Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 11:46:33 (1168)

1996-11-14 11:46:33# 121. lþ. 24.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1995# (munnl. skýrsla), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[11:46]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér fer fram gagnleg umræða um starfsskýrslu Ríkisendurskoðunar fyrir árið 1995 sem hæstv. forseti hefur fylgt út hlaði og ég tel innlegg hans mjög mikilvægt í þá umræðu sem fer fram. Ég held að það sé óumdeilt að starfsemi Ríkisendurskoðunar hefur, þau ár sem Ríkisendurskoðun hefur starfað, sannað gildi sitt. Ég tel að starfsemin sé mjög mikilvægur þáttur og stuðningur við það verkefni Alþingis að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og að starfsemi Ríkisendurskoðunar auðveldi þingmönnum mjög það starf.

Þeir þættir sem ég tel mikilvægasta í starfi Ríkisendurskoðunar eru þær stjórnsýsluendurskoðanir sem fram hafa farið auk eftirlits með framkvæmd fjárlaga. Ríkisendurskoðun hefur, eins og á umliðnum árum, tekið fyrir nokkrar stofnanir sem hefur verið gerð stjórnsýsluleg úttekt. Á því ári sem hér er verið að ræða, árið 1995, hafa þær einkum verið á sviði heilbrigðismála, menningar- og menntamála.

Ég held að ástæða sé til þess að taka undir það sem hér hefur verið sagt að það þarf að finna því farveg hvernig þingið getur fjallað um þær skýrslur og þær stjórnsýslulegu úttektir á stofnunum sem Ríkisendurskoðun gerir. Ég fagna því sem hefur komið fram að það er verið að athuga hvort ekki eigi að finna því fastan farveg í starfi nefndar að fjalla um þessar skýrslur. Vitaskuld geta nefndirnar haft frumkvæði að því að taka upp skýrslur með vísan til 26. gr. þingskapa. Ég tel einnig ástæðu til þess og beini því til forseta hvort ekki sé hægt að finna því farveg að taka skýrslur um stjórnsýsluendurskoðun til umræðu líka í þinginu þó vitaskuld sé líka mikilvægt að nefndirnar fjalli um þær. Ég nefndi t.d. nýlega stjórnsýsluendurskoðun á Byggðastofnun sem ég hef áhuga á að sé rædd hér í þingsölum. Ég finn því ekki annan farveg en að óska eftir utandagsskrárumræðu um þá skýrslu. Vissulega hafa margar skýrslur komið fram á umliðnum árum frá Ríkisendurskoðun sem full ástæða er til að ræða ítarlega í þingsölum og í nefndum þingsins. Því er mikilvægt að þetta mál sé skoðað sérstaklega nú við endurskoðun þingskapa.

Það hefur komið fram hjá nokkrum þingmönnum, m.a. 5. þm. Vesturl., að það er mjög mikilvægt að ábendingum Ríkisendurskoðunar sé fylgt eftir og ég hygg að flest ráðuneytin og stofnanir reyni að fylgja eftir þeim ábendinum sem fram hafa komið hjá Ríkisendurskoðun. Ég held að Ríkisendurskoðun hafi í starfi sínu öðlast traust og niðurstöður hennar eru mjög mikilvægar til þess að bæta vinnubrögð í stjórnsýslunni og gera hana skilvirkari. Ég tel að Ríkisendurskoðun sé almennt viðurkennd fyrir fagleg og hlutlaus vinnubrögð og ég held að það sé mjög sjaldgæft að niðurstöður og úttektir Ríkisendurskoðunar séu vefengdar. Þó höfum við dæmi um það og snertir nýlega úttekt á Byggðastofnun. Ég vil beina spurningu til hæstv. forseta sem fylgdi skýrslunni úr hlaði. Byggðastofnun kveinkaði sér mjög undan úttekt Ríkisendurskoðunar og skrifaði forsn. Alþingis bréf undir fyrirsögninni ,,Mistök Ríkisendurskoðunar í skýrslu um stjórnsýsluendurskoðun á Byggðastofnun``. Þar gagnrýnir Byggðastofnun mjög vinnubrögð Ríkisendurskoðunar og segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Byggðastofnun telur hins vegar að Ríkisendurskoðun hafi gert alvarleg mistök í meðferð talna um fjárhagslegt umfang stofnunarinnar.`` Einnig segir, með leyfi forseta: ,,Stjórnsýsludeild Ríkisendurskoðunar var hins vegar með skýrslu sinni um Byggðastofnun að gera tilraun til að fara út fyrir hefðbundna endurskoðun í rekstri stofnunarinnar.`` Hér er látið að því liggja að Byggðastofnun hafi fengið allt aðra meðferð og stjórnsýsluendurskoðun en aðrar stofnanir sem Ríkisendurskoðun hefur gert stjórnsýsluúttekt á. Í niðurlagi í bréfi Byggðastofnunar segir, með leyfi forseta: ,,Undirritaður telur að Byggðastofnun hafi skaðast af þessum málatilbúnaði. Vegna þess er óhjákvæmilegt að snúa sér til yfirstjórnar Ríkisendurskoðunar [þ.e. forsn.] og óska eftir að hún hlutist til um að fenginn verði hlutlaus aðili til að fara yfir gagnrýni þá sem fram kemur í meðfylgjandi greinargerð eða með öðrum hætti að sjá til þess að stofnunin fái leiðréttingu sinna mála.`` Ég hef aldrei heyrt nokkara stofnun kveinka sér svona undir úttekt Ríkisendurskoðunar eða þá gagnrýni sem hún setur fram, sem ég tel að sé í alla staði byggð á faglegum vinnubrögðum. Því spyr ég hæstv. forseta: Hvert er álit hans á beiðni og ósk Byggðastofnunar. Telur hann eðlilegt að Byggðastofnun fari þá leið að hvetja til þess að forsn. láti fara fram hlutlausa úttekt á stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar á Byggðastofnun? Mér finnst þetta afar sérkennileg tilmæli, fordæmisgefandi ef eftir þeim væri farið og því vil ég spyrja hsæstv. forseta um álit hans á því máli. Mér þótti öllu verra, af því þetta kom til umræðu þegar var verið að ræða skýrslu Byggðastofnunar, að hæstv. forsrh. tók undir gagnrýni Byggðastofnunar. Þó lá fyrir á sama degi að Ríkisendurskoðun hafði svarað Byggðastofnun þar sem Ríkisendurskoðun hrekur mjög skilmerkilega, lið fyrir lið, alla gagnrýni sem fram kom hjá Byggðastofnun og færir fyrir því mjög sannfærandi rök. Einmitt rök þess efnis að ekki hafi verið á neinn annan hátt farið með Byggðastofnun eða stjórnsýsluendurskoðun á henni en hjá öðrum stofnunum. Samt sá hæstv. forsrh. ástæðu til þess að taka undir alla gagnrýni Byggðastofnunar á Ríkisendurskoðun. Það fannst mér mjög vanhugsað af hæstv. forsrh., ekki síst í ljósi þess að hann hafði ekki kynnt sér svar Ríkisendurskoðunar við gagnrýni Byggðastofnunar.

Virðulegi forseti. Um leið og ég árétta spurningu mína til hæstv. forseta þakka ég fyrir skýrsluna og ítreka hvað mér finnst það starf mikilvægt sem fer fram hjá Ríkisendurskoðun og hvað hún sé gagnleg fyrir okkur þingmenn og allt eftirlit sem á að fara fram með framkvæmdarvaldinu.