Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:07:12 (1173)

1996-11-14 12:07:12# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), SP
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:07]

Sólveig Pétursdóttir:

Virðulegi forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1995 var tekin fyrir á fundi allshn. þann 12. nóvember sl. Á fundinn kom til viðræðna við nefndina um efni skýrslunnar umboðsmaður Alþingis, Gaukur Jörundsson, ásamt Páli Hreinssyni, aðstoðarmanni umboðsmanns, og Þórhalli Vilhjálmssyni, lögfræðingi við embætti umboðsmanns.

Umboðsmaður starfar á grundvelli laga um umboðsmann Alþingis nr. 13/1987. Hlutverk hans er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Heimild umboðsmanns til eftirlits með stjórnsýslu sveitarfélaga er þó takmörkuð, sbr. 3. gr. laganna, en þar segir að umboðsmanni sé aðeins heimilt að fjalla um stjórnsýslu sveitarfélaga ef um er að ræða ákvarðanir sem skjóta má til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins.

Fram kom á fundi nefndarinnar að eftirlit umboðsmanns með stjórnsýslu sveitarfélaga hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið, m.a. með hliðsjón af dönskum reglum um sambærilegt atriði. Á árinu 1995 voru skráð 333 ný mál hjá embættinu og virðist vera að komast nokkurt jafnvægi á fjölda mála eftir að mikil aukning varð á málafjölda milli áranna 1993 og 1994. Í skýrslunni kemur þó fram að umboðsmanni Alþingis berast hlutfallslega meira en helmingi fleiri mál en umboðsmönnum þjóðþinga á hinum Norðurlöndunum. Telur umboðsmaður að skýringar á þessum málafjölda hérlendis séu helst þær að íslensk stjórnsýsla hefði í mörgum tilfellum verið mun lausari í reipunum en stjórnsýsla nágrannaþjóðanna. Þetta hefur þó breyst og síðustu níu ár hafa miklar réttarbætur verið unnar á sviði íslenskrar stjórnsýslu. Meðal þeirra laga sem hafa hvað mesta þýðingu að þessu leyti má nefna lög um umboðsmann Alþingis, lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, stjórnsýslulög, lög um mannréttindasáttmála Evrópu, stjórnarskipunarlög frá 1995 og nýsett upplýsingalög.

Það hefur ekki reynst stjórnvöldum hérlendis fyrirhafnarlaust að breyta starfsháttum sínum á svo stuttum tíma meðan stjórnvöld í nágrannalöndunum hafa gengið í gegnum sams konar breytingar á mörgum áratugum.

Annað atriði sem hefur áhrif á fjölda mála sem berast umboðsmanni er hvernig stjórnsýslunni tekst sjálfri að leysa þau vandamál sem upp koma. Þarna hefur það grundvallarþýðingu hvort unnt er að skjóta ákvörðun til æðra stjórnvalds, til endurskoðunar. Þannig má efalaust rekja hluta þeirra mála sem berast umboðsmanni til þess að ekki hefur verið hugað að því við setningu laga að haga stjórnsýslukerfinu þannig að stjórnsýslan sjálf sé fær um að leysa á fljótvirkan og ódýran hátt þau vandamál sem upp kunna að koma. Loks má nefna að hér á landi eru ekki starfandi stjórnsýsludómstólar. Slíkir dómstólar starfa heldur ekki í Noregi eða Danmörku en þar er það almennt viðurkennt að umboðsmenn þjóðþinga koma að nokkru í stað slíkra dómstóla. Kom það fram í máli umboðsmanns á fundi nefndarinnar að hann teldi þróun hérlendis í rétta átt og að ekki ætti að vinna að stofnun sérstaks stjórnsýsludómstóls heldur styrkja þær stofnanir sem fyrir eru, bæði almenna dómstóla og umboðsmann Alþingis.

Fram kom í máli umboðsmanns að kærunefndir á einstökum málefnasviðum stjórnsýslunnar sem einstaklingar gætu leitað réttar síns hjá, gætu létt störfum af umboðsmanni. Hann bendir þó á hættuna af því að fjölga stjórnvöldum sem bæru nafnið ,,umboðsmaður`` og taldi það bjóða heim hættu á ruglingi þar sem um væri að ræða stjórnvöld með allt annað hlutverk og önnur tengsl við framkvæmdarvaldið en um boðsmaður Alþingis. Betra væri að slík stjórnvöld bæru heitið talsmaður eða settar væru á stofn kærunefndir, svo sem kærunefnd jafnréttismála og kvörtunarnefnd heilbrigðisþjónustunnar. Aðalatriðið er þó að hlutverk slíkra stjórnvalda sé skýrt og réttaröryggi borgaranna þar með meira.

