Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:44:44 (1180)

1996-11-14 12:44:44# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), SP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:44]

Sólveig Pétursdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir ýmsar gagnlegar ábendingar frá hv. þm. og er sammála því að vissulega þarf löggjafarvaldið að gæta þess við sín störf sem umboðsmaður Alþingis bendir á einmitt í skýrslu sinni og hv. þm. vitnaði til.

En hér var sérstaklega vikið að stjórnsýsludómstólum sem umboðsmaður nefnir í skýrslu sinni. Ég vildi ítreka það sem ég sagði í minni framsögu að þetta atriði var einmitt rætt á fundi allshn. Þá taldi umboðsmaður þróun hérlendis vera í rétta átt og ekki ætti að vinna að stofnun sérstaks stjórnsýsludómstóls, heldur styrkja þær stofnanir sem fyrir eru, þ.e. bæði almenna dómstóla og umboðsmann Alþingis. Þetta atriði hefur áður komið til umræðu á fundum nefndarinnar.

[12:45]

Ég vildi líka aðeins fá að víkja að því sem hv. þm. vék að máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um einstök dæmi þar sem lagfæringar hafa ekki átt sér stað enn þá. Þar var m.a. nefnt til nauðungarvistun einstaklinga á sjúkrahúsum, en umboðsmaður víkur einmitt að þessu máli í lokum inngangsorða sinna í skýrslunni á bls. 14 og skýrir frá því að dóms- og kirkjumrn. hafi kynnt sér að í frv. til nýrra lögræðislaga, sem í ráði er að leggja fram á 121. löggjafarþingi, verði einmitt tekið á þessum vandamálum. Ég vildi að þetta kæmi fram.