Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:42:24 (1189)

1996-11-14 13:42:24# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), HG
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:42]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er mjög eðlilegt að leitað sé eftir forsendum fyrir úthlutun á opinberu fé eins og hér er gert og ekkert óeðlilegt að spurningar vakni varðandi nýtingu á því fjármagni sem veitt var samkvæmt ákvörðun Alþingis í þessu skyni, aðallega til eflingar markaðsstarfi heilsárshótela á landsbyggðinni. Ég tel að það sem skiptir sérstaklega máli við slíkar aðgerðir til stuðnings tiltekinna fyrirtækja sé að ljóst sé í hvað á að verja fjármagninu, hvaða forsendur eru lagðar þar til grundvallar fyrir þá sem eiga að njóta. Mér sýnist kannski að það hafi ekki verið skýrt markað í sambandi við þetta fjármagn og ekki verður séð á svari ráðherra á þskj. 112 að auglýst hafi verið opinberlega eftir umsóknum í féð en það kann þó að vera án þess að ég viti það nákvæmlega. Mér finnst að það ætti að vera grundvallaratriði við ráðstöfun fjár að óskað sé eftir umsóknum á skýrum forsendum þannig að í framhaldinu sé hægt að taka afstöðu til málsins með efnislegum rökum og fylgja síðan málinu eftir.

Ég hef ekki kannað það neitt til þess að dæma um það hvernig til hafi tekist við þessa úthlutun og ég vil ekki gerast dómari í því efni. En ég hef heyrt gagnrýni á þetta. Ég hef það heyrt frá fyrirtækjum í hótelrekstri sem telja að þau hafi verið hlunnfarin og ég legg áherslu á að reynt verði að vanda sem best úthlutun á slíku fé þannig að það standist eðlilega viðmiðun og séu þá sértækar aðgerðir eins og mér sýnist að hér hafi átt að vera um að ræða og þess vegna hafi átt að réttlæta að sumir fengu en aðrir ekki.