Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 12:59:00 (1183)

1996-11-14 12:59:00# 121. lþ. 24.5 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995# (munnl. skýrsla), GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[12:59]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. formanni allshn. fyrir svarið og tilvitnunina í lagagreinina þar sem segir og undirstrikar það sem ég sagði: ,,svo fljótt sem unnt er.`` Það gefur viðkomandi aðila heimild til þess að draga eða við skulum kannski ekki segja að menn fái heimild til að draga, en það gefur færi á að það frestist eins lengi og mögulegt er, allt að sex mánuðum, allt að heilu ári að svara. Þess vegna, herra forseti, vil ég fá að vitna í ábendingu umboðsmanns Alþingis sem er svohljóðandi á bls. 124:

,,Samkvæmt framansögðu er niðurstaða mín sú að barnaverndarnefnd [ótiltekins staðar] og félagsmálaráð [ótiltekins staðar] hafi dregið of lengi að skila umsögnum til sýslumanns ... Eru það tilmæli mín til þessara stjórnvalda, að þau hagi meðferð mála í samræmi við þau sjónarmið, er fram koma hér að framan, ...``

Ég get ekki og vil ekki, herra forseti, vitna nánar til þessara samskipta sem þarna er getið um, en ég tel að fyllsta ástæða sé til þess að hv. allshn. og hæstv. forseti Alþingis skoði þá möguleika að tímamörk séu sett í ákveðnum tilvikum, svo sem í forræðismálum, þar sem harmleikir hafa átt sér stað vegna þess að dregist hefur að svara og dregið eins lengi og mögulegt er að svara, ég vil segja, réttlætismáli í kerfinu.