Undanfarið hefur einnig verið unnið mikið starf í kynningarmálum og haldin hafa verið námskeið, bæði fyrir starfsmenn stjórnsýslunnar og aðra, og miðar slík fræðsla einnig að því að auka réttaröryggi borgaranna. Fram kom fyrirspurn á fundinum um afskipti umboðsmanns af veitingu gjafsóknarleyfa. Kom fram í máli umboðsmanns að samkvæmt núgildandi lögum væri það aðeins í valdi gjafsóknarnefnda að veita slíkt leyfi. Möguleiki er á þessu í starfsreglum umboðsmanns sem samþykktar eru af Alþingi, en núgildandi lagarammi heimilar ekki að umboðsmaður leggi slíkt til. Umboðsmenn þjóðþinga á Norðurlöndum hafa slíkt leyfi og er það aðeins notað í undantekningartilvikum.

Á fundinum kom fram spurning um skiptingu kvartana eftir landshlutum. Kom fram í svari umboðsmanns að hlutfall heildarmálafjölda í Reykjavík væri 49% og 27,6% á Reykjanesi. Ekki er um að ræða mikinn mun miðað við mannfjölda en þó berast hlutfallslega flestar kvartanir frá höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmanni berast á ári hverju mun fleiri mál en birt eru í skýrslunni því að mörg mál leysast áður en þau koma til endanlegrar afgreiðslu. Þá getur umboðsmaður tekið upp mál að eigin frumkvæði og gerði hann það í fjórum tilvikum á árinu 1995. Er þá um að ræða mál sem lúta að almennum bótum í stjórnsýslunni. Skipting mála eftir viðfangsefnum er misjöfn milli ára. Ef teknar eru allar skráðar kvartanir á árinu 1995 beinast flestar þeirra, eða 57 að töfum hjá stjórnvöldum við afgreiðslu máls. 30 kvartanir beindust að málsmeðferð og starfsháttum stjórnsýslunnar, 25 að fangelsismálum, 24 að stöðuveitingum og svo mætti lengi telja. Að mati umboðsmanns eru mest áberandi mál er varða fanga og sjúklinga, einnig skattamál og mál er varða starfsréttindi. Um nánari upplýsingar vísa ég að öðru leyti til skýrslu umboðsmanns sem er efnismikil og vel úr gerði gerð.

Samkvæmt 11. gr. laga um umboðsmann Alþingis skal umboðsmaður tilkynna Aþingi, svo og hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn, verði hann þess var að meinbugir séu á gildandi lögum. Árlega berst forseta Alþingis allnokkur fjöldi slíkra ábendinga og hefur allshn. jafnan fengið þær til umfjöllunar. Nefndin hefur síðan eftir að hafa farið yfir málin, sent þar sem það á við, tilmæli til hlutaðeigandi ráðuneyta þar sem óskað er eftir skriflegum upplýsingum um hvað þau hafi aðhafst í málinu. Á fundinum lýsti umboðsmaður yfir mikilli ánægju með þessi vinnubrögð nefndarinnar og taldi þau gefa álitum umboðsmanns meira vægi og hafa ábendingar almennt verið teknar til greina og nauðsynlegar lagfæringar gerðar. Meinbugir á lögum geta verið formlegs eðlis, svo sem prentvillur eða óskýr texti. Einnig geta meinbugir beinlínis verið fólgnir í efnisatriðum, svo sem að lög mismuni mönnum án þess að fyrir því séu viðhlítandi rök eða að reglugerðarákvæði skorti lagastoð. Þá teljast það meinbugir á lögum ef ákvæði laga rekast á eða ef íslensk lög eru ekki í samræmi við þær skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist samkvæmt alþjóðasáttmálum til verndar mannréttindum.

Allshn. tók einmitt fyrir sjö mál á fundi sínum síðasta þriðjudag og mun senda fjórum ráðuneytum bréf í framhaldi af því og óska eftir skriflegum upplýsingum um aðgerðir á grundvelli álitanna.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég þakka umboðsmanni fyrir greinargóða skýrslu og taka undir orð nefndarmanna í allshn. sem lýstu yfir mikilli ánægju með störf umboðsmanns á þeim árum sem liðin eru frá því að embættið tók til starfa.