það getur verið nauðsynlegt fyrir ráðuneytin í varnaðarskyni að láta taka út starfsemi ráðuneyta þegar þau liggja undir einhverju ámæli og fá það fram hvort það er satt eða ósatt sem sagt hefur verið. Þess vegna er Ríkisendurskoðun nauðsynleg.

Ég vil ítreka það sem ég nefndi hér áðan að nauðsynlegt er að skipa nefnd og ég mælist til þess að hæstv. forseti þingsins beiti sér fyrir því að skipuð verði nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir og fylgja eftir þeim skýrslum sem gerðar hafa verið, hvort sem um er að ræða stofnun eða fjárlög eða hvað það nú er. Ég tel að það sé mjög mikilvægt. Sú nefnd ætti að hafa vald til þess að biðja um úttekt á t.d. B-hluta fyrirtækjum sem eru í æ ríkara mæli að fara í hlutafélagaform.

Ég minni á það að varðandi fjáraukalögin 1994 lýsti Ríkisendurskoðun því að flest mælti með því að fjáraukalög væru afgreidd fyrr á árinu en gert var 1994 og að fjáraukalögunum er ætlað að tryggja að formlegar heimildir Alþingis séu fyrir hendi vegna allra útgjalda ríkissjóðs áður en til þeirra er stofnað og jafnframt að áætlanir um tekjur séu færðar til samræmis við stöðu ríkisfjármála á árinu. Ég tel að þessi ábending sé ein af ríkustu ástæðunum fyrir því að ríkisstjórnin sá ástæðu til þess að breyta meðferð fjárreiðna ríkisins. Ég er nokkuð sannfærður um það. Ef ég minnist á fjáraukalagafrv. fyrir 1995, sem var grundvöllurinn að minnihlutaáliti fjárln. á síðasta ári, er það ein af ríku ástæðunum fyrir því að menn sáu að það varð að gera breytingar á meðferð ríkisfjármála.

Ég sé að öðru leyti ekki ástæðu til að fjalla mjög mikið um skýrsluna. Ég kom aðallega upp til þess að lýsa ánægju minni með starfsemina almennt og ég tek undir þakkir hæstv. forseta til starfsmanna og Ríkisendurskoðunar fyrir góð verk og mér þykir forvitnilegt að sjá hvernig fer með þá úttekt sem hæstv. forseti gerði grein fyrir í ræðu sinni sem leitað var eftir hjá enskri virtri stofu á sama sviði. En ég tel að þessari stofnun hafi tekist mjög vel upp að vinna sem óháð og sjálfstæð stofnun í þjónustu Alþingis.