Fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995

Fimmtudaginn 14. nóvember 1996, kl. 13:49:36 (1192)

1996-11-14 13:49:36# 121. lþ. 24.95 fundur 87#B fjárstyrkur til heilsárshótela á landsbyggðinni 1995# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur

[13:49]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram. Þetta er dæmi um það hvernig við eigum ekki að standa að málum og er til stórtjóns fyrir ferðaþjónustuna því að ef það er eitthvað sem við þurfum ekki á að halda í ferðaþjónustu og þá sérstaklega úti á landi, þá er það að menn séu dregnir í dilka.

Allir sem standa að uppbyggingu ferðaþjónustunnar hafa eitt lykilorð í dag, þ.e. samstaða. Þetta mál er þess eðlis að menn agnúast hver út í annan vegna þess að einn fær og annar ekki og er svo dæmigert í okkar kerfi eins og svo margoft hefur komið fram og þetta þarf að laga. Við þurfum að styrkja ferðaþjónustuna úti um allt land. Ég er sammála því. Það er ástæða til þess að setja opinbert fé í slíka styrkingu, en þá verða allir að sitja við sama borð, sækja um eftir sömu leikreglum og það verða allir að njóta til þess að komast að þeim leiðarenda sem við viljum sjá, þ.e. samhæfingu á breiðum grundvelli.

Mér heyrist hæstv. ráðherra hafa áform um að breyta vinnuaðferðum og það er vel. Ég vonast til þess að þeir sem fara með þessi mál sjái að sér þannig að við gætum samhæfingar til samstillts átaks um uppbyggingu í ferðamálum, en ekki að hygla einstökum aðilum sem kannski mismunandi forsendur eru fyrir að gera. Varðandi hótel á landsbyggðinni, þessi stóru hótel, þá á þetta að heita réttum nöfnum ef um rekstrarstyrk er að ræða. Ef það er markaðsátak á það að heita því nafni. Það er þetta sem samkeppnisaðilar gagnrýna, þ.e. að vegna þess að engar skýrslur hafa verið gefnar og engar upplýsingar gefnar af öðru tagi, þá hafa þeir grunsemdir um að þetta hafi gengið inn í almennan rekstur viðkomandi fyrirtækis og skekkt samkeppnisstöðu. Það er óviðunandi fyrir alla.